Tinna Gilbertsdóttir bendir m.a. á að það sé undarlegt að ætla að leggja til grundvallar, við útreikning á veiðigjöldum, verð uppsjávartegunda á Noregsmarkaði enda íslenska og norska varan alls ekki ekki samanburðarhæfar.
Tinna Gilbertsdóttir bendir m.a. á að það sé undarlegt að ætla að leggja til grundvallar, við útreikning á veiðigjöldum, verð uppsjávartegunda á Noregsmarkaði enda íslenska og norska varan alls ekki ekki samanburðarhæfar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég vil biðla til allra sem hafa hagsmuna að gæta að eiga gott samtal um þetta mál og hafa allar staðreyndir á hreinu áður en svona risastór ákvörðun er tekin.“ Þetta segir Tinna Gilbertsdóttir, formaður Kvenna í sjávarútvegi, þegar hún er…

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ég vil biðla til allra sem hafa hagsmuna að gæta að eiga gott samtal um þetta mál og hafa allar staðreyndir á hreinu áður en svona risastór ákvörðun er tekin.“

Þetta segir Tinna Gilbertsdóttir, formaður Kvenna í sjávarútvegi, þegar hún er spurð hvernig henni lítist á hugmyndir nýrrar ríkisstjórnar um breytingar á auðlindagjaldi sjávarútvegsins.

Tinna, sem þekkir mjög vel til í greininni, bendir á að sú útfærsla sem ríkisstjórnin hefur lagt til geti falið í sér að upphæð veiðigjaldanna allt að tvöfaldist frá því sem nú er og geti þessi viðbótarskattlagning bæði valdið því að sum íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hreinlega leggi upp laupana, og einnig að vinnsla á fiski færist í auknum mæli úr landi. „Áhrifin myndu ekki bara ná til fiskvinnslanna heldur líka hafa keðjuverkandi áhrif á fyrirtæki á borð við Lýsi, Kerecis og fleiri stöndug félög sem hafa byggt árangur sinn á góðu samstarfi við þau fyrirtæki sem fullvinna fiskinn með nýtingu hliðarafurða á borð við lifur, roð, ensím og kollagen.“ Tinna undirstrikar að þökk sé mikilli tæknivæðingu og metnaði íslenskra fiskvinnsla hafi þessi félög getað reitt sig á að hliðarafurðirnar séu af bestu fáanlegu gæðum og til í nægu magni. „Ísland á fyrirtæki sem hafa gert ótrúlega flotta hluti á þessu sviði og gæti það sett þau í vonda stöðu ef hækkuð gjöld breyta rekstrarforsendum svo mikið að fullvinnsla hverfi að stórum hluta úr landinu.“

Margir eiga hagsmuna að gæta

Tinna ítrekar að stíga verði varlega til jarðar og leita leiða til að sætta ólík sjónarmið. Hún bendir á að það hljóti að vera sameiginlegt markmið þjóðarinnar að fara vel með auðlindir hafsins og hámarka aflaverðmæti, og á sama tíma styrkja stoðir sjávarútvegsins. „Sjávarútvegurinn leikur ótrúlega stórt hlutverk í hagsæld þjóðarinnar og við búum að fiskveiðistjórnunarkerfi sem þykir með þeim bestu í heimi, og ekki að ástæðulausu að mörg ríki líta á íslenska kerfið sem fordæmi til að fylgja,“ segir hún.

Tinna minnir á að árangur íslenska kerfisins hafi ekki látið á sér standa og greinin bjóði upp á fjölda góðra starfa auk þess að fjölmörg kröftug og verðmæt fyrirtæki hafi orðið til í kringum sjávarútveginn. „Og ef stjórnvöld vilja ganga mjög langt í að breyta þessu kerfi verða hagaðilar fyrst að eiga alvöru samtal. Þeir eru ekki fáir sem hafa beinna og óbeinna hagsmuna að gæta.“

Tinna tekur undir þau sjónarmið að misskilnings kunni að gæta um fjárhagslega burði greinarinnar. Hún segir að vissulega megi finna mörg stöndug félög í íslenskum sjávarútvegi, en víða sé svigrúmið þannig að ekki sé endilega mikill afgangur hjá fyrirtækjum sem þó eru jafnan burðarstólpinn í atvinnulífi síns bæjarfélags eða landshluta. „Ég hef áhyggjur af litlu og meðalstóru fyrirtækjunum sem oft eru í þeirri stöðu að þurfa að vega og meta hvort kaupa þurfi fisk á markaði til þess að geta haldið húsinu opnu, geta ræst vélarnar og haft einhverja vinnu fyrir starfsfólkið. Þarf þá ekki mikið til, eins og t.d. mikla hækkun veiðigjalda, til að forsendurnar breytist það mikið að betra sé að hafa slökkt á vélunum frekar en að kveikja á þeim.“

Óheppilegir hvatar

Tillögur ríkisstjórnarinnar miða m.a. við að annars vegar leggja uppboðsverð á bolfiski til grundvallar á útreikningi auðlindagjalds, og hins vegar miða verð uppsjávarafurða við það verð sem greitt er á Noregsmarkaði. Tinna segir margt athugavert við þessa aðferð, líkt og aðrir hafa bent á: „Eins og staðan er í dag fer aðeins lítið brot af veiddum botnfiskafla á markað og verðmyndunin þar gefur ekki endilega rétta mynd af verðmæti aflans heilt á litið,“ segir hún. „Og sá uppsjávarfiskur sem verslað er með í Noregi er allt önnur vara en sú loðna, makríll og síld sem veiðist á Íslandsmiðum. Þetta eru flökkustofnar og þegar þeir koma í íslenska lögsögu eru þeir á allt öðru vaxtar- og þroskaskeiði en þegar þessir stofnar veiðast í norskri lögsögu. Fyrir vikið eru íslenska og norska varan alls ekki samanburðarhæfar.“

Bendir Tinna á að hætt sé við að hugmyndir ríkisstjórnarinnar, eins og þær hafa verið kynntar, skapi hvata fyrir útgerðir að leggja meiri áherslu á veiðar en draga í staðinn úr vinnslu, og selja megnið af aflanum úr landi til verkunar. „Ég held þetta gæti gerst hraðar en fólk áttar sig á og að lítið verði eftir á Íslandi nema kannski frumvinnslan,“ segir Tinna og tekur undir að þegar dæmið er reiknað til enda gæti hækkun veiðigjalda jafnvel leitt til þess að skattspor sjávarútvegsins minnki.

Ofan á breytingartillögur stjórnvalda bætist síðan sú pólitíska óvissa sem stjórnarhættir Donalds Trumps hafa skapað. Tinna segir ljóst að Ísland verði að fara mjög varlega ef á að takast að tryggja góðan aðgang að Bandaríkjamarkaði og er það ekki síst sjávarútvegurinn sem á þar einna mest undir. „Undanfarna daga og vikur höfum við séð Trump breyta tollum á aðrar þjóðir á svipstundu og enginn veit hvað gerist næst. Af þessu hlýst mikið óvissuástand um allan heim og allir halda að sér höndum. Við svona aðstæður ætti síst að koma til greina að hækka álögur á sjávarútveginn.“

Tengslanet sem munar um

Að undanförnu hefur starfsemin verið með öflugasta móti hjá Konum í sjávarútvegi (KIS) og segir Tinna að félagsmeðlimir séu núna nærri 380 talsins en voru um 100 þegar félagið var stofnað fyrir hálfum öðrum áratug. „Það er gaman að sjá að ákveðin endurnýjun er að eiga sér stað og ný andlit að birtast á viðburðunum okkar. Ungar konur eru í vaxandi mæli farnar að líta á sjávarútveg sem álitlegan starfsvettvang og þær sjá að félagið er góður staður til að útvíkka tengslanetið.”

Tinna segir félagið opið konum sem starfa hvort heldur sem er beint eða óbeint við sjávarútveginn og nefnir hún sem dæmi að í hópnum sé að finna konur úr fjármálageiranum sem vinna mikið með sjávarútvegsfyrirtækjum. „Svo er gaman að segja frá því að á næsta aðalfundi munum við stækka félagið enn meira og bætist félagið Konur í eldi við hópinn sem sjálfstæð deild innan Kvenna í sjávarútvegi.“

Að sögn Tinnu er mikilvægt fyrir konur í greininni að eiga sér vettvang eins og KIS. „Ég hóf störf í sjávarútvegi fyrir um fimmtán árum og fór þá t.d. að sækja ráðstefnur og sýningar erlendis þar sem ég var iðulega ein af örfáum konum í hópi jakkafataklæddra karla. Tengslanetið á milli kvenna í greininni var smátt og sundurliðað og helst að konur innan sama fyrirtækis eða í sama byggðarlaginu þekktu hver aðra og gætu haldið hópinn og vantaði að virkja samlegðaráhrif kvenna í sjávarútvegi.“

Starfsemi KIS er einkum bundin við vetrarmánuðina og er vaninn að meðlimir félagsins hittist á mánaðarlegum viðburðum. Tinna segir félagsskapinn ánægjulegan en það hafi líka mikið faglegt vægi fyrir konur að geta leitað ráða og leiðsagnar hjá stöllum sínum og búa að öllum þeim kostum sem fylgja sterku tengslaneti, og að KIS hafi greinilega hjálpað konum í greininni að taka sér meira pláss og öðlast sterkari rödd í atvinnuvegi sem lengi vel var mjög karllægur. „Við pössum upp á og greiðum leið hver annarrar. Ef við vitum af áhugaverðu tækifæri þá segjum við hver annarri frá því og getum mælt með öflugum konum úr félaginu þegar við vitum af lausum stöðum. Svo munar um það að geta einfaldlega tekið upp símann og hringt í vinkonu úr greininni til að fá svarið við faglegri spurningu.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson