Sigurmark Virgil van Dijk fagnar sigurmarkinu á Anfield í gær.
Sigurmark Virgil van Dijk fagnar sigurmarkinu á Anfield í gær. — AFP/Paul Ellis
Liverpool er með Englandsmeistaratitilinn vísan eftir dramatískan heimasigur á West Ham í gær, 2:1. Liverpool er með 13 stiga forskot á Arsenal þegar aðeins 18 stig eru eftir í pottinum. Luis Díaz kom Liverpool yfir á 18

Liverpool er með Englandsmeistaratitilinn vísan eftir dramatískan heimasigur á West Ham í gær, 2:1. Liverpool er með 13 stiga forskot á Arsenal þegar aðeins 18 stig eru eftir í pottinum.

Luis Díaz kom Liverpool yfir á 18. mínútu en West Ham jafnaði þegar Andy Robertson skoraði sjálfsmark á 86. mínútu eftir misskilning á milli hans og Virgils van Dijks. Hollendingurinn svaraði fyrir það, því hann skoraði sigurmark Liverpool þremur mínútum síðar.

Liverpool nýtti sér að Arsenal fékk aðeins eitt stig er liðið gerði jafntefli við Brentford á heimavelli, 1:1. Thomas Partey kom Arsenal yfir á 61. mínútu en Yoane Wissa jafnaði á 74. mínútu og þar við sat.

Staðan um sæti í Meistaradeildinni er afar hörð. Nottingham Forest er í þriðja sæti með 57 stig eftir tap fyrir Everton, 1:0. Newcastle er í fjórða sæti með 56 stig, Manchester City er aðeins einu stigi á eftir, þar sem liðið vann heimasigur á Crystal Palace, 5:3, í fjörugum leik. Þá er Chelsea í sjötta sæti með 54 stig og aðeins fyrir ofan Aston Villa á markatölu.

Chelsea gerði aðeins jafntefli við Ipswich á heimavelli, 2:2. Aston Villa vann útisigur á botnliði Southampton, 3:0. Öll mörkin komu á síðustu 20 mínútunum.

Þá fór Newcastle illa með Manchester United á heimavelli, 4:1. Ashley Barnes skoraði tvö mörk fyrir Newcastle og þeir Bruno Guimaraes og Sandro Tonali skoruðu einnig. Alejandro Garnacho skoraði mark United, sem er í 14. sæti með 38 stig.