Stórsöngvari Staða Vilhjálms Vilhjálmssonar í íslenskri tónlistarmenningu er einstök.
Stórsöngvari Staða Vilhjálms Vilhjálmssonar í íslenskri tónlistarmenningu er einstök.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngrödd Vilhjálms er einstök og það er ástæða fyrir goðsögninni. Hún er falleg, skýr, sterk en líka næm og löngunarfull.

TÓNLIST

Arnar Eggert Thoroddsen

arnareggert@arnareggert.is

Það streymir ylur um líkamann – í bland við gæsahúð – er hið ótrúlega „Og co.“, opnunarlag Hana-nú, fer af stað. Nálin liggur ofan á gulappelsínugulum vínil sem endurspeglar umslag plötunnar Hana-nú. Um tvöfalda endurútgáfuplötu er að ræða, upphaflega hljóðblöndunin á verkinu frá 1977 er á einni plötu en endurhljóðblöndunin frá 2008 á annarri. Þar eru og tvö aukalög. Alda hefur nefnilega ráðist í glæsta endurútgáfu á þremur plötum systkinanna Vilhjálms og Ellyjar en einnig á þremur plötum Vilhjálms sem hefði orðið 80 ára í gær, 11. apríl.

Glugginn hennar Kötu var fyrsta sólóplata Vilhjálms og kom út 1972, tólf laga. Smáskífur höfðu þó komið út fyrr ásamt plötum þar sem hann syngur með systur sinni. SG-hljómplötur gáfu plötuna út upprunalega og á bakhlið má lesa þessa dásamlegu setningu Svavars Gests og íslenskara verður það varla: „Vilhjálmur hefur starfað sem aðstoðarflugstjóri hjá Luxair í tvö ár, en sungið inn á plötur þegar hann hefur átt nokkurra daga frí á Íslandi.“ Það er ekki að spyrja að því. Á Íslandi eru allir í tveimur störfum, allir með alls kyns hatta og auðvitað vinnum við í fríunum okkar líka. Og breytir engu þó þú sért jafnbesti söngvari Íslandssögunnar. Með sínu nefi kom hins vegar út 1976 á vegum Fálkans en Vilhjálmur hafði fengið endurnýjaðan áhuga á söng eftir að hafa sungið tvö lög inn á fyrstu plötu Mannakorna. Hana-nú kom síðan út 1977 á vegum Hljómplötuútgáfunnar, síðasta hljóðversplata Vilhjálms en hann dó 28. mars 1978 í bílslysi, 32 ára gamall.

Staða Hana-nú sem meistaraverks er undirstrikuð með þessari vönduðu útgáfu. Opnanlegt, fallegt umslag og litaður vínill. Í opnunni má finna tvo pistla, annars vegar eftir Magnús Kjartansson og hins vegar eftir Jón Ólafsson, Skífu-Jón, sem gaf Vilhjálm út í gegnum Hljómplötuútgáfuna ásamt Magnúsi. „Nærbuxur“ platnanna bera þá með sér frekara hnossgæti. Á þeim fyrri má sjá hljóðrásaskýrslur Tonys Cook og myndir af fjölrása segulböndum sem geyma upptökur plötunnar. Á þeim seinni má sjá myndir af fjölmörgum útgáfum Hana-nú í gegnum árin, veri það plötur, hljómsnældur eða geisladiskar.

Söngrödd Vilhjálms er einstök og það er ástæða fyrir goðsögninni. Hún er falleg, skýr, sterk en líka næm og löngunarfull. Getur þú, lesandi góður, hlustað á „Söknuð“ án þess að komast við? Ekki get ég það. Á Hana-nú eru slagarar eins og áðurnefnt upphafslag og „Ég labbaði í bæinn“ en líka undurfögur lög eins og „Lítill drengur“ og hið magnþrungna „Söknuður“. En það gleymist stundum að Vilhjálmur reynir hér á tilraunabeinið í sér. Sjá þrjú síðustu lögin. „Jamaica“ er glaðvært og gáskafullt og sungið um „börnin ber“. „Martröð“ er skuggalegt diskólag, skemmtilega sérkennilegt þegar nánar er að gáð. Vilhjálmur beitir röddinni öðruvísi, fer lengst upp og lengst niður og hleður í rymjandi kafla rétt undir restina. „Einshljóðfærissinfóníuhljómsveitin“ er vettvangur þar sem grallaraspóinn í okkar manni fær að skína. Grínaktugt lag að hætti Halla og Ladda helst og einfaldlega frábært. Uppistandarinn Villi Vill!

Vönduð útgáfa og fagleg og Vilhjálmur heldur áfram háan hattinn að bera svo ég vísi frekar í textann við „Og co.“. Það er ekki nema sjálfsagt að halda merki þessa magnaða söngvara á lofti og megi það ganga til eilífðarnóns.

Höf.: Arnar Eggert Thoroddsen