Kristján Loftsson
Kristján Loftsson
Engar hvalveiðar verða í sumar á vegum Hvals hf. og segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins við Morgunblaðið að ástæða þess sé aðstæður í heimsmálum. „Afurðaverðsþróun í okkar aðalmarkaðslandi, Japan, hefur verið óhagstæð að…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Engar hvalveiðar verða í sumar á vegum Hvals hf. og segir Kristján Loftsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins við Morgunblaðið að ástæða þess sé aðstæður í heimsmálum.

„Afurðaverðsþróun í okkar aðalmarkaðslandi, Japan, hefur verið óhagstæð að undanförnu og fer versnandi, sem gerir verð okkar afurða það lágt að ekki er forsvaranlegt að stunda veiðar í sumar,“ segir Kristján.

Hann segir þó að kaupendahópur sé að sönnu fyrir hendi í Japan. Lágt gengi íslensku krónunnar gagnvart japanska jeninu hjálpi heldur ekki til.

„Þá er allt það umrót sem nú er á heimsmörkuðum vegna tollakapphlaups ríkja ekki til þess fallið að laga stöðuna. Japanir hafa minna milli handanna þessa dagana og kaupa því ódýrari mat en ella. Einnig má búast við auknum innflutningi á ódýrum mat til Japans frá öðrum ríkjum í Asíu vegna þessa ástands og mun það væntanlega draga okkar vörur niður í verði, á sama tíma og kostnaður eykst hér á landi ár frá ári,“ segir hann.

„Eins og staðan birtist okkur sér Hvalur hf. ekkert annað í stöðunni en að doka við og bíða betri tíma, en staðan verður tekin aftur á nýju ári,“ segir Kristján.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson