Morgunblaðið/Ásdís
Á kaffihúsi einu á Vitastíg bíður mín Michael Hendrix, Ameríkani sem hefur fundið sinn stað hér á Íslandi. Michael, sem er klæddur íslenskri lopapeysu, er í óðaönn að spjalla við íslenskan leikara þegar blaðamaður kemur askvaðandi inn. Við setjumst innan um hipsterana, fáum okkur kaffi og spjöllum um lífið og tilveruna á Íslandi.
Kolféll fyrir landinu
Michael er alinn upp í Appalachian-fjöllunum í Tennessee en hefur búið á Boston-svæðinu sem fullorðinn maður. Faðir hans var alinn upp í sárri fátækt í húsi án rennandi vatns og rafmagns en það voru ekki örlög Michaels.
„Ég er frá músíkölsku heimili og var látinn læra á píanó en fann mig ekki fyrr en ég uppgötvaði gítarinn á unglingsárunum,“ segir Michael.
„Ég byrjaði feril minn sem grafískur hönnuður en eftir því sem tíminn leið stækkaði hugmyndaheimur minn hvað varðar hönnun. Ég sá að það var ekki aðeins hægt að hanna það sjónræna heldur einnig móta upplifun fólks í fyrirtækjum eða á viðburðum. Ég endaði því í nýsköpun og fór þá að hanna alls konar sem viðkemur þjónustu eða vörum. Þegar ég var á þeirri vegferð fór ég líka að kenna tónlist hjá Berklee College of Music og þá fóru þessar tvær hliðar á mér að mætast; hönnunarhliðin og tónlistarhliðin, sem ég hafði fram að þessu haldið aðskildum,“ segir Micheal, en áður en hann kom til Íslands var hann yfir hönnunardeild nýsköpunar- og ráðgjafarfyrirtækisins IDEO. Michael kenndi hjá Berklee í fimm ár, stofnaði fyrirtæki og skrifaði bókina Two Beats Ahead: What Musical Minds Teach Us About Innovation. Það var svo ferð til Íslands sem átti eftir að breyta stefnu lífsins.
„Ísland kom til mín bakdyramegin. Ég kom hingað fyrst árið 2010 og fór þá á ráðstefnu í Hörpu. Þetta var um sumar og ég tók rútu gullna hringinn og varð alveg heillaður. Veðrið var fullkomið; sólin skein í heiði í fjóra daga í röð og ég kolféll fyrir landinu. Eftir það kom ég hingað nokkrum sinnum í frí með fjölskyldunni og fyrir tveimur árum kom ég til að tala á DesignTalks á HönnunarMars. Ég hitti þá mjög marga og það opnaði fyrir mér margar dyr og ást mín á Íslandi dýpkaði. Ég áttaði mig á því að fólk hér skildi mig mun betur en í Ameríku; þennan skrítna mann sem var með alls kyns hugmyndir varðandi sameiningu hönnunar og tónlistar. Svo eignaðist ég hér marga vini og endaði á að flytja hingað fyrir akkúrat ári,“ segir Michael en hann stofnaði hér ráðgjafarþjónustuna Huldunótur.
Hanna ný sjónarhorn
„Ég vinn með fyrirtækjum hér og hjálpa þeim að nýta nýsköpunarhugmyndir mínar. Ég er nýbúinn að klára verkefni með Brauði & Co og hef einnig unnið með Blá lóninu,“ segir hann.
„Vinna mín fyrir fyrirtæki er nokkuð óvenjuleg og snýr kannski mest að ráðgjöf við stjórnun. Oft er vandamálið ekki alveg skýrt í byrjun. Oft vita stjórnendur fyrirtækja að eitthvað vantar en eru ekki alveg vissir um hvað. Þar kem ég inn og hjálpa fyrirtækjum að vaxa með því að komast til botns í því hvað er að eða hvað vantar til þess að ná betri árangri. Ég kom hingað til að hjálpa Íslendingum að opna á þá möguleika að nýta hönnun á þennan hátt,“ segir hann og tekur dæmi af vinnu sinni hjá Brauði & co.
„Til að hjálpa þeim að vaxa og dafna vildi ég skoða og skilja kúltúrinn og gildin á bak við hugmyndina að fyrirtækinu. Í þeirra tilviki eru kröfur gerðar um gott hráefni, sjálfstæði og að vinnustaðurinn styðji við fjölmenningu. Það þarf að finna leiðir til að halda í gömlu gildin en um leið þróast og vaxa. Þetta er hönnunarvandamál og ég tók viðtöl við alls konar starfsfólk til þess að geta svo búið til framtíðarplan. Ég er í raun að hanna eitthvað sem er ekki áþreifanlegt heldur ný sjónarhorn.“
Þú skoðar alla parta og púslar þeim svo aftur saman?
„Já, og það sama gerist í hugarheimi tónlistarmannsins.“
Lýsir sorg, reiði og gremju
Michael var að gefa út sína sjöttu breiðskífu, Yuks. Platan er unnin í samvinnu við Valgeir Sigurðsson tónlistarmann og tónskáld. Nýja platan fæst í plötuverslunum í miðbænum.
„Ég spila og syng á plötunni og kemur þá uppeldið sér vel þar sem foreldrar mínir sungu mikið,“ segir hann og hlær.
„Ég var í hljómsveit en byrjaði svo að einblína á sólóferil minn. Ég byrjaði að semja um ást og sambönd en fann fljótlega að ég hafði miklu meiri áhuga á hugmyndum. Ég samdi til dæmis heila plötu um hvernig það er að lifa lífinu sem njósnari. Hvernig er hægt að lifa öllu lífi sínu í blekkingarleik í þágu þjóðar sinnar, og um leið fórna sjálfum sér? Þetta fannst mér svo áhugaverð hugmynd,“ segir hann en aðrar plötur hans fjalla um rússneska ólígarka, byssuofbeldi og lyfjafyrirtækjaheiminn.
„Þessi plata er um tímana sem við lifum á núna. Titillinn Yuks vísar bæði í hlátur og eins eitthvað sem er ógeðfellt. Maður getur ákveðið hvort maður velur að hlæja að ástandinu eða fyllast viðbjóði,“ segir hann.
„Það sem við sjáum nú í Bandaríkjunum veldur vonbrigðum. Við gerum þær væntingar að stjórnendur landsins endurspegli vilja fólksins en klárlega er það ekki staðan í dag. Ég reyni að segja þessa sögu á persónulegan hátt en um leið þannig að aðrir skilji hana. Ég held að hlustandinn upplifi sömu tilfinningar og ég, en ég er ekki að bjóða neinar þægilegar lausnir heldur er platan frekar samfélagsspegill,“ segir Michael.
„Ég er að lýsa reiði, sorg og gremju, en á mjög skipulagðan hátt. Að skapa tónlist veitir mér útrás og stundum þurfum við fólk til þess að staðfesta okkar eigin hugmyndir,“ segir hann.
Ertu þá í raun pólitískur flóttamaður?
„Ég var í raun ekki að flýja Bandaríkin vegna ástandsins þar en er oft spurður að því. Ég er ekki þannig manneskja að ég flýi af hólmi heldur hleyp ég frekar í áttina að einhverju. Að koma til Íslands var þannig og listræni heimurinn hér hefur tekið ákaflega vel á móti mér. Ég er alveg hissa á því hvað ég hef eignast hér marga vini og nýt þess að vinna með frumkvöðlum.“
Reykjavík er alþjóðleg borg
Michael hefur marga bolta á lofti í einu því að þegar hann er ekki að vinna hjá Huldunótum, semja tónlist og gefa út plötur, er hann að taka viðtöl sem hlusta má á í hlaðvarpinu Two Beats Ahead Live.
„Ég tek viðtöl við þekkt íslenskt tónlistarfólk en líka aðra skapandi einstaklinga. Ég hef gert átta þætti og sá níundi er í bígerð,“ segir hann.
„Í hverjum þætti er sögð saga af listamanni frá frumkvöðlasjónarhorni. Ástríða þeirra til að skapa eitthvað nýtt fyrir heiminn er óstöðvandi,“ segir hann.
Michael segir fyrirtækið ganga ágætlega en að það mætti ganga betur.
„Ég er að bjóða eitthvað nýtt sem enginn kann í raun að biðja um. Ég hef náð árangri hjá fyrirtækjum sem vilja færa út kvíarnar og komast á markað erlendis. Um leið og fyrirtæki fara til annarra landa eykst samkeppnin gífurlega því hér á landi er samkeppnin satt að segja ekki svo mikil. Hér er hægt að komast upp með að vera í meðallagi, en ef fyrirtæki ætla á erlendan markað er það ekki nóg. Það eru frábær vörumerki hér sem geta náð árangri erlendis,“ segir hann og segist sífellt vera að stækka tengslanet sitt hér.
Michael á eiginkonu og þrjú stálpuð börn sem koma gjarnan í heimsókn til hans til Íslands.
„Planið er að eiginkona mín flytji hingað til mín en við erum að vinna í að selja fasteign okkar í Ameríku,“ segir hann.
„Ég elska að vera hér og hér er frábær menningarstarfsemi. Hér er svo fallegt og landið fyllir mig af innblæstri. Svo er hér ákveðinn hugsunarháttur sem ég kann að meta. Það er mikilvægt fyrir mig. Það er eitthvað við það hvernig Íslendingar horfa á heiminn sem ég tengi við.“
Eru Íslendingar skemmtilegir eða skrítnir?
„Þið eruð bæði skemmtileg og skrítin,“ segir Michael og brosir.
„Ég komst að því að Ísland er gamalt land en nútímasamfélagið og hagkerfið er í raun ungt og ég átti ekki von á því. Hér er samfélag fólks sem er mjög sjálfstætt og sem veigrar sér ekki við að leysa vandamál. Hér látið þið oft það nægja sem þið eigið og greiðasemi er mikil meðal fólks. Ef einhver þarf hjálp er rétt fram hjálparhönd,“ segir Michael og bætir við að flestir Íslendingar sem hann hafi kynnst hér á landi hafi búið erlendis á einhverjum tímapunkti. Einnig hefur hann kynnst öðrum útlendingum hér.
„Reykjavík er alþjóðleg borg og ég elska það við hana.“