Hvað ertu að mála?
Ég er að mála abstrakt og fígúratíft að mestu og reyni að hugsa út fyrir rammann. Uppsprettan hjá mér er þessi þörf fyrir að skapa og vera í núinu. Myndlistin er eins og hugarjóga fyrir mig og ég næ algjörlega að núllstilla mig og jafnvel vinna úr tilfinningum í leiðinni. Dagsdaglega starfa ég við allt aðra hluti en ég er klínískur félagsráðgjafi, EMD-áfallameðferðaraðili og fjölskyldufræðingur. Myndlistin er kærkomið mótvægi við mína vinnu.
Hvenær byrjaðir þú að mála?
Ég fór ekki að mála fyrir alvöru fyrr en fyrir tíu árum en sonur minn Magnús Orri, sem er listamaður, hefur hvatt mig endalaust áfram. Við stefnum svo á samsýningu í sumar í Litla galleríinu í Hafnarfirði í júlí.
Hver var kveikjan að því að halda sýningu?
Ég hef verið skúffumálari en gaf sjálfri mér það loforð að halda sýningu þegar ég yrði sextug, sem ég varð í janúar. Nú þarf ég að standa við það þótt ég hafi alltaf verið feimin við þá hugmynd. En nú hendi ég mér í djúpu laugina og ég heyri að fólk er spennt fyrir þessu. Ég mun sýna á milli tíu og tólf verk sem eru öll til sölu. Ég held áfram að mála á meðan ég hef gaman af þessu.
Áttu þér fyrirmyndir í myndlist?
Ég er undir áhrifum gömlu meistaranna eins og Picassos, Dalís, Basquits og Mirós. Þeir eru alveg frábærir og myndlistin mín er svolítið í þeirra anda. En varðandi innlenda listamenn er ég undir áhrifum frá Magnúsi Orra. Hann byrjaði að mála tveggja ára og var alltaf með lit í hendi.
Þannig að sonurinn hefur smitað þig?
Já, algjörlega. Ég var ekkert að mála sjálf sem krakki, þótt ég hafi alltaf verið mjög skapandi og alltaf haft þessa þörf. Ég hef verið að búa til skart og föndra og búa til skúlptúra úr pappamassa. En málverkið á hug minn núna.
Sunna Ólafsdóttir heldur sína fyrstu einkasýningu um helgina í Núllinu í Bankastræti. Opið er á föstudag á milli 18 og 21 og á laugardag og sunnudag milli 17 og 19. Öll velkomin.