Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Bandaríkin eru mesta innflutningsríki sjávarfangs á heimsvísu og er heildarverðmæti innfluttra sjávarafurða til Bandaríkjanna árlega á bilinu 25-28 milljarðar bandaríkjadala, jafnvirði um 3.500-3.700 milljarða íslenskra króna. Er mest keypt af rækju, laxi og tilapíu úr eldi víðs vegar um heiminn.
Aðeins Evrópusambandið er stærri markaður ef innflutningur aðildarríkja þeirra er lagður saman. Á eftir Bandaríkjunum fylgja svo Kína, Japan, Suður-Kórea, Bretland og Kanada.
Mest frá Síle
Ekki liggja fyrir endanlegar upplýsingar um innflutning á eldislaxi til Bandaríkjanna á síðasta ári en á grundvelli áætlana framleiðenda og upplýsinga úr gagnagrunni markaðseftirlitsstofnunar Evrópu fyrir sjávar- og fiskeldisafurðir (EUMOFA) má ætla að flutt hafi verið til Bandaríkjanna að minnsta kosti 450 þúsund tonn af laxafurðum árið 2024.
Langmest kom frá Síle, en þarlend tollyfirvöld segja að á síðasta ári hafi verið seld til Bandaríkjanna 235 þúsund tonn af eldislaxi. Út frá fyrrnefndum gögnum má gera ráð fyrir að 80 þúsund tonn af laxi hafi verið flutt inn frá Kanada, ríflega 65 þúsund tonn frá Noregi, 29 þúsund tonn frá Bretlandi og um 18 þúsund tonn frá Færeyjum.
Bandaríkin hafa verið vaxandi markaður fyrir íslenskan eldislax og seldu Íslendingar hátt í fimm þúsund tonn af laxi þangað á síðasta ári. Í greiningu sem birt var á Radarnum í byrjun mars kom fram að útflutningsmet hefði verið sett í janúar þegar seldar voru til Bandaríkjanna eldisafurðir fyrir 2,3 milljarða króna.
Íslenski laxinn sem seldur er til Bandaríkjanna er almennt í efsta lagi markaðarins, sem gerir miklar kröfur til gæða og ferskleika, og keppir aðallega við norskan, kanadískan, skoskan og færeyskan eldislax. Laxinum sem framleiddur er í Síle er oft beint að öðrum lögum markaðarins.
Búast við samdrætti
Eins og lesendum er eflaust orðið kunnugt tilkynnti forseti Bandaríkjanna stórfellda hækkun tolla á flestar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna frá nánast öllum ríkjum heims fyrr í mánuðinum en sló því svo skyndilega á frest í 90 daga, þó er viðhafður nýr 10% tollur. Þegar þessi rýni er rituð var það að minnsta kosti staðan, hver hún er þegar þetta blað 200 mílna fer í dreifingu er óljós.
Fyrr á árinu hafði verið tilkynnt um 25% toll á kanadískar og mexíkóskar vörur. Var gildistöku þessara tolla fyrst frestað en þeir tóku gildi í síðasta mánuði. Að því er 200 mílur komast næst hefur Trump ekki frestað þeim tollum.
Fram kom í umfjöllun í marsútgáfu tímaritsins Fish Farmer Magazine að tollarnir hefðu mjög slæmar afleiðingar fyrir kanadíska eldisiðnaðinn, sérstaklega í Bresku-Kólumbíu þar sem framleidd eru 70% eldislaxins sem seldur er frá Kanada til Bandaríkjanna. Samtök laxeldisfyrirtækja í ríkinu gera ráð fyrir að velta dragist saman um 130 til 143 milljónir kanadadollara og að 1.100 til 1.200 störf tapist vegna þessa.
Í yfirlýsingu sinni í apríl tilkynnti Trump um 15% toll á norskar afurðir (sem nú verður 10% í 90 daga) en 10% á skoskar, færeyskar og íslenskar laxafurðir. Það er því spurning hvort framleiðendur í þessum ríkjum séu með markaðsforskot gagnvart kanadískum framleiðendum, sem þurfa nú að finna leiðir til að keppa með hærri álögur á sínar vörur.
Einnig er 10% tollur settur á lax frá Síle, en þar er framleiðslukostnaður langtum minni og töluvert tækifæri til framleiðsluaukningar. Það er því spurning hvort Síle verði í betri aðstöðu til að nýta sér stöðuna á markaði.
Tilapía frá Kína
Ef litið er til hvítfisks hafa íslenskur þorskur og íslensk ýsa skapað sér ákveðna sérstöðu á Bandaríkjamarkaði en hafa þurft að standa í stífri samkeppni í veitingageiranum þar vestra þar sem nægt framboð hefur verið af ódýrum hvítfiski úr eldi, svo sem tilapíu og pangasíus.
Árið 2024 voru flutt til Bandaríkjanna 169.700 tonn af tilapíu að verðmæti 634 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 83 milljarða íslenskra króna. Þar af voru rúm 131 þúsund tonn, eða 77,3% allrar innfluttrar tilapíu, flutt inn frá Kína.
Yfirlýsingar forseta Bandaríkjanna um tolla á vörur frá Kína hafa einnig tekið breytingum undanfarið en alltaf á þann veg að tollar á vörur frá þessu ríki verði stórlega auknir. Nú síðast, áður en þetta blað fór í prentun, var tilkynnt um 125% toll. Ætla má að hvorki framleiðendur né innflytjendur í Bandaríkjunum séu reiðubúnir að taka á sig allan þann kostnað og mun staðan óhjákvæmilega leiða til verðhækkana sem skerða samkeppnishæfni tilapíueldisins í Kína.
Þá voru í fyrra flutt tæp 18 þúsund tonn af tilapíu frá Kólumbíu, en það ríki fær 10% toll á sínar vörur, sem skapar verulegt samkeppnisforskot. Vandi framleiðenda þar er að ekki er víst að það takist að auka framleiðsluna nægilega mikið til að skáka framleiðslu Kína.
Önnur framleiðsluríki, eins og Indónesía, hafa selt innan við þúsund tonn af tilapíuafurðum til Bandaríkjanna, en það ríki fékk fyrst um sinn á sig 32% toll en nú 10% í að minnsta kosti 90 daga. Fátt bendir því til þess að tilapía haldi óbreytt stöðu sinni sem töluvert ódýrari hvítfiskur.
Einnig tollur á pangasíus
Önnur tegund sem hefur komið sterk inn á hvítfiskmarkað er pangasíus. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs keyptu Bandaríkjamenn 85 þúsund tonn af pangasíus frá Víetnam, en það er 38,6% meira en á sama tímabili árið á undan. Allt árið 2023 nam innflutningur á tegundinni 91 þúsund tonnum og var það nánast allt framleitt í Víetnam.
Þegar forseti Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í mánuðinum um tollahækkanir á allan heiminn greindi hann frá því að settur yrði 46% tollur á vörur frá Víetnam, en nú 10% tímabundið.
Óbreytt mun því staða hvítfisks úr eldi versna og samkeppnisskilyrði íslensks hvítfisks kann að batna á Bandaríkjamarkaði, en einnig gæti skapast sóknarfæri fyrir framleiðendur pangasíus.
Við þessa stöðu bætist verulegur skortur á hvítfiski í Bandaríkjunum eftir að innflutningur á rússnesku sjávarfangi var gerður óheimill og lokað var fyrir glufu sem hleypti rússneskum fiski til Bandaríkjanna í gegnum vinnslur í Kína. Neysla á alaskaufsa, sem Bandaríkjamenn veiða sjálfir, hefur í kjölfarið aukist, en hvorki hann né rússneski fiskurinn stóðst samkeppni í efstu lögum markaðarins – það er að segja á þeim hluta markaðarins þar sem neytendur eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir afurðirnar.
760 þúsund tonn
Einhver helsta eldistegundin sem seld er til Bandaríkjanna er rækja, en flutt voru inn 760 þúsund tonn á síðasta ári fyrir um sex milljarða bandaríkjadala.
Umsvifamesti framleiðandinn er Indland, sem seldi þangað 294 þúsund tonn, á eftir fylgir Ekvador með 187 þúsund tonn, Indónesía með tæp 135 þúsund tonn, Víetnam með rúm 68 þúsund tonn, Taíland með 27 þúsund tonn, Argentína með tæp 15 þúsund tonn og svo Mexíkó með 14 þúsund tonn.
Sem fyrr segir hefur verið gert 90 daga hlé á gildistöku 32% tolls á Indónesíu og 46% tolls á Víetnam og er á meðan í gildi 10% tollur á þessi ríki. Að óbreyttu munu tollar einnig hækka að loknu hléi á vörur frá Taílandi í 36% og frá Indlandi í 26%, en tollar á vörur frá Ekvador og Argentínu haldast í 10%. Fyrrnefnt hlé nær ekki til Mexíkó og verður áfram 25% tollur á vörur framleiddar í ríkinu sem fluttar eru til Bandaríkjanna.