Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Bohemian Hotels, segir uppbyggingu 170 herbergja hótels í Bríetartúni 3-5 munu hefjast á næstu vikum. Stefnt er að því að opna hótelið fyrir sumarið 2027 en það mun heita Tempo by Hilton Reykjavík.
Hótelið verður við hlið Frímúrarareglunnar en þar er nú bílastæði. Gerður verður bílakjallari undir hótelinu með 55 stæðum og verða þau samnýtt með Frímúrarareglunni.
Gönguleið verður til
Aðkoma í bílakjallara verður frá Bríetartúni og niður ramp en hann verður ekki rekinn af hótelinu. Bakhliðar hótelsins munu meðal annars snúa að Rúgbrauðsgerðinni og Storm hóteli en á austurhlið lóðar er kvöð um gönguleið frá Bríetartúni um inngarð að Borgartúni.
Gert er ráð fyrir að vesturhluti byggingarinnar verði 2-4 hæðir en austurhlutinn átta hæðir. Á hótelinu verður veitingastaður og fundaaðstaða og er gert ráð fyrir þakbar á 5. hæð með útsýni til norðvesturs í átt að miðbænum. Þá verður líkamsrækt á hótelinu en þessi þjónusta verður öllum opin. Með því hækkar hótelið þjónustustigið á svæðinu.
Magnea Þórey vekur athygli á því að hótelið verði við enda borgargötunnar sem sé að verða til á Rauðarárstígnum samhliða endurgerð Hlemmsvæðisins. Staðsetningin sé því einstök og því þurfi eðlilega að leggja mikið upp úr hönnun.
Þarf að vanda valið
„Það er ekki hægt að setja hvað sem er við hliðina á Frímúrarareglunni. Það getur ekki hvaða vörumerki sem er notið sín á þessari staðsetningu. Þannig að við þurftum að taka mið af umhverfinu. Svo er mjög ánægjulegt að lokið verður við endurgerð Hlemmsvæðisins í sumar,“ segir Magnea Þórey.
Tempo by Hilton-hótelið í Bríetartúni mun tilheyra svonefndri EMEA-deild hjá Hilton-keðjunni en skammstöfunin vísar til Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku.
„Við skrifuðum á sínum tíma undir sérleyfissamning við Hilton um rekstur tveggja hótela en vorum ekki alveg búin að ákveða hvaða vörumerki við ætluðum að hafa í Reykjavík af því að þá var ýmislegt í bígerð hjá Hilton. Við erum búin að skrifa undir nýtt vörumerki, Tempo by Hilton, og nú er verið að kynna það í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku sem er markaðssvæðið sem við tilheyrum hjá Hilton. Það er búið að opna nokkur Tempo by Hilton-hótel í Bandaríkjunum og verðum við meðal þriggja fyrstu hótelanna með því vörumerki utan Bandaríkjanna en niðurröðunin mun ráðast af framkvæmdatíma.
Þarf að spegla staðinn
Þegar maður velur vörumerki á hótel þarf maður auðvitað að finna speglun á áfangastaðnum og speglun á þeim sem hafa áhuga á að heimsækja áfangastaðinn þannig að maður hafi þarfir þeirra í huga. Þetta vörumerki er í takt við áfangastaðinn en við horfum til kynslóðanna sem eru að fara að ferðast. Við erum ekki að reyna að höfða til eldri hópa en til eru hótel fyrir þá hér á markaðnum. Við þurfum að vera með vörumerki sem komandi kynslóðir eru spenntar fyrir og sjá að það er verið að lesa í þarfir þeirra. Þessar kynslóðir eru meðvitaðar um heilsuna og lífsstíl sinn. Það er ekki eins mikið lagt upp úr áfengi og óhollustu heldur vill unga fólkið hreyfa sig, skoða sig um, upplifa og fræðast. Jafnframt vill það afgreiða sig sem mest sjálft. Við munum leggja áherslu á að gestir hvílist vel enda er það hluti af því að hugsa vel um heilsuna,“ segir hún og útskýrir að nýja vörumerkið styðji jafnframt sókn á nýja markaði, sem falli að þeirri áherslu að hafa fjölbreytta samsetningu erlendra ferðamanna á Íslandi.
Taka mikið af framboðinu
„Svo þarf að taka mið af framboðinu sem fyrir er [á hótelmarkaðnum] og meta hvað væri nýtt og gott fyrir Reykjavík og Ísland að fá. Við vorum því mjög spennt fyrir því að fá vinsælt vörumerki sem gerði eitthvað spennandi fyrir áfangastaðinn og okkur. Við erum að forhanna hótelið, sem var kynnt á hótelfjárfestingaráðstefnunni (IHIF) í Berlín 31. mars. Við fáum vonandi mikla athygli út á það en ný vörumerki fá alltaf mikla athygli,“ segir Magnea Þórey og rifjar upp að Icelandair-hótelin hafi á sínum tíma heimsfrumsýnt Canopy by Hilton-vörumerkið en fyrsta hótelið með því vörumerki var opnað í miðborg Reykjavíkur sumarið 2016.
Magnea Þórey leiddi á sínum tíma Icelandair-hótelin í gegnum miklar breytingar. Alþjóðleg vörumerki voru þá innleidd í rekstur félagsins; Hilton, Canopy by Hilton og Curio Collection by Hilton. Það fyrsta, Hilton Reykjavík Nordica, var opnað haustið 2007.
Með hótel á Akureyri
Bohemian Hotels er jafnframt að undirbúa opnun hótels á Akureyri í samstarfi við Hilton-keðjuna. Hótelið á Akureyri mun heita Skáld Hótel Akureyri og verða rekið undir merkjum Curio Collection by Hilton. Það verður við Hafnarstræti en við hliðina eru nýjar íbúðir við Austurbrú við Pollinn og hefur reiturinn verið kallaður Drottningarreitur eftir Drottningarbraut.
Stefnt er að því að opna hótelið vorið 2026 en þar verða 71 herbergi og svítur og 15 íbúðir. Þar verður veitingasalur, móttaka og bar, fundaaðstaða, þaksvalir, líkamsrækt og skíðageymsla.
Magnea Þórey segir íbúa við Austurbrú munu geta nýtt sér þjónustu hótelsins á sérkjörum. Það sé nýlunda á íslenskum hótelmarkaði en með því skapist tækifæri til að skapa einstakt samfélag þar sem íbúarnir hafa aðgang að því sem hótelið hefur að bjóða.
Á milli hótelsins og íbúðanna verður miðgarður og þar undir bílageymsla þar sem innangengt verður á milli íbúðanna og hótelsins.
Magnea Þórey segir að með Skáld Hóteli Akureyri sé verið að auka gæði og þjónustu í hótelrekstri á Akureyri. Hótelið muni bera af öðrum hótelum í bænum um langa hríð.