Viðtal
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
„Það eru svikin sem eru verst. Þú horfir í augun á fólki sem telur sig hafa keypt góðan Kjarval og er ánægt með verkið en einhver hefur bent því á að láta athuga betur málið, eitthvað sé vafasamt,“ segir Ólafur Ingi Jónsson, forvörður hjá Listasafni Íslands, en í dag verður opnuð þar sýningin Ráðgátan um rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir en Ólafur Ingi og Dagný Heiðdal listfræðingur eru sýningarstjórar. Þegar blaðamann bar að garði voru þau á lokametrunum við uppsetningu sýningarinnar en þar má sjá fölsuð verk sem safnið á í fórum sínum og hafa borist því á ýmsan máta. Öll tengjast þau hinu svonefnda stóra málverkafölsunarmáli sem hófst á síðasta tug 20. aldar og lauk með dómi í Hæstarétti árið 2004 þar sem hinir ákærðu voru sýknaðir vegna ágalla á rannsókn málsins. Málið hafði þó neikvæð áhrif á íslenskan listheim og hætt er við að sagan gleymist og fölsuð verk komist aftur í umferð.
Flestir af þekktustu listamönnum Íslands á fyrri hluta 20. aldar hafa orðið fyrir barðinu á fölsurum en á sýningunni eru dæmi um verk fjögurra listamanna sem hafa hvað mest verið falsaðir, en það eru Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Nína Tryggvadóttir og Svavar Guðnason.
Rauðmagi kveikjan að sýningu
„Með sýningunni viljum við stuðla að vitundarvakningu og því að fólk átti sig á því að það eru falsanir í umferð. Tuttugu ár eru síðan málinu lauk og nú eru komnar kynslóðir sem þekkja ekki til þessa máls. Undanfarin ár höfum við fengið stórar gjafir til safnsins og þar hafa leynst fölsuð verk. Eitt þeirra rataði upp á vegg á sýningu hjá okkur og vakti þó nokkurt umtal,“ segir Dagný um hvatann að baki sýningunni en málverkið sem hún vísar til er af rauðmaga og var það eignað Kjarval.
„Áritunin er J.S. Kjarval en þegar betur er að gáð sést að búið er að eiga við hornið þar sem áritunin er. Þá eru merkingar aftan á blindrammanum sem tengja það við uppboð í Danmörku. Ólafur Ingi bar saman uppboðsskrár og þá kom í ljós að búið var að bjóða verkið upp tvisvar og að það væri eftir Orla Borch,“ segir Dagný.
„Þú sérð hvernig átt hefur verið við verkið t.d. á málningunni. Búið er að mála yfir með mattri málningu en undir er glansandi málning. Borch var samtíðarmaður Kjarvals og er þarna að mála sama mótíf og Kjarval gerði á þessum tíma. Það er því ljóst að falsarar hafa þekkingu á íslenskri listasögu og listamönnum. Þessi verk eru ekki valin af handahófi,“ bætir Ólafur Ingi við og nefnir líka verk sem hafði verið eignað Nínu Tryggvadóttur en reyndist vera eftir dönsku listakonuna Herdisi Gelardi.
„Ég var að skoða uppboð út af öðru og sá þarna verk sem líktist mjög þessu verki sem átti að vera eftir Nínu. Ég bar verkin saman og fleiri verk eftir Gelardi og sá að það voru sömu atriði í myndunum, eins og til dæmis sama flaskan og dúkurinn. Allt eitthvað sem fannst í öðrum verkum eftir hana. Þegar við svo tókum röntgenmynd af verkinu fundum við merkingu Gelardi leynast undir yfirborðinu,“ segir Ólafur Ingi.
En er enn þá verið að falsa listaverk?
„Ljóst er að fölsuð verk eru stöðugt í umferð og við erum reglulega að koma auga á falsanir. Hins vegar er óljóst hvort eitthvað sé um nýjar falsanir þar sem nýir aðilar eru að verki. Ég held að flestir geti komið auga á hvort verk sé vafasamt eða ekki en oftast eru þetta verk með enga eigendasögu, þau bara birtast og enginn kannast við þau. Við ættum alltaf að geta rakið sögu verkanna því íslensk listasaga er tiltölulega stutt,“ segir Ólafur Ingi og Dagný bætir við að um sé að ræða alþjóðlegt vandamál. „Það er mikilvægt að kynna sér vel íslenska listasögu til þess að geta verið á varðbergi. Kynna sér verkin vel, eigendasögu, hvort þau hafi verið sýnd áður og bera saman við önnur verk eftir sama listamann.“
Handbragðið barnalegt
„Hluti af svekkelsinu er hversu lélegar falsanir þetta eru. Þetta er bara ekki nógu vel gert og handbragðið barnalegt. Listaverk listamanna eru niðurstaða margra áratuga rannsókna. Listamaðurinn hefur þróað allt myndmálið, teikninguna, vinnuferlið, litina, undirlagið og hefur líka skoðun á römmunum. Hann er sífellt að hnika hinu og þessu til í gegnum lífið og starfið. Alltaf að auka við og henda út, allt þaulhugsað. Hér aftur á móti er bara einhver sem kemur inn og klárar eftirlíkinguna á 20 mínútum. Þetta eru svikin,“ segir Ólafur Ingi.
Samhliða sýningunni er opnaður gagnagrunnur í samstarfi við Myndstef þar sem fölsuðu verkin úr stóra málverkafölsunarmálinu verða aðgengileg. „Þetta eru verk sem búið er að sýna fram á með óyggjandi hætti að eru fölsuð. Þarna má finna upplýsingar um verkin en það eru örugglega fleiri verk í umferð en markmiðið er að fólk sé meðvitað um falsanir,“ segir Dagný.
Sýningin stendur til 14. september en Listasafn Íslands mun einnig standa fyrir námskeiðum undir heitinu „Afhjúpun blekkingar – Um eftirlíkingar og falsanir“ þar sem sérfræðingar safnsins miðla þekkingu sinni til þátttakenda til að þeir öðlist meiri færni í að meta uppruna listaverka, kynnist viðbrögðum safna og stofnana við fölsuðum listaverkum og tæknilegum vinnubrögðum við rannsóknir á fölsunum.
Afhjúpun blekkingar
Hvernig eru verk fölsuð?
Listaverkafalsanir fela meðal annars í sér skjalafals og fjársvik þar sem tjón brotaþola er sagt geta hlaupið á milljónum króna. Þá er fölsun listaverka brot á höfundalögum en óheimilt er að breyta verki höfundar þannig að höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni séu skert.
Á sýningunni Ráðgátan um rauðmagann og aðrar sögur um eftirlíkingar og falsanir er að finna ítarlegar upplýsingar um falsanir almennt sem og hin fölsuðu verk sem þar ber fyrir augu. Með góðfúslegu leyfi Listasafns Íslands er hér gripið niður í sýningartexta.
Fölsunum á listaverkum má skipta í tvo flokka:
Verki óþekkts listamanns er breytt. Yfirleitt með því að afnema áritun, með yfirmálun eða með því að fjarlægja hluta verksins. Þetta á bæði við um pappírsverk og málverk. Upprunalegur rammi er oft nýttur til þess að halda útliti verksins sem upprunalegustu. Áritun þess listamanns sem verið er að falsa er bætt á verkið.
Fölsun er unnin frá grunni með því að líkja eftir verki þekkts listamanns. Falsanir á pappír eru oftast unnar á auðan pappír en málverk geta verið máluð yfir eldra eða óklárað verk óþekkts listamanns. Þannig nýtir falsarinn sér gamlan málaðan striga, blindramma og í mörgum tilfellum upprunalegan ramma.
Gengið er út frá fimm þáttum við staðfestingu á upprunaleika listaverka. Til að geta staðfest að listaverk sé eftir ætlaðan höfund þurfa fjórir af fimm eftirtöldum þáttum að standast samanburð við höfundarverk viðkomandi listamanns en fölsuð listaverk standast ekki slíka skoðun.
•Hugmynd eða ætlun listamanns – listsögulegt samhengi
•Gerð – lýsing á gerð og umbúnaði verksins
•Efniviður – vísindaleg greining á efnum
•Vinnsla – tækni og aðferðir listamanns
•Heimildir – gögn sem tengjast verkinu sjálfu og sögu þess