Breska freigátan HMS Leander sigldi á varðskipið Þór 9. janúar 1976, aðeins þremur dögum eftir að freigátan HMS Andromeda hafði gert hið sama. Þarfnaðist Þór viðgerða eftir átökin.
Breska freigátan HMS Leander sigldi á varðskipið Þór 9. janúar 1976, aðeins þremur dögum eftir að freigátan HMS Andromeda hafði gert hið sama. Þarfnaðist Þór viðgerða eftir átökin. — Ljósmynd/Friðgeir Olgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útfærsludagurinn er ekki ákveðinn, en ég geri mér vonir um, að sú ákvörðun verði tekin sem allra fyrst,“ sagði Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra í viðtali sem birt var í Morgunblaðinu 17

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Útfærsludagurinn er ekki ákveðinn, en ég geri mér vonir um, að sú ákvörðun verði tekin sem allra fyrst,“ sagði Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra í viðtali sem birt var í Morgunblaðinu 17. júní 1975.

„Það er mín skoðun að við Íslendingar verðum að færa fiskveiðimörkin út í 200 sjómílur með það fyrst og fremst í huga að nýta landhelgina að öllu leyti fyrir okkur sjálfa. Aflamagn botnlægra fiska hefur farið minnkandi á Íslandsmiðum þrátt fyrir aukna sókn og því er nauðsynlegt að við nýtum hina nýju fiskveiðilögsögu að fullu og öllu,“ sagði hann.

Með orðum sínum vísaði Matthías til „svörtu skýrslunnar“ svokölluðu frá Hafrannsóknastofnun þar sem varað var við afleiðingum þeirrar ofveiði sem stunduð hafði verið á miðunum umhverfis Ísland. Vildu Íslendingar flestir meina að í ljósi þessa þyrfti að taka fyrir veiðar erlendra skipa, en á Íslandsmiðum mátti meðal annars sjá mikinn fjölda norskra, belgískra, færeyskra og vesturþýskra togara.

„Allar þær þjóðir sem hagsmuna eiga að gæta í veiðum við Ísland hafa fyrir löngu fengið um það tilkynningu að ríkisstjórnin áformi að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 sjómílur á yfirstandandi ári. Enn fremur hafa fulltrúar okkar á alþjóðavettvangi átt viðræður við fulltrúa fjölmargra þjóða um hina brýnu nauðsyn þess fyrir okkur Íslendinga að færa út fiskveiðilögsöguna,“ sagði Matthías og um mánuði eftir að viðtalið birtist í Morgunblaðinu undirritaði hann reglugerð sem færði fiskveiðilögsögu Íslands úr 50 sjómílum í 200 sjómílur frá landi. Reglugerðin tók þó ekki gildi fyrr en 14. nóvember það ár.

Óhentugt fyrir Breta

Árin fram að þessu hafði verið olíukreppa í heiminum sem orsakaðist af viðskiptabanni sem arabísku olíuframleiðsluríkin (OPEC) settur á Bandaríkin og vesturevrópsk ríki sem höfðu stutt Ísrael í Jom Kippúr-stríðinu 1973.

Það stríð hófst þegar Egyptaland og Sýrland fyrirvaralaust réðust á Ísrael á meðan gyðingar héldu upp á helgasta dag í gyðingdómi, Jom Kippúr. Egyptar og Sýrlendingar, sem þá voru á áhrifasvæði Sovétríkjanna, fengu einnig stuðning og mannafla frá Kúbu og Norður-Kóreu auk Arabaríkjanna Alsír, Jórdaníu, Líbíu, Írak, Kúveit, Túnis, Marokkó og Sádi-Arabíu.

Þrátt fyrir ótvíræða yfirburði í mannafla og búnaði tókst Aröbum hvorki að hrekja sveitir Ísraels af Sínaískaga né af Gólanhæðunum sem höfðu verið hernumin í kjölfar stríðsins 1967. Lauk átökum 25. október 1973, tveimur vikum og fimm dögum eftir að þau brutust út.

Hér væri eflaust hægt að rekja ítarlega afleiðingar Jom Kippúr-stríðsins sem fól í sér upphaf friðarumleitana milli Ísraela og Palestínumanna, en það er önnur saga en hér er til umræðu.

Það sem hins vegar máli skiptir er að viðskiptabann OPEC stóð til ársins 1974 og hafði varanleg áhrif á hráolíuverð og þar með djúpstæð áhrif á fjölmörg hagkerfi heimsins. Ein af þessum afleiðingum var djúp kreppa á Vesturlöndum, meðal annars í Bretlandi þar sem var 3,9% neikvæður hagvöxtur á tímabilinu 1973 til 1975. Samhliða þessu var algjör glundroði í hagkerfinu breska vegna langvarandi verkfalls kolanámumanna, og hafði Edward Heath forsætisráðherra þurft að setja neyðarlög um skömmtun rafmagns þannig að aðeins fékkst afhent rafmagn þrjá daga í viku hverri.

Það var því mikið í húfi fyrir Breta þegar Íslendingar ætluðu að takmarka tekjuöflun breska fiskiskipaflotans, enda var hann lífæð fjölmargra breskra sjávarbyggða.

Harðar deilur

Þegar hin nýja lögsaga tók gildi í nóvember 1975 hófu varðskipin Týr og Þór umsvifalaust að skera togvíra á tveimur breskum togurum á Íslandsmiðum.

Vestur-Þjóðverjar sömdu hins vegar við Íslendinga skömmu eftir útfærslu lögsögunnar í 200 mílur og stóðu Bretar í raun einir eftir í deilunni. Þótti merkilegt að Bretar vildu um sem minnst semja því að þeir höfðu sjálfir fært út lögsögu sína í Norðursjó til að tryggja nýtingarrétt sinn á olíunni sem þar mætti finna.

Sendu Bretar freigátur til að verja togara sína fyrir togvíraklippum íslensku varðskipanna. Ekki beittu Bretar skotfærum heldur sigldu þeir á varðskipin til að koma þeim frá. Alls urðu 54 ásiglingar á tímabilinu 6. desember 1975 til 22. maí 1976.

Deilan harðnaði verulega 1976 og raunar svo að Bretar gáfu herskipum sínum heimild til að skjóta á íslensku varðskipin og Íslendingar slitu stjórnmálasambandi við Bretland. Aldrei áður og aldrei eftir þetta hefur eitt NATO-ríki slitið stjórnmálasambandi við annað og leist öðrum ríkjum bandalagsins ekki á blikuna.

Fór svo að ríkisstjórn Noregs hafði frumkvæði að því að miðla málum milli bandamannanna tveggja. Tókst 1. júní 1976 að ganga frá samningum ríkjanna í millum sem fólu í sér að Bretar viðurkenndu 200 mílna lögsögu Íslands. Í staðinn fengu bresk fiskiskip að fiska 30 þúsund tonn næstu sex mánuði.

Skæruliðar með baráttuvilja

Árangur Íslands í þorskastríðunum þremur – 1958 til 1961, 1972 til 1973 og 1975 til 1976 – þykir merkilegur fyrir margar sakir, ekki síst þar sem viðureignin var við langtum stærra ríki með öflugan sjóher. Kevin Bilms, aðstoðardeildarstjóri á sviði Kyrrahafs- og Indlandsmála í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, fjallaði í febrúar 2023 um þorskastríðin í grein í fagtímaritinu Proceedings sem er gefið er út af sjálfstæðri hugveitu um sjóhernað, U.S. Naval Institute.

Í greininni sem ber heitið „Þorskastríðin og lærdómar fyrir aðgerðir gegn skæruliðahernaði til hafs“ spyr Bilms: „Getur smáríki varið hafréttarkröfur sínar gegn kjarnorkuveldi? Geta smáríki haft betur í átökum án þess að til eiginlegs stríðs komi?“ Svarið sem hann gefur er – eins og lesendur hafa eflaust áttað sig á – já.

Telur hann mikilvæga lærdóma fyrir stórveldin felast í þorskastríðunum og bendir Bilms sérstaklega á norðurslóðir og Suður-Kínahaf sem sérstök svæði þar sem sambærileg átök geti brotist út.

„Með því að nota árangur Íslands í þorskastríðunum sem leiðarvísi í aðgerðum gegn skæruliðahernaði til hafs eru fjórir eflandi þættir sem eru áberandi í átökunum: Aukinn viljastyrkur þjóðarinnar, skýr ósamhverfa í hagsmunum, pólitísk áhættusækni og nýstárlegar óbanvænar aðferðir. Þorskastríðin sýna hvernig smærri ríki geta skapað stigmögnunarvandamál með því að samtvinna þessa þætti til að móta aðstæður í stigvaxandi mæli og hasla sér völl í langtímabaráttu fyrir lögmæti á alþjóðavettvangi,“ segir í grein Bilms.

„Þegar öryggissérfræðingar skoða stríð Rússlands og Úkraínu og önnur átakasvæði er eitt sameiginlegt þeim, mikilvægi viljans til að berjast gegn og standa gegn nauðung. Án baráttuvilja verða aðgerðir gegn skæruliðahernaði á úthafinu tilgangslausar. En ef vilji er fyrir hendi sýnir dæmi Íslands að nýstárleg stjórnun ríkismála og aðferðafræði hefur töluverða þýðingu fyrir herferðir á sjó, og einnig að yfirburðir í vopnabúri séu ekki eini ráðandi þátturinn. Samanlagt voru þessir þættir herferðar Íslands ómissandi fyrir sigur gegn stærri óvini í þorskastríðunum og veita þeir smáríkjum sem standa frammi fyrir deilum við stærri ríki mikilvæga innsýn sem nýtist nú og í framtíðinni.“

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson