Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Í skýrslu verkefnisins, Auðlindin okkar – sjálfbær sjávarútvegur, sem birt var í ágúst 2023 segir: „Álagning veiðigjalda ætti að öðru óbreyttu að leiða til aukinnar hagræðingar, þar sem þau fyrirtæki sem ekki geta staðið undir gjaldinu hverfa úr greininni annaðhvort með því að leggja niður starfsemi eða með því að sameinast öðrum fyrirtækjum.“
Alls komu 46 einstaklingar að stefnumótunarverkefninu í gegnum fjóra starfshópa, eina verkefnastjórn og eina samráðsnefnd. Svandís Svavarsdóttir þáverandi matvælaráðherra hrinti af stað „Auðlindinni okkar“ árið 2022 og sagðist hún vilja vinna að sátt um íslenskan sjávarútveg.
„Skýrar vísbendingar eru um stærðarhagkvæmni í íslenskum sjávarútvegi og sýnt hefur verið fram á að álagning veiðigjalda leiði til samruna fyrirtækja í greininni þannig að þeim fækkar á sama tíma og þau stækka. Þetta er í góðu samræmi við rannsóknir sem sýnt hafa fram á að stærstu og fjárhagslega sterkustu fyrirtæki í sjávarútvegi greiði meirihluta innheimtra auðlindagjalda,“ segir í skýrslunni.
Jafnframt segir að það hafi verið „færð fyrir því rök að álagning veiðigjalda umfram getu hennar til greiðslu á hverjum tíma tefli samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs í tvísýnu. Einnig hefur verið bent á að álagning veiðigjalda geti rýrt skattstofna hins opinbera þegar til lengri tíma er litið sem aftur geti skilað sér í minni jákvæðum efnahagslegum ábata af auðlindinni en annars væri.“
Fjöldi fólks kom að
Stefnumótunin átti að skila inn tillögum um breytingar til úrbóta á íslenskum sjávarútvegi á öllum sviðum, allt frá eftirliti og skattlagningu til fiskveiðistjórnunar og jafnréttismála.
Starfshópurinn sem fjallaði sérstaklega um veiðigjöld og skattspor sjávarútvegsins var titlaður „Samfélag“ og gegndi Gunnar Haraldsson framkvæmdastjóri Intellecon formennsku. Auk hans voru í hópnum þau Catherine Chambers rannsóknastjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða, Hreiðar Þór Valtýsson dósent á auðlindadeild Háskólans á Akureyri, Katrín Júlíusdóttir fyrrverandi þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar og Valgerður Sólnes þá dósent hjá lagadeild Háskóla Íslands.
Gunnar og Katrín sátu einnig í svokölluðum hagrænum hópi sem gert var að meta efnahagslegar afleiðingar af mismunandi leiðum í núverandi kerfum fiskveiðistjórnunar og áhrif mismunandi sviðsmynda við mögulegar breytingar á fiskveiðistjórninni og auðlindagjöldum. Ásamt þeim voru í hópnum þau Eggert Benedikt Guðmundsson leiðtogi sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu, Ingveldur Ásta Björnsdóttir þá sjálfstætt starfandi ráðgjafi og Huginn Freyr Þorsteinsson einn eigenda og ráðgjafa AtonJL. Störfuðu með hópnum Mikael Rafn L. Steingrímsson og Jón Þrándur Stefánsson sérfræðingar í matvælaráðuneytinu.
Hagræni hópurinn ritaði áttunda kafla í skýrslu Auðlindarinnar okkar og er þar fjallað um þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Lagði hópurinn fortakslaust til að aflamarkskerfi yrði viðhaldið við stjórn fiskveiða.
Er bent á að kerfið hafi gert útgerðum kleift að draga úr offjárfestingu í veiðum og vinnslu, skilað skilyrði fyrir skipulagða sókn og minnkað álag á vistkerfi sjávar. Vandamál sem til umræðu eru í þjóðfélaginu hér á landi séu því eðlisólík því sem gerist erlendis, hér hafi aðallega verið til umræðu hvernig dreifa eigi arði af nýtingu auðlindarinnar en erlendis sé litlum sem engum arði til að dreifa.
Mikil óvissa um rentu
Í umræðunni hefur verið vísað til auðlindarentu sem grundvallar álagningar veiðigjalda en auðlindarenta er meintur umframábati sem getur orðið til við nýtingu auðlindar. Umframábati vísar til efnahagslegs ábata sem til verður umfram það sem mætti vænta við aðra nýtingu fjármagns og framleiðsluþátta að öðru óbreyttu.
Hagræni hópurinn sagði í fyrrnefndri skýrslu ljóst að flókið úrlausnarefni væri að framkvæma greiningu á auðlindarentu og hlutfall veiðigjalda af henni.
„Vegna óvissu og breytileika í umfangi auðlindarentu yfir tíma getur ekki talist varfærið að innheimta alla áætlaða rentu með veiðigjöldum. Sé rentan ofmetin getur það leitt til rekstrarvanda og gjaldþrota í greininni, jafnvel fyrir þau fyrirtæki sem eiga einungis í tímabundnum lausafjárvanda. Sé rentan vanmetin má færa rök fyrir því að eigandi auðlindarinnar fái ekki eðlilegan arð af eign sinni.“
Þá er einnig sagt „varhugavert að leggja að jöfnu ábata eða hagnað í tilteknum atvinnugreinum og auðlindarentu. Erfitt getur reynst að meta fórnarkostnað vinnuafls og fjármuna auk þess sem meðferð afskrifta og fjárfestinga getur haft mikil áhrif á hagnað og arðsemi til skamms tíma og sagt lítið um arðsemi til lengri tíma. Eins og gefur að skilja getur umframhagnaður, þ.e. hagnaður sem er umfram einhvers konar meðaltal, myndast víða í efnahagslífinu af ýmsum orsökum. Oftast er slíkur umframhagnaður aðeins tímabundinn þar sem markaðsöflin leiða til þess að þessi umframhagnaður hverfur.“
Vakti hópurinn athygli á því að afkoma í sjávarútvegi væri háð fjölmörgum þáttum svo sem verði afurða og kostnaði aðfanga, hagræðingu í rekstri, sveiflum í stofnstærðum, aflabrögðum og gengi krónunnar.
Þegar greitt?
Lét hópurinn reikna út hver hlutur ríkisins hefði verið í auðlindarentunni og sýndu útreikningar að hluturinn var að meðaltali 16-18 prósent á tímabilinu 2010 til 2023.
„Það að veiðigjöld hafi numið að meðaltali 16-18% af reiknaðri auðlindarentu er, að öðru óbreyttu, ekki vísbending um að núverandi veiðigjöld séu of lág. Það veldur vanda við fyrrgreinda útreikninga að metin renta er reiknuð sem hlutfall af útflutningsverðmæti allra sjávarafurða, en í þeirri upphæð er bæði sá virðisauki sem átt hefur sér stað í vinnslu, markaðsstarf o.þ.h. auk þess sem virði afla utan Íslandsmiða er einnig tekið með. Veiðigjöld eru hins vegar lögð á veiðarnar sjálfar sem afgjald fyrir notkun og ættu því frekar að miðast við aflaverðmæti úr sjó.“
Einnig er sagt líklegt að auðlindarenta í sjávarútvegi hjá þeim sem nú stunda útgerð gæti verið lítil sem engin „þar sem þau hafa nú þegar greitt fyrir hana í verði aflaheimilda. Við þetta má bæta að þegar, og ef, auðlindarenta myndast í sjávarútvegi þá sé um að ræða áhrif aukningar í afla eða hagstæðra gengisbreytinga.“
Veikir samkeppnisstöðu
Sveinn Agnarsson, prófessor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, og Vífill Karlsson, þáverandi verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi en nú prófessor í hagfræði við háskólann á Bifröst, sinntu útreikningum og mati á áhrifum breytinga sem bornar voru undir hagrænan hóp Auðlindarinnar okkar.
Leitað var til Sveins og spurt hvort hann væri til í viðtal um hugsanleg áhrif tillagna ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um stórfellda hækkun veiðigjalda. „Nei, ég held ekki,“ svaraði hann stuttort.
Sveinn hefur þó ritað um veiðigjöld, meðal annars í skýrslunni Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi sem unnin var fyrir þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti og birt í maí 2021. Í þeirri skýrslu, sem Sveinn ritstýrði og þrír aðrir prófessorar og doktorar komu að, segir: „Veiðigjaldið veikir samkeppnisstöðu íslensku fyrirtækjanna en endurspeglar jafnframt efnahagslegan styrk greinarinnar. Á árunum 2010-2013 voru arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði lægri hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en fyrirtækjum almennt, en munurinn var lítill á árunum 2014-2018.“
Auk þess er íslenskur sjávarútvegur sagður skera sig úr í hópi nágrannaþjóða hvað viðkemur umfangi og eðli styrkja. „Víðast hvar eru beinir styrkir til sjávarútvegs verulegir en hér á landi greiða útgerðarfyrirtæki veiðigjald. Sú staðreynd að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki geta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er annars vegar merki um góða stjórn fiskveiða og fjárhagslegan styrk sjávarútvegs á Íslandi en einnig um bágt ástand í fiskveiðum annars staðar.“