Icelandair hóf á fimmtudaginn að fljúga til Nashville í Tennessee-ríki í Bandaríkjunum. Þar með bætist enn í þá áfangastaði sem flugfélagið flýgur til í Bandaríkjunum og eru þeir nú 18 talsins. Áætlað er að flogið verði til borgarinnar fjórum sinnum í viku þangað til í lok október.
Nashville er mikil menningarborg en hún er oft nefnd tónlistarborgin, almennt talin höfuðborg kántrítónlistar, segir Icelandair í tilkynningu.
Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs, segir afar ánægjulegt að bæta Nashville við leiðakerfið. Hann segir viðtökurnar hafa verið það góðar að ákveðið var að flýta upphafi flugferðanna um fimm vikur.
Doug Kreulen, forstjóri Nashville-flugvallar, segir samstarfið styrkja hlutverk flugvallarins sem tengimiðstöðvar við umheiminn og einnig skapi það ný tækifæri fyrir ferðamenn, fyrirtæki og ferðaþjónustu.