Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Eftir ítarlegt þróunar- og löggildingarferli í samvinnu við Arctic Fish í sláturhúsi fyrirtækisins í Bolungarvík hefur Matvælastofnun samþykkt sjálfvirka aðferð Aquabyte til að meta stöðu kynþroska í eldislaxi, segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
„Þessi áfangi er stórt skref í stafrænum umbreytingum fiskeldis og vöktun á velferð fiska. Hann sýnir hvernig eftirlitsaðilar, atvinnugreinin og tæknifyrirtæki geta unnið saman að raunverulegum umbótum,“ segir Per Erik Hansen, reglu- og samskiptastjóri hjá Aquabyte, í tilkynningunni.
Talið er að notkun kerfisins hafi í för með sér verulegar umbætur í dýravelferð í fiskeldi, þar sem ekki þarf að kryfja 200 laxa á hverju eldissvæði. Í stað þess geta íslensk fiskeldisfyrirtæki safnað upplýsingum og skilað til opinberra eftirlitsaðila án þess að valda fiskum streitu eða hreinlega drepa þá.
Ávinningur fyrir velferð
Íslensk yfirvöld gera þá kröfu að fiskeldisfyrirtæki vakti kynþroska fiska í kvíum sínum sem lið í baráttunni gegn erfðablöndun og þar með verndun villtra stofna. Hingað til hefur þetta krafist þess að tekin séu reglulega sýni, sem framkvæmt er með því að skoða fiskana og hefur skráning farið fram handvirkt. Það er liðin tíð ef marka má fullyrðingar Aquabyte um lausn sína.
Kerfi fyrirtækisins styðst við öflugar myndavélar og skynjara með sjálfhreinsandi linsum sem mynda fiskana, en greining myndefnis er unnin af gervigreind og er upplýsingum skilað í staðlað skýrslugerðarkerfi Aquabyte. Þannig er hægt að fylgjast með þróun fiskanna í kvíunum og sinna skráningu án þess að valda fiski mögulegum skaða sem fylgir því að vera tekinn úr kví til skoðunar.
„Með þessu nýja tæki þurfa fiskeldisfyrirtæki ekki lengur að kryfja 200 fiska á hverju eldissvæði til að meta kynþroskastig laxa. Ferlið er nú alfarið myndgreiningarmiðað og gerir fyrirtækjunum kleift að uppfylla lagakröfur án þess að skaða fisk eða valda honum streitu. Þetta er ávinningur fyrir velferð fiska og gerir rekstraraðilum auðveldara með að koma í veg fyrir kynþroska eldislaxa í sjókvíum, sem er mikilvægt markmið,“ segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldisdeildar hjá Matvælastofnun.
Betri gögn
Fram kemur að norska fyrirtækið hafi unnið náið með Arctic Fish á Vestfjörðum við prófanir og þróun lausnarinnar í sláturhúsinu á Bolungarvík. Samstarfið hafi leitt til þess að hægt hafi verið að sýna íslenskum eftirlitsaðilum að tæknin standist íslenskar kröfur um vöktun.
John Gunnar Grindskar, framkvæmdastjóri eldis hjá Arctic Fish, segir prófanir búnaðarins hafa gefi jákvæðar niðurstöður og að staðfestingarferlar gangi vel. Þá telur hann um mikilvægt framfaraskref að ræða. „Þessi nýja aðferð við sjálfvirkt mat á kynþroska veitir dýpri innsýn á þann hátt sem gagnast öllum – fiskeldinu, eftirlitsaðilum og fiskunum sjálfum. Þetta snýst um að nota betri gögn til að taka betri ákvarðanir.“
„Við erum mjög þakklát Arctic Fish fyrir stuðning þess og vilja til að gera þetta mögulegt. Framlag fyrirtækisins í gegnum allt ferlið, bæði með aðgangi og dýrmætum athugasemdum, hafði lykiláhrif á að ná þessum mikilvæga áfanga,“ segir Kamilla Svindseth, sölustjóri Aquabyte á Íslandi.