Anastasía Naímenkó leiðir blaðamann og ljósmyndara inn í stöðina úr froststillunni sem fyrir utan ríkir, en hún hefur verið stofnanda stöðvarinnar innan handar undanfarin ár.
Við erum vart komin inn þegar fram hjá okkur brunar maður á hjólastól, fótalaus, en snýr sér við með glöðu geði um leið og Anastasía kallar til hans.
„Þetta er Oleksandr. Hann er einstakt tilfelli,“ segir hún. Hann brosir.
Hún útskýrir að á stofunni séu notaðir gervilimir sem framleiddir eru í þremur mismunandi ríkjum; Bandaríkjunum, Svíþjóð og Ástralíu. Tæknin er misjöfn eftir upprunalandinu og sömuleiðis þær leiðir sem framleiðendurnir hafa hannað til að festa nýju limina við líkama viðkomandi.
„Þetta er sænska gerðin,“ segir Anastasía og bendir á vinstra læri Oleksandrs. Út úr því stendur lítil títanstöng, sem fyrir ári var skrúfuð inn í lærbeinið til að festa á gervilim. Framan á hinu lærinu er áströlsk framleiðsla sem grædd var í hann fyrir einungis viku.
„Í honum koma því saman þessar tvær gerðir. Og eftir nokkra mánuði mun hann geta sagt okkur muninn.“
Uppi á vegg á ganginum, innan um myndir af öllum þeim sem stofan hefur útskrifað á undanförnum árum – og einkennismerki allra hersveita þeirra manna sem hingað hafa leitað, hangir dagatal.
Á því er mynd af prúðbúnum manni í hjólastól. Við hlið hans er glæsileg kona í galakjól.
„Þetta er ein frægasta klámstjarna Úkraínu,“ segir túlkurinn okkar, Tetjana, og bendir á að umrædd auglýsingaherferð hafi vakið mikla athygli innan landsins.
„Fyrir stríðið hefði það sem hún starfar við verið eitthvað til að skammast sín fyrir. En núna, ef þú ert að hjálpa hermönnunum okkar – ef þú ert að hjálpa hernum að verjast, þá skiptir það engu máli hvaðan peningarnir þínir koma,“ segir Tetjana.
„Það var viðkvæðið víða, eftir að þetta kom út, að þarna færi kona sem sýndi meiri mennsku og meiri gjafmildi en margir miklir áhrifa- og peningamenn.“
Herferðin hafði líka önnur áhrif.
„Fólk sem hafði særst, það var minnt á að það getur enn tekið þátt í samfélaginu, verið viðurkenndir samfélagsþegnar, klætt sig upp á og haft gaman,“ segir Tetjana.
Anastasía bætir við:
„Það er líka mikilvægt fyrir okkur að sýna að fólk með áverka, fólk með gervilimi – það má enn unna því.“
Hún segir þetta mikið vandamál í Úkraínu núna, á fjórða ári varnarstríðsins.
„Þú getur rétt ímyndað þér veruleika særðs hermanns. Þú kemur heim særður. Þú veist ekki hvað þú átt að gera. Þú veist ekki hvort þú getir fengið nýjan útlim eða ekki. Og konan þín fer frá þér.
Þess vegna viljum við sýna að aflimun er ekki endastöð. Það er enn hægt að gera margt ef þú færð gervilim og rétta aðstoð.“
Til viðbótar við hefðbundna líkamlega endurhæfingu er einnig skipulagður fjöldi íþrótta og tómstunda í húsinu.
„Þetta snýst líka um félagsskapinn. Hérna myndast samfélag þar sem hermennirnir geta stutt hver við annan. Okkur er annt um andlega heilsu, líklega jafnvel meira en þá líkamlegu,“ segir Anastasía.
„Ef þú ert með báða fætur en þú ert ekki í lagi hérna,“ bætir hún við og færir fingurinn upp að gagnauganu, „þá mun þetta ekki virka.“
Ekki eru allir svo heppnir að fá þá aðstoð sem hér er veitt. Raunar kemst aðeins brotabrot þeirra að sem um sækja. Langflestir eru hermenn sem áður börðust gegn Rússum.
Nú heyja þeir aðra baráttu.
Við höldum áfram lengra inn á endurhæfingarstofuna og göngum fram á mann á göngubretti.
Af þeim útlimum sem hann fæddist með er hann nú einungis með vinstri fót. Í stað hinna eru rennisléttir og svartir gervilimir.
Göngubrettið er sérstaklega smíðað til að létta þyngd líkamans af fótunum, um allt að 80-90 prósent, og er það aðeins annað tveggja slíkra tækja í Úkraínu.
„Eftir að þú gengst undir aðgerð og lærir að ganga á ný er sársaukafullt að reyna að stýra hreyfingum þínum,“ segir Anastasía. Þannig má leyfa líkamanum að laga sig að nýjum raunveruleika.
Gekk í herinn á fyrsta degi stríðs
Maðurinn kynnir sig sem Anton. Hann barðist við Rússa og var að verja borgina Bakhmút gegn árásum þeirra þegar sprengja hæfði hann árið 2023.
Hve lengi hafðirðu þjónað í hernum áður en þú særðist?
„Ég ákvað að ganga í herinn þegar stríðið braust út,“ svarar Anton. „Þann 22. febrúar 2022 gekk ég í herinn,“ bætir hann við, án þess að missa úr skref.
Fram að því var hann framkvæmdastjóri í stóru fyrirtæki. Nú, þremur árum síðar, segist hann aðspurður stefna á að geta keyrt bíl.
„Ég held einnig fræðslufundi með fyrrverandi hermönnum, þar sem ég deili með þeim reynslu minni og reyni að hjálpa þeim að finna eitthvað jákvætt í lífi sínu. Ég útskýri fyrir þeim að það sé ástæða til að lifa og ganga inn í framtíðina.“
Hvernig líður þér?
„Vel,“ segir hann, yppir öxlum lítillega, brosir og gengur áfram.
Það gerum við líka og höldum nú inn í lítinn sal.
Ekki síður mikilvæg félagsmiðstöð
„Hér eru stundaðar lyftingar, jóga og pílates,“ útskýrir Anastasía. „En það mikilvægasta í þessum sal er þessi veggur hér.“
Hann lætur ekki mikið yfir sér, þessi veggur. Á tvö spjöld eru festir ýmsir hversdagslegir hlutir á borð við hurðarhúna, blöndunartæki, innstungur og ljósrofa.
„Maður hugsar sig ekki tvisvar um þegar maður opnar dyr eða stingur einhverju í samband. En það er allt annað mál þegar þú ert kominn með gervihandlegg. Þess vegna, áður en við útskrifum menn héðan, þjálfum við þá hér. Til að þeir geti farið í gegnum daglegt líf án aðstoðar.“
Nú liggur leið okkar í hjarta miðstöðvarinnar, sem er stórt og opið rými fullt af líkamsræktartækjum. En hér eru einnig borð og stólar, hljóðfæri og spil. Og alls staðar er fólk, ýmist að þjálfa sig, spjalla eða spila. Hér má rækta bæði líkama og sál.
„Hermennirnir okkar verja mestum tíma hér og við viljum gefa þeim mikið pláss. Við viljum ekki hafa nein landamæri hérna inni. Hérna geta þeir fengið sér sæti, slappað af, borðað, talað saman og myndað sterkt og vinalegt samfélag,“ segir Anastasía.
„Þetta er ekki einungis líkamsrækt. Þetta er líka staður þar sem þú verð tíu til fimmtán klukkustundum á dag.“
Mismunandi er hvort menn gista einnig í miðstöðinni eða koma þangað á morgnana, eftir því hversu langt á veg þeir eru komnir í endurhæfingu.
Stofan starfar eingöngu á framlögum einkaaðila. Þó að stjórnvöld sjái um særða hermenn hafa þau ekki bolmagn til að útvega þeim jafn háþróaða gervilimi og stofan er fær um. Á móti kemur að mjög fáir komast hér að hverju sinni, eins og áður var getið.
„Munurinn er feikilegur,“ segir Anastasía um ólík úrræði stofunnar og stjórnvalda, og útskýrir að aðeins hér geti særðir hermenn fengið gervilimi skeytta inn í bein og lært að stýra þeim.
Bjuggu sig undir átök í Kænugarði
Úkraínski milljarðamæringurinn Vjatseslav Saporósjets er stofnandi Tytanov. Hann segir mér að á hverjum degi sæki að jafnaði tíu særðir hermenn um að komast hér að. Einungis 34 manns geta þó notið meðferðar hverju sinni.
Áður en innrás Rússa skall á af fullum þunga safnaði Vjatseslav auðæfum með uppbyggingu verslunarmiðstöðva í Úkraínu og Kasakstan. Nú fæst hann við annars konar uppbyggingu.
Að morgni 24. febrúar 2022 vaknaði hann á læknastofu í Kænugarði eftir að hafa gengist undir aðgerð um nóttina. Honum varð fljótt ljóst að starfsfólkið væri á förum. Stríðið væri hafið.
„Ég talaði við eigandann og við ákváðum að koma þarna upp skyndihjálparstöð. Við bjuggum okkur undir að barist yrði á götum borgarinnar,“ segir Vjatseslav.
„Við vorum heppin að það kom ekki til þess. Að herlið okkar náði að hrinda árásinni á Hostomel,“ bætir hann við og vísar til orrustunnar um flugvöllinn vestur af Kænugarði, þar sem örlög höfuðborgarinnar og jafnvel landsins alls voru undir.
Fyrstu vikurnar tók Vjatseslav til við að skipuleggja ferðir með særða burt frá Tsérnihív, Bútsja og Kramatorsk. Að auki breytti hann landareign sinni, þar sem finna mátti bíósal, sundlaug og einkaþyrlu hans, í skýli fyrir fólk á flótta. Það er mér tjáð í það minnsta, hann nefnir það ekki sjálfur.
„Fyrst var ég með tvo jeppa. Við fórum á þeim til Tsérnihív, sem á þeim tíma sætti stöðugum árásum úr lofti. Þaðan fórum við margar ferðir með fólk sem hafði særst.“
Gleymir aldrei sjúkrahúsinu
Það var í Tsérnihív, borg sem liggur norður af Kænugarði og nær landamærum Rússlands og Hvíta-Rússlands, sem hann fyrst sá fólk sem misst hafði útlimi. Fyrir stríðið bjuggu þar litlu fleiri en á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
„Ég mun aldrei gleyma því hvernig sjúkrahúsið leit út,“ segir hann um spítala borgarinnar.
„Ekkert rafmagn. Ekkert rennandi vatn. Rafstöð sem dugði aðeins fyrir skurðstofuna. Skálar hálffullar af blóði. Þetta sjúkrahús þurfti að taka á móti 150 særðum á dag. Það gafst ekki einu sinni tími á milli aðgerða til að fjarlægja afskorna útlimi af skurðstofunni. Þetta var færiband.“
Rússarnir eirðu heldur engu.
„Fólk sem kom saman til að sækja sér vatn eða mannúðaraðstoð…“ segir hann og gerir hlé á máli sínu. „Við höfðum engar loftvarnir. Rússarnir flugu bara yfir, sáu fólk komið saman, og vörpuðu sprengjum á það.“
Einn herflugmaður Rússa var skotinn niður en hélt lífi.
„Við náðum honum. Ég talaði við hann og ég spurði: Af hverju varparðu sprengjum á fólk sem er samankomið til að nálgast vatn eða nauðsynjar? Af hverju gerirðu þetta?“ segir Vjatseslav.
„Ég leit í augun á honum og ég sá ekki vott af mennsku.“
Varð vitni að alræmdri árás
Hann heldur áfram að lýsa þessum fyrstu vikum stríðsins:
„Vegurinn til Tsérnihív var ekki fær þar sem Rússar höfðu hertekið hluta af honum. Við brugðum því á það ráð að færa fólk í skjól með því að keyra utanvegar á jeppunum okkar.“
Því næst lá leið hans í austur, til framlínuborgarinnar Kramatorsk í Donetsk-héraði. Þar varð hann vitni að einni af alræmdustu árásum Rússa, þegar þeir skutu á loft tveimur eldflaugum og höfðu að skotmarki aðallestarstöð borgarinnar.
Talið er að nokkur þúsund manns hafi verið þar, í von um að geta flúið á brott með næstu lest, þegar flaugarnar skullu á mannmergðinni.
Alls myrtu Rússar 63 í árásinni, þar af níu börn. 150 til viðbótar særðust, 34 börn þeirra á meðal.
Innan um sundursprengdar ferðatöskur, með öllu því dýrmætasta sem úkraínskar fjölskyldur höfðu náð að pakka saman á flóttanum, lágu þessar sömu fjölskyldur nú eins og hráviði.
„Það voru tuttugu stórir pokar fullir af þeim líkamsleifum sem þó var hægt að tína saman,“ segir Vjatseslav.
Og þetta vildu Rússar. Hann útskýrir að eldflaugin hafi haft að geyma fjölda beittra málmblaða.
„Lestarstöðvarbyggingin varð þess vegna fyrir nær engu tjóni. En allir þeir sem voru þarna úti, að bíða eftir lestinni… einn átján ára piltur lifði einungis af vegna þess að það vildi svo til að líkamar annarra í fjölskyldunni skýldu honum.“
Í apríl sama ár ákvað hann að fjármagna ferð einnar stúlku frá Tsérnihív til Þýskalands, til að gangast undir aðgerð þar og fá gervilim, og komst um leið að því að ferlið er flókið og jafnan lífshættulegt.
„Þá byrjaði ég að beina athygli minni að gervilimum.“
Tvö þúsund manns á biðlista
Hann upplýsir að í Úkraínu séu áttatíu þúsund manns sem misst hafi útlim í stríðinu. Af þeim eru um átta þúsund sem falla undir sérsvið miðstöðvarinnar, en þriðjungur þeirra fær aðstoð erlendis.
„Á síðasta ári útskrifuðum við um hundrað manns með nýjan gervilim. Þrjú hundruð til viðbótar voru útskrifaðir úr endurhæfingu,“ segir Vjatseslav.
Tvö þúsund manns eru samt sem áður á biðlista eftir aðgerð hjá Tytanov. Hrollvekjandi tölfræði og fer síst skánandi:
„Hver mánuður af stríðinu leiðir af sér um þúsund manns sem þurfa á gervilim að halda. Allar stofurnar í Úkraínu samanlagt anna aðeins fimm hundruð.“
En hvað er það sem veldur þessu helst? Eru það einhverjar ákveðnar sprengjur eða skotfæri sem eiga mestu sökina?
Raunin er yfirleitt sú að þegar hermaður særist er brugðist við með því að hefta blóðflæði í viðkomandi útlim svo að honum blæði ekki út. En eftir því sem meiri tafir verða á að koma honum undir læknishendur, þeim mun ofar þarf að skera útliminn af til að forðast drep í líkamanum.
„Jafnvel þó að hermaður særist aðeins á öxl, og ekki endilega svo alvarlega, þá þarf að stöðva blóðflæðið. Svo bíður hann fram á kvöld eftir brottflutningi og er þá þar með búinn að missa handlegginn.“
Hann segir að rekja megi um sjötíu prósent aflimana til þessa. Um þrjátíu prósent séu svo vegna sprengna.
Stríðið um Úkraínu hefur breyst
„Það eru engar reglur í stríði. Stundum þurfa menn að bíða í hálfan eða heilan sólarhring eftir að verða fluttir á brott af vígvellinum. Einn hér hjá okkur mátti bíða í sex daga,“ segir Vjatseslav.
„Og óvinur okkar – hann leitar uppi bráðaliðið þegar það kemur til bjargar. Í Rússlandi borgar fólk fyrir að fá að veiða hermennina okkar.“
Hann greinir frá ólíkri reynslu úkraínskra hermanna af herfylkingum Rússa, og segir stríðið hafa tekið breytingum.
„Þegar herinn barðist til varnar Bakhmút, gegn málaliðum Wagners, gáfu þeir einn eða tvo klukkutíma svo að hægt væri að flytja særða á brott. Svo var skipst á særðum og einnig látnum hermönnum. Hvorki okkar menn né þeirra höfðu áhuga á að vera innan um særða hermenn óvinarins eða líkamsleifar látinna.“
Sjúkraflutningamenn á vegum samtaka Vjatseslavs komu að þessum flutningum, en þau reka í dag 22 sjúkrabíla og hafa frá upphafi stríðsins flutt fleiri en þrjátíu þúsund særða eftir árásir Rússa.
„En nú eru engar reglur lengur.“
Stríðið hófst fyrir löngu
Sumir segja að innrásin sé einungis rússnesku ríkisstjórninni að kenna, og að ekki sé við almenning í Rússlandi að sakast.
„Já, það er ekki satt,“ svarar Vjatseslav.
„Stríðið hófst fyrir löngu síðan. Árið 2014. Ég hef rætt við rússneska hermenn sem við tókum til fanga. Þau samtöl hafa komið mér í skilning um að þessi þjóð uppvakninga hefur verið búin undir það að ráðast á okkur undanfarin tuttugu eða þrjátíu ár.
Mistök ríkisstjórnarinnar okkar, og raunar heimsins alls, eru að átta sig ekki á því að stríðið hófst fyrir löngu.“
Hann segist hafa áttað sig á því af hverju Rússum er svo í mun að koma Úkraínu undir hælinn á sér.
„Úkraína er fallegt land. Jarðvegurinn er frjósamur og mikill. Það eru verðmæt jarðefni. Konurnar eru fríðar. Mennirnir eru harðduglegir. Þetta er eitthvað sem er ekki á hverju strái í Rússlandi, fyrir utan kannski jarðefnin,“ segir Vjatseslav.
„Rússar, upp til hópa, þeir vilja ekki vinna. Það sem þeir vilja því helst komast yfir með stríðinu eru auðlindirnar okkar og fólkið okkar. Þeir vilja að mennirnir okkar vinni fyrir þá og að konurnar okkar ali þeim nýja Rússa.“
Ómögulegt að sigra Rússland
Hvernig meturðu líkurnar á því að friður náist við Rússa, eða vopnahlé einhvers konar?
„Kannski er ég að segja nokkuð hræðilegt, en ég segi það samt: Við getum ekki sigrað í þessu stríði við Rússa. Þeir eru of margir. Auðlindir þeirra eru of miklar. Þeir hafa búið sig undir þetta stríð í þrjátíu ár.“
Hann bendir á að Úkraínumenn hafi nú þegar drepið um þrjú hundruð þúsund rússneska hermenn á vígvellinum.
„En á hverju ári deyja nærri tvær milljónir manna í Rússlandi. Þrjú hundruð þúsund – það er ekki neitt.“
Vjatseslav rifjar upp vopnahlésviðræðurnar sem fram fóru í Istanbúl skömmu eftir að innrásin hófst, eða í mars 2022.
„Pútín brosti og sagði: „Þið skiljið ekki. Það er ómögulegt að sigra Rússland.“ Þetta er raunveruleikinn. Til að vinna Rússa þarf allur heimurinn að berjast gegn þeim. Og fyrst þarf að jarða efnahag þeirra. Þú vinnur ekki stríðið með eldflaugum og byssukúlum. Síðustu þrjú ár standa því til sönnunar.“
Enn geti rússneskir olígarkar lifað í sællífi í löndum Evrópu.
„Það hefur ekki breyst.“
Úkraínumenn voru bjartsýnir
Ef til vopnahlés kemur, mun það endast?
„Ef það koma hingað vopnaðar sveitir annarra ríkja og þær skipta með sér 1.300 kílómetra langri varnarlínunni. Ef öll ríki NATO skipta þessu með sér. Eingöngu þannig getur vopnahlé haldist.“
Milljarðamæringurinn horfir á stöðuna frá kögunarhóli þess sem verður daglega vitni að hræðilegum afleiðingum stríðsins.
„Við áttum okkur nú þegar á því að það er borin von að ná aftur úkraínskri stjórn á Donbas, Krímskaganum eða Maríupol. Það er ómögulegt, að minnsta kosti næstu fimm ár, að endurheimta landsvæði í Úkraínu svo nokkru nemi.“
Vjatseslav er doktor í verkfræði og hefur frá upphafi stríðsins einnig stýrt framkvæmdum í austurhluta Úkraínu.
„Ég furða mig enn á því af hverju við höfum ekki byggt þar upp góð virki úr steypu,“ segir hann.
„Kannski er það vegna þess að við viljum ekki horfast í augu við að þurfa mögulega að hörfa aftur að þeirri línu: „Af hverju ættum við að leggja virkislínu við Pokrovsk ef við ætlum að sækja þaðan og endurheimta Donetsk?“
En þetta er eins og með líf þeirra sem hér eru. Ef þú vilt bjarga líkamanum, þá þarftu að skera á. Þú þarft að skera á og sjá frekar um landsvæðið sem enn er heilt.“
Hann kveður Úkraínumenn hafa verið mjög bjartsýna árið 2023.
„Ég var það líka. Við hugsuðum sem svo að ef við fengjum næg vopn þá næðum við að endurheimta aftur landið sem við höfðum misst. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tveimur árum að við þyrftum að semja – ég hefði neitað því.
En í dag stöndum við í öðrum sporum. Nú spyr ég mig: Af hverju sömdum við ekki árið 2022? Við hefðum getað bjargað þúsundum, þúsundum mannslífa. Og værum ef til vill reiðubúin fyrir næstu lotu.“