Aldur togara heldur áfram að lækka en þeim hefur fækkað um tæpan fjórðung á undanförnum áratug. Á móti verða vélskip og opnir bátar sífellt eldri. Alls hefur fiskiskipum fækkað um 154 frá árinu 2014

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Aldur togara heldur áfram að lækka en þeim hefur fækkað um tæpan fjórðung á undanförnum áratug. Á móti verða vélskip og opnir bátar sífellt eldri. Alls hefur fiskiskipum fækkað um 154 frá árinu 2014.

Meðalaldur togara var á síðasta ári aðeins 19 ár og hefur ekki verið lægri á þessari öld. Lækkandi aldur er í takt við gríðarlega fjárfestingu útgerða í nýsmíðuðum öflugum togurum.

Þróunin hefur þó verið þveröfug í tilfelli vélskipa og opinna báta. Meðalaldur íslenskra vélskipa var 30 ár árið 2024 en var 23 ár fyrir áratug. Leita þarf aftur til ársins 2005 til að finna ár sem meðalaldur vélskipa var 19 ár líkt og togara er nú. Þá var meðalaldur opinna báta heil 35 ár á síðasta ári en 27 ár árið 2014. Meðalaldur þessa báta var síðast 19 ár fyrir meira en tveimur áratugum, árið 2003.

Þetta má lesa úr uppfærðum gögnum Hagstofu Íslands um samsetningu íslenska fiskiskipaflotans.

Togurum fækkar mest

Alls voru 1.532 fiskiskip í íslenska flotanum á síðasta ári og hefur þeim fækkað um 154 frá árinu 2014 eða um 9%. Mestu munar um vélskip, sem hefur fækkað um 99 á undanförnum áratug og voru skráð 675 í fyrra.

Mest hefur vélskipum fækkað á Vesturlandi þar sem þau voru 24 færri á síðasta ári en fyrir áratug. Þá hefur þeim fækkað næstmest á Suðurnesjum þar sem voru 19 færri vélskip í fyrra en 2014. Hlutfallslega fækkaði vélskipum mest á höfuðborgarsvæðinu eða 30%, úr 54 í 38.

Togurum fækkar hlutfallslega mest á tímabilinu, úr 49 árið 2014 í 37 á síðasta ári. Fækkar þeim um helming bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Vestfjörðum, úr tíu í fimm og úr sex í þrjá. Í þremur landshlutum fækkar togurum ekki og eru það Vesturland þar sem eru þrír togarar skráðir með heimahöfn, Norðurland eystra þar sem þeir eru níu, og Austurland þar sem þeir eru fimm.

Opnum bátum hefur aðeins fækkað um 5% á árunum 2014 til 2024, en þróunin er mjög ólík eftir landshlutum. Fjölgar þeim um 14 í 248 á Vestfjörðum, um fjóra í 23 á Suðurlandi og um fimm í 69 á Suðurnesjum. Á sama tíma fækkar þeim um 27 á Vesturlandi, 21 á Austurlandi og tólf á Norðurlandi eystra.

Ýmsar skýringar

Breytingarnar eru líklegar til að vera af ýmsum toga svo sem ný skip með aukna afkastagetu sem koma í stað tveggja eða fleiri eldri skipa, kvótaskerðingar og sameining útgerða.

Þó hefur aldur vélskipa ekki lækkað og má því áætla að smærri útgerðir hafi mögulega ekki burði til að fjárfesta í nýsmíðuðum skipum í sama umfangi og þær útgerðir sem gera út togara. Einnig virðist sem strandveiðiflotinn sé mikið að gera út eldri báta og endurnýjun þeirra sé fremur lítil.

Fjölgun opinna báta á Vestfjörðum má mögulega rekja til hagstæðari aðstæðna til að sækja afla við upphaf strandveiðitímabils en til að mynda á Norðurlandi eystra og Austurlandi þar sem bátum fækkar.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson