Seyðisfjörður Fjarðarheiðargöng myndu gjörbreyta framtíðarhorfum bæjarins til hins betra.
Seyðisfjörður Fjarðarheiðargöng myndu gjörbreyta framtíðarhorfum bæjarins til hins betra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Flýtum jarðgangagerð með skuldabréfaútboði og borun um þrjá fjallgarða samtímis. Þetta þarf að gerast strax, svo brothættum byggðum blæði ekki út.

Gísli Sigurgeirsson

Mér er hlýtt til Austurlands og Austfirðinga, enda áttu þeir stóran hlut í að koma mér til manns, ef mann má kalla. En ég gerði mér snemma grein fyrir því, þegar ég var að gera fréttir og þætti um mannlíf eystra, að mestu óvinir Austfirðinga eru þær systur; Illgirni, Öfund og Rógbera. Þær hafa um árabil magnað upp mikið sundurlyndi meðal Austfirðinga. Þrátt fyrir sameiningar sveitarfélaga lifir enn í gömlu hreppapólitíkinni og reiptogi milli þeirra í efra og neðra. Fyrir vikið hefur ekkert verið gert í stórum aðkallandi samgönguverkefnum á Austurlandi. Þetta sundurlyndi er lán fyrir stjórnvöld, sem geta skýlt sér á bak við margátta vilja Austfirðinga. Það gefur stjórnvöldum tækifæri til að gera ekki neitt.

Nú virðist vera í gangi enn ein herferðin til að róta í jarðgangamálum á Austurlandi. Undirskriftalisti hefur verðið í gangi frá því í nóvember 2023 og þeir sem að þessum lista standa virðast hafa blásið til sóknar undanfarnar vikur. Þar er skorað á samgönguyfirvöld að Fjarðargöng; Seyðisfjörður-Mjóifjörður-Neskaupstaður, verði sett í forgang á samgönguáætlun. Þessu fagna eflaust stjórnarliðarnir. Enn eitt merkið um sundurlyndi Austfirðinga. Ekki veit ég hvað vakir fyrir þeim sem standa að þessari undirskriftasöfnun. Vonandi gera þeir sér grein fyrir hvaða afleiðingar þetta getur haft. Á undanförnum árum hefur verið unnið að hönnun jarðganga um Fjarðarheiði og í það hefur farið mikið fé. Ef niðurstaðan verður sú að slá Fjarðarheiði af borðinu tefjast framkvæmdir um mörg ár. Það gæti orðið banabiti Seyðisfjarðar. Frystihúsið, fjölmennasti vinnustaður bæjarins, er á hættusvæði og óvíst um uppbyggingu þess á öðrum stað. Þetta sundurlyndi er líka vatn á myllu þeirra sem stjórna færeyska skipafélaginu Smyril Line Cargo Ísland. Fyrirtækið hefur verið í mikilli sókn með siglingar frá Evrópuhöfnum til Þorlákshafnar og er með þrjú skip í þeim siglingum. Forstjóri þess, Óskar Sveinn Friðriksson, sagðist í viðtali við Morgunblaðið í vikunni „svartsýnn á að Seyðfirðingar fái nokkurn tímann jarðgöng“. Það hefur lengi verið vitað að stjórnendur félagsins sætta sig ekki við núverandi ástand í samgöngum við Seyðisfjörð. Ef ekkert gerist, ef verkin verða ekki látin tala í jarðgangagerð á næstunni, þá siglir ferjan ekki lengur á Seyðisfjörð.

Ég held að þeir sem standa að þessari undirskriftasöfnun ættu að beina kröftum sínum í þarfari verkefni. Þeir ættu að hvetja stjórnvöld til að hugsa stórt. Þingmenn kjördæmisins, þar með talinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ættu að berjast fyrir lagasetningu um gerð jarðganga um Austfirði á næstu árum, sem sérverkefni utan við samgönguáætlun. Það eru til peningar í landinu, t.d. hjá lífeyrissjóðum. Það mætti efna til útgáfu ríkisskuldabréfa, líkt og gert var þegar hringvegurinn náði endum saman á sínum tíma. Síðan má byrja að bora og bora, sprengja og sprengja, fyrir þrennum göngum samhliða. Þannig mætti ljúka jarðgangagerð frá Egilsstöðum um Seyðisfjörð og Mjóafjörð, allt til Norðfjarðar, á um það bil áratug. Þá gætu brothættar byggðir blómstrað. Seyðisfjörður fengi heitt vatn frá Urriðavatni til húshitunar. Fúsi vinur minn og Jóhanna hans í Mjóafirði gætu sprangað milli fjarða og Héraðs alla daga ársins. Reyndar koma þau aldrei til með að hafa tíma til þess, því það verður ekki flóafriður fyrir gestum í Mjóafirði. Þá kæmi örugglega ungt fólk til fjarðarins, sem gæti skapað grundvöll fyrir skólahaldi í Mjóafirði á ný.

Það hafa verið stórvirk tæki til jarðgangagerðar á Austurlandi á undanförnum áratugum. Fyrst við gangagerð við Kárahnjúka og síðan við jarðgöng frá Reyðarfirði yfir í Fáskrúðsfjörð og síðan þegar gerð voru göng frá Eskifirði yfir í Norðfjörð. Það voru mistök að sleppa þeim tækjum úr landi. Það átti að kyrrsetja vélarnar, borana og dínamítið þar til búið væri að jarðgangavæða Austfirði. Verkinu væri þá lokið. Færeyingar eru langt á undan okkur í þessum efnum. Þeir hlæja að okkar aðgerðaleysi og sundurlyndi.

Ég skora á vini mína eystra að henda gömlu hreppapólitíkinni fyrir róða. Slíðrið sverðin og þrýstið sem ein fylking á stjórnvöld um framkvæmdir – strax í vor. Sameinið svo Austurland í eitt sveitarfélag. Ég held að það væri þó rétt að Fljótsdalshreppur fengi að halda sínu sjálfstæði, svona eins og sýnishorn af vel stæðum hreppi í fallegri sveit.

Höfundur er kvikmyndagerðarmaður.

Höf.: Gísli Sigurgeirsson