Greint var frá því á baksíðu Morgunblaðsins 13. apríl 1945 að góðir gestir úr Menntaskólanum á Akureyri hefðu komið í heimsókn í Menntaskólann í Reykjavík. Við erum að tala um Sigurð Guðmundsson skólameistara og fimm nemendur sem allir voru nafngreindir.
„Norðanmenn komu hingað í flugvjel, en frá flugvelli var haldið að Mentaskólanum. — Höfðu nemendur safnast saman fyrir framan skólann, en ísIenski fáninn hafði verið dreginn að hún,“ stóð í fréttinni. Augljóst var af henni að MR var að launa MA greiða, en sunnanmenn höfðu áður fengið góðar móttökur nyrðra.
Pálmi Hannesson, rektor MR, ávarpaði gestina og sungið var „Hvað er svo glatt“. Kennarar og nemendur buðu svo gesti sína velkomna með kröftugu Menntaskóla-húrra.
Í ræðu sinni þakkaði Sigurður fyrir hönd nemenda boðið. „Þeir munu vera margir,“ sagði skólameistari, „sem álíta, að heimsóknir okkar colleganna, sjeu lítíls virði og síst til góðs. Slíkar fullyrðingar tel jeg rangar.“
Var því tekið með dynjandi lófataki, nemenda og kennara.