„Ég átti skemmtilegt samtal við bæjarstjórann og spurði hana hvort hún héldi að ég mætti setja verk mín upp á gámunum. Hún sagði mér bara að kýla á það og sjá hvað myndi gerast. Þetta myndi aldrei vera hægt í Þýskalandi, að bæjarstjóri gæfi svona óformlegt leyfi,“ segir Daniel Rode.
„Ég átti skemmtilegt samtal við bæjarstjórann og spurði hana hvort hún héldi að ég mætti setja verk mín upp á gámunum. Hún sagði mér bara að kýla á það og sjá hvað myndi gerast. Þetta myndi aldrei vera hægt í Þýskalandi, að bæjarstjóri gæfi svona óformlegt leyfi,“ segir Daniel Rode. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir eru aðeins með mynstur sem hægt er að skoða og uppgötva en þeir segja ekkert. Á bak við fánana er engin pólitík, engin ættjarðarást, ekkert.

Hinn þýski Daniel Rode kom til Íslands fyrr í mánuðinum til þess að fyllast íslenskum innblæstri og til að skapa list sína í nýju umhverfi fjarri heimahögunum í Dresden í Þýskalandi. Blaðamanni fannst tilvalið að hitta listamanninn á Mokka, kaffihúsi bóhema og listafólks í áratugi, og þar var gott að ræða um konseptlist.

Ekki fallegar setningar

„Ég byrjaði í list minni að mála og teikna eins og flestir gera en færði mig svo sífellt meira út í konseptlistina. Ég vinn aðallega með texta þannig að það eru einhver skilaboð sem hægt er að lesa á auðveldan hátt en ég geri þau þó þannig að textinn sé í raun sjálf myndin, áður en þú nærð að lesa úr orðunum,“ segir Daniel, en hann raðar orðunum saman án bila og oft þannig að línuskiptingar rugla mann aðeins í ríminu.

„Ég bý ekki sjálfur til textana heldur sæki þá í tilbúið efni; í bækur og kvikmyndir. Ég rekst á setningar sem fanga mig og sem mér finnst sterkar og ákveð að setja þær á töfralistann minn, eins og ég kalla hann,“ segir hann og brosir.

„Þegar ég fæ svo tækifæri til að búa til verk, til dæmis á stóran húsvegg, skoða ég listann minn og finn hvað mér finnst passa við þennan stað og staðsetningu. Ég er ekki endilega að hugsa um að sýna texa sem þarf að skiljast. Fólk á ekkert endilega að finnast þetta vera einhver algild skilaboð heldur er setningin fremur eins konar gáta,“ segir hann.

„Þetta eru ekkert fallegar setningar fullar af visku; eiginlega þveröfugt,“ segir hann kíminn.

„Ég vil skilja áhorfandann eftir með spurningar.“

Kýldu bara á það!

„Ég dvel núna á Nesi á Skagaströnd í átta vikur og vinn þar að list minni. Það er dásamlegt að vera þarna. Þegar ég kom til Íslands velti ég því fyrir mér hvort það væri betra að vera í borg, en ég hef fundið mig vel á Skagaströnd því að það ýtir við mér að vera á stað þar sem ekki er allt við höndina. Fólkið þar er afar vinalegt,“ segir Daniel.

„Við erum átta listamenn þarna víðs vegar að úr heiminum,“ segir Daniel og sýnir blaðamanni myndir af verkunum en þær má sjá hér á síðunni.

„Ég tek svo ljósmyndir og skráset þannig verk mín en auðvitað eru verk mín ekki fyrir stóra áhorfendahópa. En það er allt í lagi. Það er ekki svo mikilvægt að sem flestir sjái verkin,“ segir Daniel.

„Ég leitaði að gámum því að þeir eru víða og stærðin er góð. Ég spurði fólkið í bænum hvort ég mætti nota gáma sem það átti og setja textaverk mín á þá og það var auðsótt,“ segir hann

„Ég hef náð góðu sambandi við fólkið í þorpinu og það er mínir neytendur,“ segir hann og bætir við að bæjarbúar séu forvitnir og opna fyrir list hans.

„Ég átti skemmtilegt samtal við bæjarstjórann og spurði hana hvort hún héldi að ég mætti setja verk mín upp á gámunum. Hún sagði mér bara að kýla á það og sjá hvað myndi gerast. Þetta myndi aldrei vera hægt í Þýskalandi, að bæjarstjóri gæfi svona óformlegt leyfi,“ segir hann og brosir.

„Ég fékk reyndar tölvupóst nokkrum dögum síðar með leyfinu, en þetta sýnir samt vinsemdina í bænum.“

Merkingarlausir fánar

„Ég er að vinna í tveimur verkefnum; annars vegar verkunum á gámunum og hins vega vinn ég með fána. Ég gerði fimm fána fyrir Skagaströnd, alla með abstrakt mynstrum af fjöðrum fugla sem finnast þar í grennd. Þetta eru mynstur af fjöðrum æðarfugla, fálka og máva, svo að eitthvað sé nefnt,“ segir Daniel, en hann fékk leyfi til að draga fánana að húni bæði á opinberum fánastöngum og í einkaeigu.

„Ég flaggaði fyrir framan bensínstöðina til að mynda,“ segir hann.

Hver er hugmyndin á bak við fánana, fána sem oftast eru táknmyndir þjóða og ættjarðarástar?

„Ég held að það sé aftur það að vinna með eitthvað sem veldur vonbrigðum. Eðli fána og merking þeirra er skýr en þessir fánar segja ekkert. Þeir eru aðeins með mynstur sem hægt er að skoða og uppgötva en þeir segja ekkert. Á bak við fánana er engin pólitík, engin ættjarðarást, ekkert.“

Daniel vinnur nú einnig að konseptverki sem mun prýða stóran vegg í Hörpu í sumar.

„Þar verð ég með sama textaverk og er á gámunum og mér finnst gaman að færa verkið til borgarinnar. Mér finnst mjög gaman að vinna í endurtekningum á mismunandi stöðum.“

Auðar blaðsíður óskast

Daniel hefur nýtt tímann vel til listsköpunar en einnig reynt að skoða sig aðeins um á landinu.

„Ég fór til Akureyrar og í Bláa lónið, einmitt daginn áður en gaus!“ segir hann og hlær.

„Ég vinn mikið og á Skagaströnd er ekkert sem glepur. Það er nýr hópur að koma á Nes og ég er einmitt núna í borginni og get þá keyrt með þau norður,“ segir hann.

Fleira er í bígerð hjá listamanninum.

„Ísland er það land þar sem eru flestir rithöfundar miðað við höfðatölu. Hlutfallið er hvergi hærra en hér. Mig langaði því að gera verk sem er andstæða þess; að gera verk með engum orðum, annaðhvort í bók eða í dagblaði,“ segir Daniel.

„Ég er að leita að rithöfundi sem er að gefa út bók sem væri til í að leyfa mér að vera þar með eina auða síðu.“

Ertu að reyna að rugla fólk í ríminu?

„Já, svona létt. Ruglingur eða glundroði er dásamlegt ástand í list. Það er ekkert slæmt við það,“ segir hann.

„Oft er ofgnótt í samfélaginu en ég vinn gjarnan með hið gagnstæða. Það má segja að það gildi líka um textaverkin mín þar sem ég nota mikið pláss fyrir stuttan og stóran texta. Horft á þau í heild myndar það sterk listaverk.“