Björn Ingi Finsen fæddist á Akranesi 10. júlí 1942. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Höfða 26. mars 2025.
Foreldrar Björns voru Lilja Guðrún Þórhallsdóttir húsmóðir, ættuð úr Aðaldal í Þingeyjarsýslu, f. 1917, d. 1946, og m.h. Niels Ryberg Finsen gjaldkeri, frá Akranesi, f. 1909, d. 1985. Stjúpmóðir Björns var Jónína Steinvör Finsen, f. 1928, d. 2013, og uppeldissystir hans er Kristjana Áslaug, f. 1946.
Björn kvæntist 1966 Guðrúnu Engilbertsdóttur, f. 1944, fv. hárgreiðslumeistara, dóttur Engilberts Guðjónssonar múrarameistara á Akranesi og k.h. Evu Laufeyjar Eyþórsdóttur húsmóður. Þau eru bæði látin.
Börn Björns og Guðrúnar eru: 1) Níels Bjarki, f. 1967, kvæntur Guðlaugu Brynju Ólafsdóttur. Börn þeirra eru Svava Berglind, f. 1991, Ólafur Ingi, f. 1996, og Brynja, f. 2003. 2) Ólafur Þór, f. 1971, sambýliskona hans er Elva Rún Rúnarsdóttir, f. 1986. Dætur þeirra eru Lilja Guðrún, f. 2014, og Sigrún Lóa, f. 2017. 3) Eyrún f. 1973. Synir hennar eru Björn Einar, f. 2011, og Engilbert Aron, f. 2015.
Björn varð stúdent 1962 úr máladeild MA og lauk MA-prófi (Hons) í enskri tungu og bókmenntum, Magna cum Laude (Upper Second), 1967 frá Edinborgarháskóla. Árið 1974 varð Björn löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi (enska-íslenska-enska).
Björn kenndi ensku í Menntaskólanum á Laugarvatni 1967-1985 og við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1985-2002. Einnig var Björn leiðsögumaður ferðamanna með full réttindi 1990-2016.
Útför fór fram í kyrrþey að ósk Björns.
Elsku afi er fallinn frá. Við munum sakna hans. Afi gerði besta grjónagrautinn, hitaður alveg passlega og við gátum óhindrað mundað kanilsykursstaukinn. Afi vissi líka hvað gaurum eins og okkur þótti spennandi að gera – hann tók okkur því stundum upp í Sorpu og þar gátum við, á öruggum stað, kastað glerkrukkum þannig að þær splundruðust með tilheyrandi látum. Undanfarin ár var afi oft þreyttur í fótunum og það hamlaði honum mikið – en ekki skyldi það stoppa hann að arka út í áramótasnjóinn með okkur og leiðbeina okkur hvernig öruggast var að skjóta upp flugeldum og kveikja á blysum. Afi vildi leggja sitt af mörkum við það að við vissum meira í dag en í gær – við erum því klárir á því hvernig bárujárnshús líta út og hvort tunglið er vaxandi eða minnkandi. Afi var alltaf duglegur að fylgjast vel með því sem var í gangi hjá okkur: Hvernig gekk beltaprófið Berti? Hvernig fór upplesturinn Búddi? Og honum var mikið í mun að mamma myndi ávallt skila kveðjunni frá honum, til okkar, í lok hvers símtals, hann vildi að við vissum að honum var umhugað um okkur og fyrir það erum við þakklátir.
Að lokum – afi, við segjum bless við þig, en ekki bæ, þú skilur.
Björn Einar (Búddi) og Engilbert Aron (Berti).
Er ég nú kveð og minnist Björns vinar míns, eða Búdda eins og nánir kölluðu hann jafnan, koma margar góðar minningar upp í hugann.
Búddi var um margt afar sérstakur maður sem má rekja til bernsku hans, en barnungur missti hann móður sína og sú reynsla litaði margt í lífi hans.
Íþróttirnar gáfu honum mikið á unglingsárunum. Búddi lék knattspyrnu, var m.a. Íslandsmeistari í 3. og 2. flokki. Þá var hann einnig í gullaldarliði meistaraflokks Skagamanna árið 1961 sem lenti í 2. sæti eftir úrslitaleik við KR. Það var honum dýrmæt minning.
Hann var afskaplega varkár, orðheldinn og mátti ekki vamm sitt vita. Fljótt kom í ljós að hann hafði einstaka námshæfileika og að loknu námi hér heima og í Skotlandi varði hann meirihluta starfsævi sinnar við kennslu. Gamlir nemendur hans róma hans einstöku enskukennslu.
Þá var hann íslenskumaður í fremsta flokki og um landið og söguna voru fáir fróðari. Þegar kennsluskyldan minnkaði fór hann vítt og breitt um landið, bæði með erlenda ferðamenn og íslenska, og var enginn svikinn af þeim ferðum. Hann undirbjó slíka leiðangra í smáatriðum.
Náin samvinna okkar hófst þegar ég fór að grúska í atvinnu- og íþróttasögu Skagamanna. Þá vantaði mig hjálp til að fara yfir misgóða texta mína, bæði á íslensku og ensku.
Er skemmst frá því að segja að skap okkar féll einstaklega vel saman. Tveir sérviskupúkar sem höfðu endalausa þolinmæði til að sannreyna og velta fyrir sér smæstu atriðum. Það má segja að Ingibjörg mín og Búddi náðu ekki síður vel saman, en hún var meira og minna við öxlina á okkur við þessa vinnu.
Henni leyfðist að gera grín að okkur, hlæja að smásmuguhætti okkar og stundum þrasi, m.a. þegar hann minnti mig á að ég væri nú ekki lærður sagnfræðingur. Við áttum léttar stundir í eldhúskróknum heima, þar sem vanafesta Búdda kom svo sterk í ljós.
Kaffið skyldi drekka úr litlum bláum bolla og alls ekki öðrum, alltaf setið á nákvæmlega sama stað, olnboginn á gluggaröndinni og þá gátu umræður hafist fyrir alvöru. Þó að Búddi hefði mjög sterkar skoðanir á mönnum og málefnum var meðfæddri kurteisi hans viðbrugðið, hann virti hin ýmsu sjónarmið og var forvitinn um ólíkar skoðanir.
Hans lífslán var Rúna, enda reyndist hann sem klettur í sárum veikindum hennar. Betri ferðafélaga í lífinu gat hann ekki fengið, hann mat hana ávallt mikils, var stoltur af börnunum og það kom blik í augun þegar hann talaði um barnabörnin.
Ég stend í þakkarskuld við minn góða félaga fyrir alla samvinnuna.
Minning hans mun lifa. Við sendum Rúnu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Haraldur
Sturlaugsson.
Fallinn er frá kær vinur, Björn Ingi Finsen, og enn höggvið stórt skarð í þann góða hóp sem brautskráðist frá Menntaskólanum á Akureyri 17. júní 1962. Við vorum lengi sessunautar í máladeild og þar var hann oft veitandinn þegar heimalesturinn hafði brugðist. Á hina hlið mér sátu þeir bræður Magnús og Páll Ingólfssynir. Nú eru þeir allir látnir en minningin um þessa góðu félaga lifir.
Björn var mjög einbeittur námsmaður, en það var ekki einungis í hinu bóklega sem hann skaraði fram úr. Bekkjarbróðir okkar, Magnús heitinn Thorlacius, hitti naglann á höfuðið þegar hann orti eftirfarandi braghendu um Björn í Carminu 1962:
Knattspyrnuna kempan snör af kappi stundar.
Skagamannsins skynið klára
skelfir aðra dúxa vára.
Sundmaður var hann líka afar hraðskreiður. Ég sé hann fyrir mér á menntaskólaárunum þegar Hermann íþróttakennari var að mæla tíma okkar í skriðsundi. Handleggirnir eins og þyrluspaðar og árangurinn eftir því. Eitthvert árið hef ég skrifað hjá mér tíma hans í 50 m bringusundi 37 sek. og 30 sek. í skriðsundi.
Stúdentsprófi lauk Björn með láði og nokkrum árum síðar MA-gráðu (Honours) í ensku máli og bókmenntum frá Edinborgarháskóla. Síðan var hann enskukennari við ML um árabil við góðan orðstír og að lokum nutu nemendur FVA krafta hans.
Þegar þau hjónin bjuggu á Laugarvatni með börnum sínum fórum við fjölskyldan stöku sinnum í heimsókn til þeirra og áttum þar notalegar stundir saman. Hann fyndinn og frísklegur, hún hláturmild og glaðvær. Einhvern tíma spaugaði hann með það að allur munur væri nú að búa á höfuðborgarsvæðinu og geta skotist í Bridde-bakarí eftir rjómakökum hvenær sem mann lysti. Spaugið nýttum við okkur og komum næst með rjómakökur og uppskárum mikinn fagnaðarhlátur Rúnu og Búdda.
Stöðugt var Björn að bæta við þekkingu sína og var m.a. löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi og margir kannast við hann sem leiðsögumann. Honum lét mjög vel að segja frá og vissi fjölmargt um sögu og náttúru landsins. Eitt sinn gekk hann t.d. með okkur gömlum skólafélögum um Akranes og jós af fróðleiksbrunni sínum um heimabæinn, sagði sögur af húsum og fólki, að ógleymdum fuglunum sem voru meðal margra áhugamála hans.
Á seinni árum höfum við sjaldnar hist, en oft átt góð samtöl í síma og tölvupósti. Hann var vel hagorður og stundum fór hann með einhvern brag eða vísu sem hann hafði ort og átti þá jafnvel til að syngja textann. Eftirfarandi erindi er úr löngum brag sem hann orti fyrir mörgum árum:
En þökkum allt gamalt og gengið!
Við gátum ei neitt betra fengið!
Og gleðjist því gumar af því
að á Skaganum skutum við rótum
og að skutlast í mold hérna hljótum
er af jörðu við förum í frí!
Það lýsir Búdda prýðilega hvað hann unni Rúnu sinni heitt og hugsaði vel um hana. Eftir að hún var komin inn á Hjúkrunarheimilið Höfða fór hann alla daga til hennar, söng með henni, sagði frá, var til staðar. Að leiðarlokum kveð ég góðan dreng með söknuði og þakklæti fyrir áratuga vináttu. Við Hrafnhildur sendum fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.
Brynjúlfur Sæmundsson.