Barátta Zarko Jukic, sem var með tvöfalda tvennu fyrir ÍR, og landsliðsmaðurinn Bjarni Guðmann Jónsson hjá Stjörnunni eigast við í gærkvöldi.
Barátta Zarko Jukic, sem var með tvöfalda tvennu fyrir ÍR, og landsliðsmaðurinn Bjarni Guðmann Jónsson hjá Stjörnunni eigast við í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njarðvík og ÍR unnu bæði mikilvæga sigra í einvígjum sínum í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Bæði lið áttu á hættu að vera sópað í sumarfrí en unnu sína fyrstu sigra og eru því enn á lífi í einvígjunum tveimur

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Njarðvík og ÍR unnu bæði mikilvæga sigra í einvígjum sínum í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Bæði lið áttu á hættu að vera sópað í sumarfrí en unnu sína fyrstu sigra og eru því enn á lífi í einvígjunum tveimur.

Njarðvík vann geysilega öruggan sigur á Álftanesi, 107:74, í þriðja leik liðanna í Njarðvík og minnkaði þannig muninn í 2:1.

Eftir jafnan fyrri hálfleik stungu Njarðvíkingar einfaldlega af í þeim síðari og unnu 33-stiga sigur.

Þrír leikmenn Njarðvíkur voru með yfir 20 stig. Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 26 stig, tók átta fráköst og gaf 11 stoðsendingar, Dominykas Milka bætti við 24 stigum, 13 fráköstum og fimm vörðum skotum og fyrirliðinn Mario Matasovic var skammt undan með 23 stig og 13 fráköst.

Hjá Álftanesi var Justin James stigahæstur með 25 stig og níu fráköst.

Fjórði leikurinn fer fram á Álftanesi næstkomandi þriðjudagskvöld þar sem Álftanes getur tryggt sér sæti í undanúrslitum á meðan Njarðvík freistar þess að knýja fram oddaleik á heimavelli.

Sterkur sigur ÍR-inga

ÍR gerði þá góða ferð í Garðabæinn og vann einstaklega sterkan sigur á Stjörnunni, 89:87, eftir mikla spennu undir lokin. Staðan í því einvígi er því sömuleiðis 2:1, Stjörnunni í vil.

ÍR var við stjórn stóran hluta leiksins en undir lokin kom heljarinnar áhlaup frá Stjörnunni, sem dugði þó að endingu ekki til.

Matej Kavas var stigahæstur hjá ÍR með 25 stig. Zarko Jukic skoraði 20 stig og tók 11 fráköst.

Hilmar Smári Henningsson skoraði 24 stig fyrir Stjörnuna. Ægir Þór Steinarsson skoraði 21 stig, tók sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Fjórði leikurinn fer fram í Breiðholti næstkomandi þriðjudagskvöld þar sem ÍR mun reyna að knýja fram oddaleik og Stjarnan reynir að tryggja sæti sitt í undanúrslitum.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson