Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Reykjavíkurborg hefur óskað eftir að útskýra svar samskiptastjóra borgarinnar, til Morgunblaðsins, um að engin áformuð uppbygging væri fram undan núna við tjörnina í miðju Seljahverfis. Til stendur að vinna deiliskipulag af reitnum þar sem fram kemur umfang bygginga, staðsetning og fjöldi íbúða.
Í svari Reykjavíkurborgar um fyrirhugaða uppbyggingu við tjörnina við Rangársel í Seljahverfi segir eftirfarandi:
„Þessi reitur er hluti hugmynda í Hverfisskipulagi, sem er frumstig hugmyndaöflunar fyrir framtíðaruppbyggingu. Eins og staðan er núna er engin áformuð uppbygging á þessum reit.“
Ekki nákvæmt orðalag
Björn Axelsson skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar segir að það sé ekki alveg nákvæmt að orða það þannig.
„Þetta er mögulegur uppbyggingarreitur í hverfisskipulagi Reykjavíkur sem var unnið fyrir Breiðholtshverfið allt saman fyrir nokkrum árum. Rangárselið er reitur sem við eigum eftir að skoða. Endanlegur íbúðafjöldi, byggingarmagn, fyrirkomulag, hæðir húsa og umfang þarf að ráðast í sérstöku deiliskipulagi. Þegar það liggur fyrir verður það sent í formlegt kynningar- og auglýsingarferli þar sem íbúum gefst kostur á að koma með athugasemdir og ábendingar.“
Spurður hvort reitir sem sýndir eru í kortasjánni séu ekki áform um uppbyggingu, segir Björn að þetta séu þróunarreitir.
„Þetta eru áform um einhvers konar uppbyggingu en endanlegt umfang slíkrar uppbyggingar er ákveðið í deiliskipulagi.“
Er það ekki rétt skilið að áformuð uppbygging verði til á undan deiliskipulagi?
„Það er vissuleg rétt að tala um áformaða uppbyggingu þegar ákveðið er að fara í einhvers konar þróun á svæðinu, en endanlegur fjöldi íbúða er ekki endanlega ákveðinn fyrr en það liggur fyrir deiliskipulag sem fer í lögformlegt auglýsingar- og kynningarferli, þar sem tekið verður tillit til athugasemda og ábendinga í því ferli.“
Hvernig á að skilja að engin áformuð uppbygging verði á þessum reit núna?
„Við erum ekki búin að tímasetja neina áætlun og erum að skoða önnur svæði í Breiðholtinu á undan þessu og ég nefni Suðurhólana sem dæmi og svo Suðurfellið þar á eftir,“ og þar vísar Björn til lóðar við framkvæmdasvæðið við Arnarnesveg.
En hvernig á að skilja hvað áformuð uppbygging er?
„Við getum kannski verið sammála um það að áform um uppbyggingu eru áform um að rýna svæðið til mögulegrar uppbyggingar án þess að búið sé að ákveða endanlegt umfang fyrr en það kemur fram í deiliskipulagi.“
Jákvæð viðbrögð og efasemdir
Hverju mega íbúar búast við? Verður það auglýsing á deiliskipulagi?
„Það næsta sem íbúar mega búast við er að fá kynningu á tillögu á forstigi deiliskipulags. Íbúar munu fá tækifæri til að segja sína skoðun á þessum áformum áður en lengra verður haldið og þær raddir fá að heyrast inni í nefndum og ráðum borgarinnar.“
Þið fenguð viðbrögð íbúa við gerð hverfisskipulagsins. Hver voru þau?
„Það voru bæði jákvæð viðbrögð og aðrir höfðu efasemdir um þetta.“
Urðu einhverjar athugasemdir sem komu fram við kynningu á hverfisskipulaginu til þess að þið lögðuð hugmyndir til hliðar?
„Já, það eru dæmi þess og ég nefni hugmyndir um að byggja meðfram Bústaðavegi sem var mótmælt og það var fallið frá þeim hugmyndum. Þær voru kynntar á undirbúningsstigi hverfisskipulags og það hefur verið fallið frá þeim hugmyndum,“ segir Björn Axelsson.
Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður skipulagsráðs gaf ekki kost á viðtali og vísaði á skipulagsfulltrúa.