Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka. — Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri og Erna Björg Sverrisdóttir aðalhagfræðingur Arion banka.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segist hafa áhyggjur af þeirri skattavegferð sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir virðist vera á. Bendir hún á að það séu ekki aðeins sjávarútvegur og ferðaþjónusta sem eru í skotlínu skattheimtumanna heldur einnig almenningur

Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs segist hafa áhyggjur af þeirri skattavegferð sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttir virðist vera á. Bendir hún á að það séu ekki aðeins sjávarútvegur og ferðaþjónusta sem eru í skotlínu skattheimtumanna heldur einnig almenningur. Það birtist í ákvörðunum um að taka af samsköttun hjóna. Fleira kemur þar einnig til:

„Það er með ólíkindum hvernig ríkisstjórnin er að setja skattahækkanir í einhvern búning eins og þetta séu ekki skattahækkanir […] Heimilin láta ekki plata sig svona. Við sjáum það bara. Þetta frumvarp á að skila 2,4 milljörðum, veiðigjöldin 10 milljörðum, ég veit ekki hverju matseðillinn á að skila. Þetta eru allt auðvitað skattahækkanir og til viðbótar við þetta er verið að hóta sveitarfélögum í þessu jöfnunarsjóðsfrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Skilaboðin eru þau að þau sveitarfélög sem eru vel rekin og ekki með útsvarið í botni muni ekki fá eins mikil framlög úr jöfnunarsjóði,“ segir Ásdís.

Bendir hún á að Kópavogsbær greiði nú þegar 1,5 milljörðum meira í jöfnunarsjóðinn en bærinn fær úr honum og að enn eigi að auka á misgengið í þeim efnum.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir athyglisvert að fylgjast með fyrirætlunum yfirvalda, ekki síst þegar horft er til þeirrar óvissu sem er á mörkuðum um allan heim.

„Maður verður að staldra aðeins við þessa tímasetningu þegar það á að fara í einhverjar gjaldskrárhækkanir á útflutningsgreinarnar hjá okkur miðað við stöðuna í kerfinu og á alþjóðavísu.“

Bendir hún einnig á að umræðan um atvinnuvegina sé gjarnan skökk. Þannig sé oft gert mikið úr þeim hagnaði sem sjávarútvegurinn skili. Þá sé jafnan skautað fram hjá því hversu miklir fjármunir eru bundnir í greininni og hversu umfangsmiklar fjárfestingar hennar þurfa að vera til þess að tryggja aukna verðmætasköpun til framtíðar.

Nokkuð bjartsýnar

Ásdís og Erna Björg eru báðar hagfræðingar og því berst talið einnig að efnahagshorfum hér á landi. Erfitt getur reynst að rýna í stöðuna sem stendur en þær segja báðar ástæðu til þess að hrósa Seðlabanka Íslands fyrir sín störf í þágu kerfisins.

Ásdís fagnar sérstaklega þeim aðgerðum bankans sem miða að því að styrkja gjaldeyrisvaraforða bankans og að unnið sé nú gegn frekari styrkingu krónunnar. Mikilvægt sé að útflutningsgreinarnar búi við samkeppnishæfa stöðu og að of hátt gengi krónu vinni ekki gegn þeim.

Erna segist vona að hagvöxtur verði á árinu en margar breytur geti haft áhrif á það hvernig árið komi út.