Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Seðlabankinn telur þörf á að styrkja gjaldeyrisvaraforðann og mun bankinn kaupa sex milljónir evra í hverri viku, jafnvirði um 870 milljóna króna. Þetta var meðal þess sem fram kom í ræðu seðlabankastjóra, Ásgeirs Jónssonar, á ársfundi bankans í gær.
„Gjaldeyrisforðinn hefur minnkað undanfarin ár og fjármögnun hans tekið stakkaskiptum, einkum eftir gjaldeyrissölu Seðlabankans í covid-19-faraldrinum og vegna gjaldeyrisþarfar ríkissjóðs,“ sagði Ásgeir í ræðu sinni.
Þá kom fram að í árslok 2024 jafngilti forðinn 118% af forðaviðmiði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Horfur eru á að hann minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn sinnir fyrir ríkissjóð.
Mat bankans er að neðri mörk forðans ættu ekki að vera undir 120% af því viðmiði.
„Því telur Seðlabankinn að styrkja þurfi forðann. Af þeim sökum mun bankinn hefja regluleg gjaldeyriskaup á innlendum millibankamarkaði á nýjan leik 15. apríl næstkomandi, á 171 árs afmæli frjálsrar verslunar á Íslandi,“ sagði Ásgeir enn fremur í ræðunni.
Gunnar Erlingsson, skuldabréfamiðlari í Markaðsviðskiptum Arion banka, segir að Seðlabankinn sé sennilega bæði að bregðast við sterku raungengi og nokkuð fyrirsjáanlegum litlum sem engum kaupum lífeyrissjóðanna á gjaldeyri það sem af er árinu.
„Lífeyrissjóðirnir fá um 55 milljarða íslenskra króna jafngildi í gjaldeyri vegna samkomulags um slit á ÍL-sjóði en auk þess fengu þeir 40-45 milljarða íslenskra króna jafngildi í gjaldeyri við samruna Marel og JBT. M.ö.o.: eru þeir líklega vel í sveit settir hvað gjaldeyri varðar á árinu og ólíklegir til kaupa í sama mæli og undangengin ár,“ segir Gunnar og bætir við að enn fremur megi velta fyrir sér hvort Seðlabankinn vilji nokkuð sjá krónuna styrkjast frekar auk þess sé það almennt þróunin að ríki heims leitist við að veikja gjaldmiðla sína í viðleitni tilð að efla samkeppnisstöðu sína, og vera þannig fyrri til ef svo mætti segja.
„En fyrst og fremst myndi ég halda að sterkt raungengi krónunnar hreyfi við þeim,“ segir hann að lokum. magdalena@mbl.is