Sólveig Baldursdóttir var valin til að vinna með börnum fyrir sýningu í Listasafninu á Akureyri.
Sólveig Baldursdóttir var valin til að vinna með börnum fyrir sýningu í Listasafninu á Akureyri. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta var óskaplega gaman, þau voru mjög áhugasöm og gerðu flott verk og sýningin er afar skemmtilega upp sett.

Sýningin Sköpun bernskunnar stendur yfir í Listasafninu á Akureyri. Þetta er í tólfta sinn sem sýning undir þessu heiti er sett upp í safninu. Markmið sýningarinnar er að efla safnfræðslu og gera sýnilegt og örva skapandi starf barna á aldrinum fimm til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru skólabörn og starfandi myndlistarmenn ásamt Minjasafninu á Akureyri / Leikfangahúsinu. Í ár var myndhöggvaranum Sólveigu Baldursdóttur boðin þátttaka í verkefninu.

Einkasýning Sólveigar, Augnablik – til baka, var opnuð í Listasafninu í nóvember 2024, en nú hefur henni verið umbreytt í nýja: Sköpun bernskunnar 2025. Þar má sjá skúlptúra Sólveigar í nýju samhengi og í samtali við verk barnanna.

Spjall og sköpun

Skólarnir sem taka þátt að þessu sinni eru leikskólinn Hólmasól og grunnskólarnir Giljaskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Í vetur komu skólabörnin ásamt kennara í Listasafnið og unnu verk fyrir sýninguna undir handleiðslu listamannsins. Þar fengu þau tækifæri til að kynnast Sólveigu og nota skúlptúra hennar sem innblástur í eigin sköpun.

„Ég vann með börnunum á vinnustofu, sem við settum upp í sýningarsalnum innan um skúlptúrana, þar sem þau völdu verk eftir mig og gerðu sína útgáfu,“ segir Sólveig. „Ég gekk um salinn með nemendum og sagði þeim frá verkunum og efnunum sem þau eru gerð úr. Svo völdu þau verk sem þau unnu eftir. Við unnum með leir og vatnsliti og þau gerðu litla skúlptúra og vatnslitamyndir. Við spjölluðum heilmikið meðan við vorum að skapa. Þetta var óskaplega gaman, þau voru mjög áhugasöm og gerðu flott verk og sýningin er afar skemmtilega upp sett.“

Nýtir hugleiðslu

Sólveig nam myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1980-1982 og við skúlptúrdeild Det Fynske Kunstakademi í Danmörku, þaðan sem hún útskrifaðist 1987. Hún flutti til Carrara á Ítalíu 1990 og vann þar að list sinni við Studio Niccoli næstu fjögur árin. Sólveig rak vinnustofu á Akureyri 1995-2001 og í Hafnarfirði 2001-2008 og vann að ýmsum útilistaverkum sem og sýningum hér heima og erlendis.

„Ég hef alltaf verið hrifin af skúlptúr,“ segir hún. „Þegar ég var krakki gaf mamma gaf mér leir, harðgerðan marglitan leir sem þurfti að hnoða mikið. Ég byrjaði að vinna með leirinn kringum fimm ára aldur, og heillaðist gjörsamlega af efninu.“

Hún segir það kosta líkamlegt erfiði að vera myndhöggvari. „Svo þarf hugrekki til að vinna í grjótið. Ég er manneskja sem þarf áskoranir til að finna styrkinn innra með mér. Ef hlutirnir eru of auðveldir fer mér að leiðast.“

Sólveig, sem er nýflutt til Akureyrar, stefnir á að fara til Ítalíu á næsta ári og vinna þar í nokkra mánuði.

Verk hennar eru bæði fígúratív og abstrakt. Útilistaverk eftir hana eru víða, til dæmis á Akureyri, fyrir utan bókasafnið í Hafnarfirði, á Árskógsströnd og í Belgíu.

„Stóru útilistaverkin sem ég hef gert eru yfirleitt pöntuð og þá skoða ég aðstæður til að verkið vinni með umhverfinu. Ég nota líka hugleiðslu til að láta hugmyndirnar koma til mín. Ég byrjaði að nota hugleiðslu í kringum 1980 þegar ég bjó í Danmörku. Ég nota hugleiðsluna til að tengja mig alheimshugmyndabankanum og sendi skilaboð um að ég þurfi að fá hugmyndir sem ég geti notað fyrir þetta ákveðna verkefni. Svo líða nokkrir dagar og það bregst ekki að það kemur hugmynd og þá yfirleitt að fullkláruðu verki,“ segir hún.