Guðbjartur Ólafsson heimilislæknir og Steinunn Erla Thorlacius geislafræðingur og framkvæmdastjóri Intuens.
Guðbjartur Ólafsson heimilislæknir og Steinunn Erla Thorlacius geislafræðingur og framkvæmdastjóri Intuens. — Morgunblaðið/Hallur Már
Ef þú tekur einhvern sem fékk ristilkrabbamein sem greinist með meinvörp í tveimur líffærakerfum út fyrir ristil eru lífslíkurnar í kringum 5-10% eftir fimm ár.

Fyrirtækið Intuens hefur frá árinu 2023 boðið upp á segulómmyndatöku fyrir fólk sem vill huga að heilsu sinni. Háþróaður búnaður frá Philips er notaður til þess að mynda líkama fólks hátt og lágt en með honum má greina ýmis heilsufarsvandamál sem fólk er í mörgum tilvikum ómeðvitað um að hrjái það. Á það t.d. við um krabbameinsæxli.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir þjónustunni en fyrir myndatökuna og greiningu röntgen- og heimilislækna á myndefninu greiðir fólk 300.000 kr. Þjónustan er ekki niðurgreidd af ríkinu.

Steinunn Erla Thorlacius er geislafræðingur og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hún er gestur Spursmála að þessu sinni ásamt Guðbjarti Ólafssyni heimilislækni.

Í samkeppni við fleiri

Hún rekur tilurð fyrirtækisins og bendir á að fleiri einkafyrirtæki séu á markaðnum hér á landi sem bjóði upp á þessa þjónustu. Þau hafi viljað auka hana og efla samkeppni. Það hafi hins vegar reynst erfiðara en ætlað var í fyrstu.

Þegar fyrirtækið gerði tilraun til þess að komast inn í samninga Sjúkratrygginga sem gera myndi læknum kleift að beina sjúklingum sínum til þess, rákust stjórnendur fljótt á vegg. Í ljós kom að samningar sem í gildi höfðu verið í áratugi voru ólöglegir og að ekki stóð til að bjóða þjónustuna út. Voru Sjúkratryggingar að lokum þvingaðar til þess.

Allt gert til miska

Þá tók hins vegar ekki betra við, að sögn Steinunnar, því að útboðsskilmálar sem settir voru virðast hafa verið sérsniðnir að þeim fyrirtækjum sem fyrir voru á markaðnum. Intuens var gert ómögulegt að bjóða fram krafta sína. Var stofnunin gerð afturreka með útboðið en þrátt fyrir það hefur enn ekki tekist að koma á samningssambandi milli Intuens og Sjúkratrygginga.

Segja þau Steinunn og Guðbjartur að það sé mjög bagalegt. Bæði sé mikil eftirspurn eftir þessari þjónustu en þá sé einnig augljóst að hægt væri að draga mjög úr kostnaði ríkissjóðs með aukinni samkeppni. Lækka mætti einingakostnað við hverja myndatöku og greiningu.

Fyrirtækin sem eru á þessum markaði fyrir hafa á síðustu árum malað gull og því ljóst að eftir miklu er að slægjast í þessari starfsemi. Brúsinn er hins vegar að stórum hluta borgaður af skattgreiðendum.

Snemmbær greining

Guðbjartur segir aðspurður að þjónusta Intuens hafi nú þegar sannað sig. Sem betur fer sé stærstur hluti viðskiptavina lánsamur og alvarleg veikindi uppgötvast ekki hjá þeim. Hins vegar hafi allmörg dæmi komið upp þar sem alvarleg, undirliggjandi veikindi hafi uppgötvast. Það eigi t.d. við um alvarleg krabbameinsæxli.

Segir hann að slík greining sé afar mikilvæg þar sem öllu skipti að grípa sem fyrst inn í. Tekur hann sem dæmi ristilkrabbamein. Uppgötvist það meðan það er enn einangrað við það tiltekna líffæri séu lífslíkur um 95% fimm árum eftir lækningu. „Ef þú tekur einhvern sem fékk ristilkrabbamein sem greinist með meinvörp í tveimur líffærakerfum út fyrir ristil eru lífslíkurnar í kringum 5-10% eftir fimm ár.“

Höf.: Stefán Einar Stefánsson