Gunnar Egill Daníelsson
Stundum þegar maður heyrir skemmtileg eldri lög er fyrsta verk að athuga hvort þau sé að finna á helstu streymisveitum á við Spotify eða Apple Music. Þegar reynist snúið að finna slík lög á Spotify og Apple Music á YouTube það til að koma til bjargar. En hvað ef lag er hvergi að finna á veitum sem nútímamaðurinn er orðinn háður með öllu? Hvað þá? Er það bara til á geisladiski?
Ljósvaki heyrði brot úr laginu Partí á Rassgötu 3, sem Sólstrandargæjarnir gáfu út árið 1996, í útvarpsþættinum Árið er á Rás 2. Stórskemmtilegt viðlagið greip ljósvaka strax og ekki spillti fyrir að enginn annar en Jónsi úr Sigur Rós var á meðal þeirra sem sáu um bakraddir. Um grínlag er að ræða þar sem einfaldur textinn hendir gaman að því hvernig viðlagið festist í hausnum á manni, sem það svo sannarlega gerir.
Það er til ábreiða af laginu á YouTube og fyrstu 24 sekúndur lagsins eru svo á Hljóðsafn.is. Miðað við orð Sólstrandargæjans Jónasar Sigurðssonar í þættinum stóð ekkert endilega til að gefa lagið út og varð maður þess áskynja að stoltið væri ekki mikið. Ljósvaka þykir algjör óþarfi að skammast sín nokkuð fyrir skemmtilegt lagið og biðlar til þeirra að koma því á streymisveitur.