Sala á alþjóðlegum listamarkaði dróst saman um 12% árið 2024, samkvæmt Art Basel og UBS Global Art Market-skýrslunni sem birt var fyrr í vikunni. Í ársskýrslunni, sem talin er ein áreiðanlegasta vísbendingin um stærð og heilbrigði listamarkaðarins, kemur fram að sala hafi dregist saman annað árið í röð. New York Times greinir frá og segir að í skýrslunni komi fram að pólitísk spenna, efnahagslegar sveiflur og sundrung í viðskiptum hafi dregið markaðinn niður. Uppboðssala á stökum verkum sem skilaði meira en 10 milljónum dollara, eða sem nemur tæpum 1,4 milljörðum íslenskra króna, dróst saman um 39% og gallerí með yfir 10 milljóna dollara veltu lækkuðu um 9%. Í skýrslunni kemur einnig fram að heildarverðmæti listaverkasölu á heimsvísu árið 2024 hafi verið metið á 57,5 milljarða dollara, tæpa 8.000 milljarða íslenskra króna, byggt á opinberum gögnum úr könnunum og frá uppboðshúsum um 1.600 söluaðila.