Þórunn Bára hefur opnað einkasýningu sína Samhljómur – tilvísun í náttúru Surtseyjar í Gallerí Fold. Segir í tilkynningu að eldfjallaeyjan Surtsey hafi verið Þórunni Báru hugleikin um árabil og átt ríkan þátt í listsköpun hennar. „Árið 1965 var eyjan friðlýst til að tryggja náttúrulega og vistfræðilega þróun án utanaðkomandi afskipta mannanna. Hinir vistfræðilegu landnemar í Surtsey eru mótífin í flestum verka Þórunnar sem táknmynd þeirrar seiglu og ófyrirsjáanleika sem náttúran býr yfir.“
Þá hefur Þórunn haft vísindin til hliðsjónar síðustu ár, kynnt sér vistkerfi og landnema Surtseyjar af mikilli nákvæmni og fært áhorfandanum óaðgengilega náttúruna í návígi á strigann. Í nýjustu verkum sínum hefur hún leyft sér meira frelsi, leyft huganum að reika og penslinum að ráða för.