Hjörtur Bjarni Þorleifsson fæddist 26. mars 1970. Hann lést 4. ágúst 2024.
Foreldrar hans voru Ingveldur Brimdís Jónsdóttir og Þorleifur Leó Ananíasson.
Systkini Hjartar: Leó Örn og Telma Brimdís. Eiginkona Leós Alma Lára Hólmsteinsdóttir: Þeirra börn eru Hákon Freyr, f. 17. nóvember 1998, móðir Eva Bragadóttir, Rósa, f. 28. maí 2004, og Katla Anný, f. 2. apríl 2007. Aníta Hrund Jónsdóttir, f. 15. desember 1998. Eiginmaður Telmu Brimdísar: Guðfinnur Már Árnason, þeirra börn Alma Rún, f. 29. apríl 2000, Yngvi Þór, f. 21. september 2004, og Kristian Leó, f. 21. september 2011. Sonur Guðfinns er Árni Már, f. 2. ágúst 1995.
Hjörtur var lærður þjónn og lærði svo til vínþjóns. Hann vann víða um Evrópu og á Íslandi. Núna seinni árin bjó hann á Egilsstöðum og vann í Húsasmiðjunni þar í bæ.
Útför hefur farið fram.
Elskulegur frændi minn og systursonur, Hjörtur Bjarni, hefði orðið 55 ára þann 26. mars. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu um síðustu verslunarmannahelgi. Hjörtur var frumburður foreldra sinna og ólst upp við ástúð og gott atlæti. Hann var kröftugur og duglegur strákur. Æfði handbolta með KA á sínum yngri árum. Gekk í Lundarskóla og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hann flutti ungur suður og fór þar í nám i Veitinga- og þjónaskólanum, fór utan og lærði til vínþjóns og var lengi vel sá eini hér á landi með þá menntun. Hann var ríkur af reynslu í sínu starfi með því að vinna í ýmsum löndum í Evrópu og víða á Íslandi. Það var ansi oft að ég kom við í Sólvöllunum til foreldra minna og þá var Hjörtur þar að bíða eftir því að pabbi hans kæmi úr vinnunni og sækti sig. Hann var að koma af handboltaæfingum í Skemmunni og þá lá svo vel við að koma við hjá ömmu og fá veitingar hjá henni. Enginn fór svangur frá ömmu Laugu. Þar sátu þau líka og spiluðu ólsen ólsen. Og nutu þau þess bæði, seinna tók yngra fólkið við að spila við ömmu sína. Hjörtur var einfari að miklu leyti, hann var vinmargur og naut þess að fara á tónleika og hlusta á góða músík. Þar kynntist yngsti sonur okkar frænda sínum, því þeir höfðu svipaðan tónlistarsmekk. Og svo voru það hundarnir hans, sem voru eins og börnin hans. Hann var ekki skaplaus og gat verið fastur á sínu, en samt ótrúlega ljúfur og viðræðugóður. Fólk talaði um hvað hann hefði verið lipur og þægilegur í sínum störfum. Hjörtur var líka góður frændi og nutu systkinabörnin hans þess. Hann stríddi þeim gjarnan og gaf þeim ný nöfn, en allt gert í góðu. Hann útvegaði sumum þeirra sumarvinnu og bjuggu þau gjarnan hjá honum á meðan. Ég fylgdist með Hirti í gegnum skilaboð, þar sem hann bjó fyrir austan. Hann hafði ekki hátt um sína hagi. En fyrir nokkrum misserum hafði hann farið suður til læknis og kom þá í ljós stækkun á ósæð og eitthvað fleira því tengt. Var ég þá að spyrja hann frétta af heilsufari og sagði hann mér frá þessu. En þetta væri ekkert sem þyrfti að hafa áhyggjur af, svona var hann, hafði ekki hátt um sig. En samt varð þetta hans banamein, rúmum tveimur árum seinna. Á tímanum í kringum 1970 vorum við þrjár systur að eignast börn. Jón Ægir fæddist á Dalvík í árslok 1969, svo kom Hjörtur í mars 1970 og síðan okkar drengur um miðjan ágúst. Það var alltaf hugsun hjá okkur að þeir gætu allir orðið góðir leikbræður og vinir. En okkar sonur dó í fæðingu og var hann jarðaður 24. ágúst. 54 árum seinna urðu örlögin þannig að Hjörtur var jarðaður 23. ágúst. Þetta var mjög skrítin og erfið tilfinning. En svona er lífið, við ráðum litlu. En nú hafa þeir frændur hist og þau sem á undan eru gengin og spila ólsen ólsen og þiggja veitingar hjá ömmu. Bestu kveðjur til þín yfir í sumarlandið, elsku frændi.
Pálína S. Jónsdóttir (Palla).