Kristófer Sverrir Sverrisson fæddist á Blönduósi 7. júní 1945. Hann lést á sjúkrahúsinu á Blönduósi 31. mars 2025.

Foreldrar hans voru Elísabet Þórunn Sigurgeirsdóttir, f. 23. september 1926, d. 11. nóvember 2015, og Sverrir Kristófersson, f. 3. mars 1921, d. 9. desember 1995.

Systkini Kristófers eru: Hildur Björg, f. 26. mars 1947, Sigurgeir, f. 14. október 1948, d. 6. september 1995, Jón, f. 11. júní 1958, og Sverrir Sumarliði, f. 3. mars 1964.

Kristófer var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Ragnhildur Valgeirsdóttir, þau skildu.

Eftirlifandi eiginkona Kristófers er Anna Guðrún Vigfúsdóttir, f. 15. október 1951.

Sonur Önnu og fóstursonur Kristófers er Magnús Guðmundsson, f. 6. september 1971. Kona hans er Sesselja Guðmundsdóttir, f. 11. maí 1966.

Börn þeirra eru Sara Líf, f. 28. október 1995, sambýlismaður hennar er Dagur S. Úlfarsson, f. 28. nóvember 1994, og Vigfús, f. 28. febrúar 2000.

Kristófer ólst upp á Blönduósi og var mörg sumur í sveit á Efri-Mýrum.

Hann byrjaði ungur að vinna í Mjólkursamlaginu á Blönduósi, var einn vetur í Hólaskóla og fór svo til Danmerkur í nám í mjólkurfræði tvítugur að aldri.

Að námi loknu hélt hann áfram að vinna hjá Mjólkursamlaginu og vann þar nær alla sína starfsævi, þar til það var lagt niður í árslok 2008.

Í nokkur ár á þrítugsaldri vann hann við akstur vörubifreiða.

Kristófer var virkur í ýmsum félagsstörfum og var meðal annars félagi í Hjálparsveit skáta, J.C. Húnabyggð og Lionsklúbbi Blönduóss.

Hann var mikið fyrir útilegur og mörg sumrin var ferðast um landið, fyrst með tjald, svo tjaldvagn og hjólhýsi og mörg síðustu árin á húsbílum.

Kristófer var félagsmaður í Flökkurum, félagi húsbílaeigenda, til margra ára.

Dans var líf og yndi Kristófers, og fóru þau hjónin vítt og breitt um landið á harmónikuhátíðir og gömludansaböll.

Árið 2022 var hann greindur með alzheimer og þá fór að halla undan fæti. Síðasta árið bjó Kristófer á HSN á Blönduósi.

Útförin fer fram frá Blönduóskirkju í dag, 12. apríl 2025, klukkan 14.

Í dag kveðjum við í hinsta sinn elskulegan vin og mág. Við kynntumst Kristófer fyrir nær hálfri öld þegar hann og Anna Gunna tóku saman og höfum fylgst að allar götur síðan. Minningarnar eru svo ótalmargar um góðar og skemmtilegar samverustundir. Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru öll ferðalögin innanlands, fyrst um sinn í tjaldi en að endingu í húsbíl sem var hans uppáhald. Enda var Kristófer mikill áhugamaður um bíla, hafði gaman af að skipta þeim út og vildi alltaf vera á nýjum bíl og alltaf skyldi hann vera vel pússaður og hreinn. Einnig voru utanlandsferðirnar margar bæði á sólríkar eyjar og skipulagðar bændaferðir þar sem mikið var skoðað, spjallað, hlegið og gantast. Enda var Kristófer alltaf kátur og hafði einstaklega hlýja nærveru. Börnum okkar var hann alltaf góður, lék við þau og grínaðist og minnast þau hans með mikilli hlýju og söknuði nú þegar komið er að kveðjustund.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

(23. Davíðssálmur)

Elsku Anna Gunna, Magnús og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra. Við þökkum Kristófer fyrir samfylgdina, kærleikann og gleðina sem einkenndi ætíð okkar samverustundir. Blessuð sé minning hans.

Björk og Árni.

Kæri Kristófer, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Það eru margar minningar sem rifjast upp þegar maður hugsar til baka. Ég byrjaði ungur að árum sem vinnumaður á Skinnastöðum og fékk því tækifæri til að kynnast Kristófer vel þar sem hann og frænka voru tíðir gestir þar á bæ. Hann var ætíð glaðlyndur, brosmildur og ávallt til í að segja skemmtilegar sögur. Kristófer fór vel með bílana sína og átti hann ótrúlega marga bíla í gegnum tíðina þannig að ómögulegt var að halda tölu á þeim. En bílnúmerum gleymdi hann þó ekki og ók stoltur um með einkanúmerið H3. Kristófer og Anna Gunna voru dugleg að ferðast á húsbílum sínum og voru þeir ávallt vel með farnir þannig að varla mátti sjá að gengið væri um þá. Á hverju ári þegar Auðkúluréttir voru þá hittumst við og ræddum marga hluti og þá sérstaklega hann Gorba vin okkar sem við gátum hlegið mikið að. Grínaðist ég mikið til að fá hann til að koma á húsbílnum í réttir svo við gætum fengið okkur pönnsur og skýlt okkur fyrir veðri og vindum. En hann var tregur til og hafði smá áhyggjur af því að þurfa að þrífa bílinn að innan eftir stígvél og pollagalla og hló að mér.

Kristófers verður sárt saknað og mun ég og mín fjölskylda minnast hans með hlýhug og þakklæti fyrir ljúfar samverustundir í gegnum árin.

Hvíl í friði.

Vigfús Þór og fjölskylda.

Látinn er góður vinur, Kristófer Sverrisson. Þótt við ættum heimili í æsku í aðeins 20 km fjarlægð hvor frá öðrum lágu leiðir okkar ekki saman fyrr en í Hólaskóla haustið 1964.

Kristófer kom til að nema þar einn vetur því það var forsenda svo hann gæti komist í nám til að verða mjólkurfræðingur. Hann var dugmikill strákur og óragur í leik og starfi. Minnstu munaði að dirfska hans yrði honum þar að fjörtjóni og ræddum við stundum um það síðar á lífsleiðinni að engin spurning væri að yfir okkur væri vakað og ófeigum ekki í hel komið.

Milli okkar skólafélaganna á Hólum tókst góð vinátta sem hélst alla tíð. Síðar voru mikil samskipti milli okkar félaga, m.a. var hann starfsmaður í Mjólkursamlaginu og ég mjólkurinnleggjandi. Við Kristófer vorum saman félagar í Lionsklúbb Blönduóss. Þar var hann öflugur liðsmaður, ekki síst þegar þurfti að leggja hönd á að afla fjár í líknarsjóð klúbbsins. Hann tók líka til máls á fundum og kom oft með skemmtilega vinkla á mál sem til umræðu voru eða bryddaði upp á nýju. Mér er það minnisstætt að einn vetur gengust félagarnir úr Torfalækjarhreppi upp í að segja okkur hinum í klúbbnum hvað allt væri gott í þeim hreppi og þar byggi eða þaðan væru ættaðir margir afreksmenn í samfélaginu. Varð af þessu góð skemmtun. Svo var það eitt sinn að Kristófer stóð upp þegar Pálmi á Akri, okkar góði félagi, var á fundi, en hann missti oft af fundum þegar hann sat á Alþingi og í ríkisstjórn, en var mjög liðtækur þess á milli.

Í stuttri en hnitmiðaðri ræðu, sem má líkja við óundirbúnar fyrirspurnir, sem nú tíðkast á alþingi, fór Kristófer vel yfir það sem sveitungar Pálma höfðu haldið fram um ágæti manna úr Torfalækjarhreppi. Spurði síðan Pálma hvernig á því stæði að tiltekinn maður, sem hann nafngreindi, uppalinn í hreppnum, gæti verið úr þessum ágæta hreppi sem æli svo marga atorku- og afreksmenn. Hér þarf að skjóta inn að þessi maður var einn af ólánsmönnum samfélagsins, sem oft hafði komist í kast við lögin og eftir dóma gist nokkrum sinnum á stofnunum ríkisins. Var góður rómur gerður að ræðu Kristófers en þetta tilgreint hér til að sýna hversu hnyttinn Kristófer var oft og sá nýjar og skemmtilegar hliðar á því sem lífið bauð. Sérstaklega þótti þeim, sem fannst Torflækingar hafa farið á fremstu grös að lýsa kostum sveitunganna, málatilbúnaður Kristófers frábær og óvæntur, að taka þetta mál svona tökum.

Pálmi brást ekki og óundirbúið lýsti hann allvel ýmsu sem þessi tiltekni maður hafði gert, í raun ekkert sem hann sagði sem flestir á fundinum ekki vissu, enda maðurinn oft í fréttum á þessum tíma. Lokaorð Pálma voru frábær á þá leið að á sínu sviði væri þessi maður fremri flestum og óvíst að nokkur hefði náð jafn langt við þá iðju sem hann stundaði ef hann hefði ekki verið uppalinn í Torfalækjarhreppi. Örlítið dæmi um hve oft gat verið skemmtilegt hjá okkur á Lionsfundum meðan klúbburinn starfaði.

Með Kristófer er genginn vandaður maður og góður félagi. Ég sendi Önnu Gunnu, Magnúsi og öllum ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Magnús á Sveinsstöðum.