Ráðherrar Stjórnarflokkarnir eru sagðir hafa sagt kjósendum ósatt.
Ráðherrar Stjórnarflokkarnir eru sagðir hafa sagt kjósendum ósatt. — Morgunblaðið/Eyþór
„Þetta bréf er ekkert annað en staðfesting á kosningasvikum. Það er verið að hækka skatta á fjölskyldur um 2.700 milljónir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Þetta bréf er ekkert annað en staðfesting á kosningasvikum. Það er verið að hækka skatta á fjölskyldur um 2.700 milljónir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Morgunblaðið. Hann vísar þar til svars fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis, þar sem gerð er grein fyrir áformum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur um að afnema ívilnandi reglu í lögum um tekjuskatt um samsköttun hjóna og sambúðarfólks.

Í téðu svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins kemur m.a. fram að núverandi markmið samsköttunar hjóna og sambúðarfólks séu óljós og hagræn áhrif þess neikvæð. Er þar nefnt til sögunnar að sú ívilnun sem skattgreiðendur njóta vegna samsköttunarinnar falli einkum heimilum í hæstu tekjutíundinni í skaut. Gangi ívilnunin gegn því að stuðla fremur að því að jafna tekjudreifinguna en auka hana, eins og komist er að orði í svarinu.

Segir Guðlaugur Þór að fram hafi komið í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og kynnt landsmönnum að ekki ætti að leggja meiri álögur á einstaklinga, en það loforð hafi verið svikið aðeins þremur dögum síðar.

„Þetta er ekki það sem var kynnt almenningi, hvorki fyrir kosningar né eftir að stjórnin tók við. Stjórnarflokkarnir hefðu átt að segja frá því fyrir fram að ætlunin væri að hækka skatta á almenning en ekki skrökva því staðfastlega að það ætti ekki að gera. Þetta er eins skýr staðfesting á svikum og hún getur orðið,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir að ef ætlunin hafi verið að skattleggja efri millitekjuhópinn sérstaklega, þá hefðu stjórnarflokkarnir að segja það skýrt, í stað þess að segja kjósendum ósatt.

Guðlaugur Þór segist óttast að þessi framganga stjórnarflokkanna sé bara byrjunin.

„Það liggur fyrir að skattagleðin er mikil og það eru fleiri skattar boðaðir. Það á að afnema persónuafslátt þegar kemur að fjármagnstekjum og það mun sannarlega lenda á einhverjum. Sömuleiðis liggur fyrir að stjórnarflokkarnir ætla að skattleggja ferðaþjónustuna og í þeirra huga þýðir sú skattlagning að þeir skattar munu bæði leggjast á Íslendinga og útlendinga fyrir það að njóta íslenskrar náttúru. Það er mjög sérstakt að Íslendingar séu skattlagðir sérstaklega fyrir að njóta eigin náttúru. Það eru sannarlega lífsgæði og fyrst ætlunin er að skattleggja þau, þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að að þetta fólk fari að skattleggja okkur líka fyrir að anda að okkur hreinu lofti,“ segir Guðlaugur Þór.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson