Sigríður Haraldsdóttir fæddist 9. febrúar 1931. Hún lést 17. mars 2025.
Útför fór fram 29. mars 2025.
Í dag kveðjum við merka konu af kynslóð sem er að hverfa í tímans rás. Sigríður eða Sigga eins og hún var alltaf kölluð rak myndarlegt blandað bú með manni sínum Konráð Auðunssyni á Búðarhóli í A-Landeyjum í áratugi.
Ætíð var margt um manninn á heimili þeirra hjóna enda eignuðust þau níu börn og voru iðulega með sumarbörn að auki.
Ég var svo heppin að fá að dveljast hjá þeim um tíma nokkur sumur en dvölin á Búðarhóli setti ný viðmið fyrir mig, borgarbarnið, á margan hátt. Sigga átti ótæmandi þolinmæði og elsku sem hún var óspör á og aldrei heyrði ég hana segja styggðaryrði um nokkurn mann. Amma sagði gjarnan að hún þekkti enga manneskju betri en Siggu en þær voru systur. Amma dáðist að dugnaði og ljúfmennsku systur sinnar og naut þess alla tíð að heimsækja hana á hverju sumri.
Sigga var flink handavinnukona og kenndi mér að prjóna, hjá henni prjónaði ég fyrstu lopapeysuna og margt fleira. Sigga galdraði fram fallegar flíkur á prjónavélinni sinni og saumavélinni og fór ég alltaf einni flík ríkari heim úr sveitinni.
Í gegnum áratugina hefur Sigga alltaf gefið sér tíma til að fylgjast með mér og áttum við reglulega símtöl þar sem farið var yfir það helsta sem var í gangi á hverjum tíma, hvernig börnin hefðu það og seinna barnabörnin og auðvitað Rabbi minn.
Alltaf var hægt að leita til Siggu í lífsins ólgusjó og hafði hún lag á að milda það sem miður fór og hvetja áfram til góðra verka og þess sem hugurinn stóð til.
Í dag kveð ég hana, sem var mér sem önnur móðir, með hjartað fullt af þakklæti til hennar og fullvissu um að mikil gleði ríki hinum megin við komu hennar.
Mér kenndi móðir
mitt að geyma
hjarta trútt
þó heimur brygðist.
Þaðan er mér kominn
kraftur vináttu,
Ástin ótrauða
sem mér aldrei deyr.
(Benedikt Gröndal)
Hvíldu í friði, elsku hjartans Sigga.
Sigríður Magnea Björgvinsdóttir.