Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í gær að tollastefna sín væri að standa sig vel, þrátt fyrir þær miklu vendingar sem sést hafa á hlutabréfamörkuðum heimsins síðustu daga. „Þetta er mjög spennandi fyrir Bandaríkin og heimsbyggðina!!!“ skrifaði Trump á samfélagsmiðil sinn, Truth Social, í gær.
Ummæli Trumps féllu í kjölfar þess að bandaríkjadalur féll nokkuð í viðskiptum gærdagsins. Þannið féll gengi hans gagnvart evru um 2% í viðskiptum gærdagsins áður en það rétti úr kútnum. Hefur dalurinn ekki mælst lægri gagnvart evrunni í þrjú ár. Þannig hefur evran styrkst um nærri 10% gagnvart bandaríkjadal frá því að Trump tók við embætti í janúar.
Ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa (e. bond yield) hélt áfram að hækka í gær, en ávöxtunarkrafan til tíu ára hækkaði í gær upp í 4,58%, eftir að hafa verið undir 4% fyrir helgina. Þykir þetta óvenjuleg þróun á skuldabréfamarkaði, ekki síst þar sem fjárfestar hafa oftar en ekki leitað í bandarísk ríkisskuldabréf þegar órólegt er á hlutabréfamörkuðum.
George Saravelos, yfirmaður rannsókna gjaldeyrisviðskipta hjá Deutsche Bank, sagði í minnisblaði til viðskiptavina bankans í gær að þessa þróun mætti skilja í því ljósi að tollastríðið hefði valdið skaða á því trausti sem fjárfestar hefðu áður borið til Bandaríkjanna.
Larry Fink, framkvæmdastjóri fjárfestingasjóðsins BlackRock, varaði við því í gær að samdráttarskeið væri mögulega í kortunum. „Ég held að við séum mjög nálægt því, ef ekki þegar komin, í samdráttarskeið núna,“ sagði Fink í viðtali við CNBC-sjónvarpsstöðina.
Kínversk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau myndu hækka tolla sína á bandarískar vörur upp í 125%. Xi Jinping Kínaforseti ræddi við Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar í gærmorgun, og sagði við hann að Kína og Evrópusambandið ættu að taka höndum saman gegn „einhliða einelti“ Bandaríkjastjórnar. Þannig gætu bæði Kína og ESB varið hagsmuni sína gegn Bandaríkjunum, og einnig staðið vörð um „alþjóðlega sanngirni og réttlæti“.