Gildrur nú á dögum eru orðnar töluvert smærri í sniðum en þær heimatilbúnu sem skipverjar á Vali ÍS notuðu á sínum tíma.
Gildrur nú á dögum eru orðnar töluvert smærri í sniðum en þær heimatilbúnu sem skipverjar á Vali ÍS notuðu á sínum tíma. — Ljósmynd/Eyjafréttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þ

Arinbjörn Rögnvaldsson

arir@mbl.is

Núna í vor hefjast tilraunir í Vestmannaeyjum til að veiða þorsk í gildrur. Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur umsjón með veiðunum, sem eru fimm ára tilraunaverkefni. Þekkingarsetrið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands og vinnur að verkefninu í samstarfi við Landssamband smábátaeigenda, Matís og Hafrannsóknastofnun.

Hörður Baldvinsson framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins sagði í samtali við Morgunblaðið í lok nóvember síðastliðins að í Kanada og Noregi hefði færst í vöxt að veiða bolfisk í gildrur.

„Okkar verkefni snýst um það hvort hægt sé að gera slíkt hið sama hér heima,“ sagði Hörður. Þekkingarsetrið nefndi einkum tvö atriði sem máli gætu skipt verði þessi veiðiaðferð að veruleika með tímanum. „Í þessu getur falist orkusparnaður fyrir þá sem stunda veiðar því ekki þarf að sækja gildrurnar fyrr en eftir allt að tíu daga. Þar sem fiskurinn er lifandi verður hann eins ferskur og hægt er þegar hann kemur úr sjó.“

Vel heppnaðar gildruveiðar fyrir tveimur áratugum

Hörður hafði orð á því að nýjasta tækni gæti gert slíkar veiðar árangursríkari, t.d. að festa beitu eða ljós á gildrurnar. Gildruveiðar hafa verið stundaðar um árabil með góðum árangri í Kanada og Noregi og benti Hörður á fyrst slíkar veiðar gengju vel þar gæti það sama átt við hér heima. Til dæmis gætu smábátasjómenn notað gildrurnar ásamt handfæraveiðum.

Tilraunir til að veiða þorsk í gildrur eru hins vegar ekki nýjar af nálinni hér landi. Haraldur Ágúst Konráðsson, þá skipstjóri á Vali ÍS-20 sem gerður var út af Hraðfrystihúsi Gunnvarar í Hnífsdal, tók þátt í að veiða þorsk í gildrur fyrir rúmum tuttugu árum.

Haraldur rifjar upp í samtali við Morgunblaðið að gildruveiðarnar hafi heppnast ljómandi vel.

„Við gerðum tilraunir með að veiða þorsk í gildrur í samstarfi við Hafrannsóknastofnun fyrir tuttugu árum. Það verður segjast að veiðarnar gengu ótrúlega vel og við höfðum áhuga á að halda þeim áfram en því miður varð ekkert úr því,“ segir Haraldur.

Spurður hvernig gildruveiðarnar hafi komið til segir hann að upphaflega hafi þeir verið að veiða þorsk með botnvörpu fyrir áframeldi Hraðfrystihúss Gunnvarar. Í kjölfarið hófst samstarf við Hafró um að þróa annars konar aðferðir sem gætu laðað bolfisk í veiðarfæri.

„Þetta samstarf þróaðist þannig að við settum búr í sjóinn. Svo prófuðum við setja ljós í búrin og þau fylltust af ljósátu út af ljósunum. Upp frá því tókum við eftir að fiskurinn sótti í það líka. Í framhaldinu voru bollaleggingar um að nota ýmsar tegundir af beitu en ákveðið var í samráði við Hafró að útbúa sérstakar gildrur með ljósi sem gætu lokkað ljósátu inn í gildrurnar sem fiskurinn svo elti,“ útskýrir Haraldur.

Aðspurður telur hann að gildrurnar þrjár sem voru notaðar hefðu hver um sig getað tekið tonn af þorski. Hann segir veiðiaðferðina ekki sérstaklega flókna miðað við önnur veiðarfæri.

„Við hífðum gildrurnar á svona tveggja til þriggja daga fresti sem stjórnaðist af veðri og þeim verkefnum sem við þurftum að sinna hverju sinni. Við settum gildrurnar í sjóinn og sökktum þeim niður á botn. Baujur voru svo festar við gildrurnar og við hífðum þær svo bara inn á nokkurra daga fresti. Það var nú ekki flóknara en það,“ útskýrir Haraldur.

Kapphlaup að koma þorskum lifandi í land

Haraldur segist ekki muna hvað verkefnið stóð lengi en man hins vegar vel eftir að gildruveiðarnar hafi verið stundaðar samhliða trollveiðum. Skipverjar hafi haft þann vana að kíkja á gildrurnar ýmist á morgnana eða kvöldin.

„Ég held að ég muni það rétt að við fengum mest um 300 þorska í eina gildruna. Það gat hins vegar farið eftir á hvaða svæði gildran var staðsett. Á vissum svæðum veiddust upp undir tveggja til þriggja kílóa þorskar í gildruna. Við fengum alveg væna þorska en það fylgdu líka smærri með. Það var einnig kapphlaup við tímann að fara með þorskinn lifandi að landi til að hámarka gæðin,“ segir Haraldur.

Meira en til í að prófa gildruveiðar aftur

Í ljósi þess að gildruveiðarnar lofuðu góðu fyrir tveimur áratugum kveður Haraldur aðspurður að það megi alveg búast við að gildruveiðar heppnist í Vestmannaeyjum. Hann tekur það hins vegar fram að skipverjar hafi notast við frumstæðar heimatilbúnar gildrur.

„Gildrurnar sem við notuðum voru hálfpartinn útbúnar í bílskúrnum en við höfðum tæknimenn frá Hafró til þess að hjálpa okkur að hanna þær og smíða. Það má samt alveg segja að þetta voru orðnar þokkalegar græjur hjá okkur í restina,“ segir Haraldur léttur í bragði.

Haraldur tekur undir með Herði að smábátasjómenn gætu stundað gildruveiðar samhliða handfæraveiðum. „Smábátar gætu alveg eins gert það, en menn verða útbúa báta sína sérstaklega fyrir allan þann búnað sem fylgir gildruveiðum að minni reynslu. Það verður að taka það með í reikninginn að ýmislegt hefur gerst í þróun rafhlaðna fyrir ljósin á þessum tuttugu árum. Mögulega er það ekki eins mikið mál að stunda bæði handfæra- og gildruveiðar og áður var,“ segir Haraldur.

Aðspurður segist hann alveg til í að prófa þessa veiðiaðferð aftur með betri búnaði. „Já, ég væri sko alveg til í að prófa það aftur að veiða þorsk með gildrum. Mér fannst þetta rosalega gaman á sínum tíma,“ segir Haraldur að lokum.

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson