Flestar ráðstefnur eru lítið annað en bergmál almæltra tíðinda. Það átti þó ekki við um ráðstefnu sem RSE, Rannsóknamiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum, og Austrian Economics Center héldu saman í Reykjavík 5. apríl 2025 um frelsi og frumkvöðla og ég skipulagði. Þar voru flutt mörg fróðleg erindi. Dr. Gabriel Stein, fjárfestir í Lundúnum og fjölfræðingur, sagði frá skáldsögu sinni um íslenska þjóðveldið, Sailing Free: The Saga of Kári the Icelander. Henni lýkur á Alþingi árið 1067, þar sem söguhetjan Kári Ragnarsson deilir við Gunnar goða, sem vill að Íslendingar afsali sér fullveldi og leiti skjóls í Evrópu. Hagfræðiprófessorarnir Per Bylund í Oklahoma og Sasa Randjelevic í Serbíu útskýrðu hvert væri hlutverk frumkvöðla í frjálsu atvinnulífi og hvernig áföll eins og fjármálakreppan 2007-2009 og kórónuveirufaraldurinn 2020-2021 ógnuðu atvinnufrelsi.
Frumlegustu hugmyndirnar voru þó settar fram í tveimur öðrum erindum. Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Austrian Economics Center í Vínarborg, kvað skynsamlegustu viðbrögð Evrópuríkja við nýlegum tollahækkunum Bandaríkjastjórnar vera að fella einhliða niður alla tolla á vöru frá Bandaríkjunum og bíða síðan viðbragða í vestri. Þetta er svipuð hugmynd og Elon Musk hefur sett fram, að Norður-Ameríka og Evrópa verði eitt risastórt fríverslunarsvæði. Prófessor Mark Pennington sagði að leiðin til ánauðar væri ekki lengur miðstýrður áætlunarbúskapur eins og Lenín og Stalín hefðu hugsað sér, heldur ofurvald orðræðustjóra á ýmum stigum, en þeir kæmu í veg fyrir frjálsa samkeppni hugmynda. Tók hann orðræðurnar um kórónuveirufaraldurinn og hamfarahlýnun til dæmis. Við erum hneppt í ósýnilega fjötra. Við veljum ekki. Það er valið fyrir okkur.