— Morgunblaðið/Alfons
Mikil umræða hefur verið undanfarið um veiðigjöld, enda hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til breytingar sem fela í sér umfangsmikla hækkun þeirra. Í því samhengi hefur ríkisstjórnin talað um „leiðréttingu“ og um að þjóðin eigi rétt…

Mikil umræða hefur verið undanfarið um veiðigjöld, enda hefur ríkisstjórnin ákveðið að leggja til breytingar sem fela í sér umfangsmikla hækkun þeirra. Í því samhengi hefur ríkisstjórnin talað um „leiðréttingu“ og um að þjóðin eigi rétt á afnotagjaldi fyrir nýtingu auðlindar í eigu hennar.

Það má vel vera, en svo virðist sem ríkisstjórnin sé mest upptekin af því að auka álögur á þá sem hagnast á nýtingu auðlindarinnar – ekki alla þá sem nýta hana. Enda talar ríkisstjórnin um afslátt á umræddri gjaldtöku sem „frítekjumark“.

Ef um almennt afnotagjald er að ræða hlýtur það að vera eitthvað sem allir sem auðlindina nýta greiða til samfélagsins. Með því að undanskilja þá allra minnstu, til að mynda handfærabáta á strandveiðum sem engan kvóta eiga, er ekki um slíkt gjald að ræða. Heldur má segja þetta viðbótarskatt á hagnað sjávarútvegs umfram aðrar atvinnugreinar.

Fram kom í skýrslu stefnumótunarverkefnisins Auðlindarinnar okkar, sem fjallað er um í þessu blaði, að talið er sjálfgefið að veiðigjöld leiði í eðli sínu til „hagræðingar“ í greininni, það er að segja fækkunar smærri útgerða með kvóta, og eðli málsins samkvæmt aukinnar samþjöppunar í eignarhaldi aflaheimilda. Ríkisstjórnin á eftir að svara því hvort slíkar afleiðingar séu í takti við stefnu hennar. gso@mbl.is