Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Geldinganes á Sundunum við Reykjavík getur talist vera hvort heldur sem er eyja eða útnes. Frá fastalandi við Strandveg í Grafarvogshverfi í Reykjavík er slóði niður að því eiði eða hafti sem tengir staðinn við fastalandið. Fara verður yfir granda þennan gangandi því að slagbrandur lokar fyrir umferð bíla. Í áratugi hefur Geldinganes reglulega verið nefnt sem hugsanlegt byggingarland; stundum sem atvinnusvæði eða þá íbúabyggð.
Geldir sauðir fóður fálka
Uppbyggingu í Geldinganesi ber að skoða í ljósi fyrirætlana um gerð Sundabrautar. Gert er ráð fyrir að innan tíðar liggi fyrir hvar Sundabraut verður lögð. Sú lína sem oftast er nefnd er að sunnan megin verði upphafið í Holtagörðum og þaðan verði gerð göng eða brú yfir Elliðaárvog að Gufunesi. Þar rétt norðar myndi brautin liggja austanvert yfir Geldinganesið og svo áfram yfir upp á Kjalarnes.
Geldinganes er að stórum hluta samsíða Viðey. Sunnan ness er Eiðsvík en Leirvogur að norðan. Fyrir miðju er Geldinganes hæst 35 metrar en lækkar allan hringinn niður að fjöru. Á 18. öld voru svo geldsauðir haldnir í nesinu, en þeir voru fóður fyrir fálkarækt á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi. Þetta var á þeim tíma þegar lifandi fálkar voru mikilvægur útflutningur Íslendinga. Fuglum þessum átti að gefa kjöt af geldfé í gogginn og af því er nafnið Geldinganes komið.
Maríustakkur og mýrsóley
Annars fer litlum sögum af þessum stað, nema hvað að á fyrri hluta 20. aldar tíðkaðist að hafa þar hross í hagagöngu, og seinna var þessi staður notaður til skotæfinga. Þá er á sunnanverðu nesinu flak trébáts sem upphaflega var Hrönn KE-48. Hann fékk síðar nafnið Lax RE og var þá notaður til þjónustu við fiskeldi á Sundunum, en slitnaði seinna upp af legu og rak á land í Geldinganesi og þar er flakið enn.
Geldinganes er vel gróið, að stærstum hluta þýft land, þar vex snarrótarpuntur, gulmaðra, maríustakkur, mýrasóley, mýrfjóla, blóðkollur og blákollur. Og í þessu landi er heilmikið fuglalíf; þarna hefur sést fýll, æðarfugl, tjaldur, heiðlóa, hrossagaukur, þúfutittlingur, hrafn og snjótittlingur svo eitthvað sé nefnt, að því er fram kemur í skýrslu um náttúrufar á svæðinu sem fyrir margt löngu var unnin fyrir borgaryfirvöld.
Olíuhöfn eða íbúðasvæði
Í tímans rás hefur Geldinganes og hugsanleg uppbygging þar oft verið nefnd. Í fyrsta formlega aðalskipulagi Reykjavíkur sem náði til áranna 1962-1983 er nesið nefnt sem iðnaðar- og vörugeymslusvæði. Olíuhöfn, sögðu einhverjir.
Fyrstu hugmyndir um íbúabyggð á Geldinganesi koma fram í tillögu að skipulagi Reykjavíkur 1975-1995. Þar er gert ráð fyrir íbúðasvæði og að því gerðir uppdrættir og þeir samþykktir. Þessi áform voru söltuð af vinstrimeirihlutanum í borginni sem sat 1978-1982. Blanda af íbúabyggð og atvinnustarfsemi var stefið í vinningstillögu í hugmyndasamkeppni um byggð á svæðinu sem efnt var til árið 1990. Þá sá fólk fyrir sér að þarna yrði allt að 8.000 manna byggð.
R-listinn tók við völdum í Reykjavík 1994 og ekki var meira rætt um byggð í Geldinganesi, utan hvað endurlífgaðar hugmyndir um iðjustarfsemi á svæðinu komu stundum í umræðuna. Árið 1997 hófst grjóttaka á vegum Reykjavíkurhafnar á sunnanverðu nesinu úr námu sem blasir við, víða frá litið. Blágrýti þarna fengið var notað við hafnargerð í Örfirisey. Ekki hefur verið hreyft við umræddri námu nú í áraraðir.
Ný hverfi þarf sem fyrst
Í borgarstjórnarkosningum árið 2002 settu sjálfstæðismenn í Reykjavík á dagskrá umræðu um íbúabyggð og atvinnustarfsemi í Geldinganesi. Ekkert gerðist. Nú hefur hins vegar verið samþykkt að skoða tillögu um þetta sem Kjartan Magnússon lagði fram á dögunum og ekki í fyrsta sinn. Í umræðum í borgarstjórn á dögunum sagði Kjartan að taka þyrfti ný hverfi til uppbyggingar sem fyrst. Í Geldinganesi megi koma fyrir 7-10 þúsund manna byggð með góðu móti. Þarna megi hafa til hliðsjónar verðlaunatillögur úr samkeppninni árið 1990 um nýtt hverfi á Geldinganesi. Þær hafi elst vel og með uppfærslum megi afgreiða aðalskipulag svæðisins á skömmum tíma.
Sviptivindar úr Esju
Fyrirvari er gerður við landnám í Geldinganesi með tilliti til veðráttu þar, sbr. rannsókn sem var gerð fyrir um áratug. Þar kom fram að meðalvindur á Geldinganesi væri töluvert meiri en á öðrum stöðum á Reykjavíkursvæðinu. Á nesinu var vindstyrkur 5,9 m/s en 4,2 m/s nærri Veðurstofunni við Bústaðaveg. Þetta eru tölur sem veðurfræðingar segja að enn séu í góðu gildi. Síðari tíma mælingar hafi svo staðfest að í hvassri norðanátt hitti bylgja ofan af Esju oft á Geldinganes með sviptivindum og þá hvín í öllu. Slíkt er þó talið mega tempra með trjárækt.