Íslenskir landsliðsmenn létu að sér kveða í ítölsku A-deildinni í fótbolta á laugardag. Mikael Egill Ellertsson lagði upp sigurmark Venezia er liðið sigraði Monza, 1:0, á heimavelli í fallslag. Hann lék allan leikinn en Bjarki Steinn Bjarkason var allan tímann á bekknum.
Lecce er tveimur stigum fyrir ofan Venezia í síðasta örugga sætinu en liðið tapaði fyrir Juventus á laugardag, 2:1, á útivelli. Þórir Jóhann Helgason kom inn á sem varamaður á 77. mínútu hjá Lecce og lagði upp mark liðsins tíu mínútum síðar.
Noregsmeistarar Vålerenga höfðu betur gegn Lyn, 3:2, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á heimavelli Vålerenga á laugardag. Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir lék allan leikinn og lagði upp annað mark Vålerenga.
Landsliðsmaðurinn Haukur Þrastarson og liðsfélagar hans í Dinamo Búkarest eru rúmenskir bikarmeistarar eftir öruggan sigur á Potaissa Turda í úrslitaleiknum á laugardag, 39:27. Haukur skoraði fimm í liði Dinamo sem er bikarmeistari annað árið í röð.
Norður-Írinn Rory McIlroy varð í gærkvöldi sjötti maðurinn til að vinna öll fjögur risamótin í golfi er hann sigraði á Mastersmótinu eftir æsispennandi bráðabana við Justin Rose. Lék McIlroy 18. holuna í bráðabananum á þremur höggum, gegn fjórum hjá Rose. Jack Nicklaus, Gene Sarazen, Ben Hogan, Gary Player og Tiger Woods voru þeir einu sem höfðu sigrað á öllum fjóru risamótunum fyrir gærkvöldið og komst McIlroy í afar góðan hóp.
Jason Daði Svanþórsson skoraði annað mark Grimsby er liðið gerði jafntefli við Harrogate á útivelli í ensku D-deildinni á laugardag. Urðu lokatölur 2:2. Jason fór af velli á lokamínútunni.
KA er komið í 1:0 í einvígi sínu við Völsung um Íslandsmeistaratitil kvenna í blaki eftir sigur, 3:0, á Akureyri. Þrjá sigra þarf til að verða meistari. KA vann fyrstu hrinuna 25:21, aðra 25:14 og þriðju 25:17.
KA byrjar einnig val í karlaflokki því Akureyrarliðið sigraði Þrótt úr Reykjavík á heimavelli í fyrsta leik, 3:0. KA vann hrinurnar 25:17, 27:19 og 25:17.
Íslendingar voru áberandi í markaskorun í norska bikarnum um helgina. Hinrik Harðarson skoraði annað mark Odd er liðið mátti þola óvænt tap fyrir Flint, 3:2. Hilmir Rafn Mikaelsson skoraði tvö mörk fyrir Viking sem sigraði Hana, 6:0. Ísak Snær Þorvaldsson gerði eitt mark fyrir Rosenborg sem valtaði yfir Rindal, 11:1. Loks skoraði Sveinn Aron Guðjohnsen fyrir Sarpsborg er liðið sigraði Sprint/Jelöy, 4:0.
Kristian Nökkvi Hlynsson og Nökkvi Þeyr Þórisson létu að sér kveða í sigri Sparta Rotterdam á Heerenvenn, 3:1, í efstu deild hollenska fótboltans í Rotterdam á laugardag. Kristian lék allan leikinn og lagði upp mark. Nökkvi Þeyr kom þá inn á 82. mínútu og skoraði.
Kolbrún María Garðarsdóttir skoraði sigurmark Íslands í 1:0-sigri á Taívan í lokaleik liðanna í A-riðli 2. deildar HM í íshokkíi í gær. Ísland endar í 3. sæti með 11 stig.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Melsungen með fimm mörk er liðið mátti þola tap fyrir Kiel, 28:23, í úrslitum þýska bikarsins í handbolta í gær. Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar hans hjá Wisla Plock máttu einnig þola tap í bikarúrslitum í Póllandi, 27:24, gegn Kielce.
Janus Daði Smárason og samherjar hans hjá Pick Szeged eru ungverskir bikarmeistarar eftir sigur á Veszprém í miklum spennuleik, 31:30. Janus skoraði tvö mörk. Bjarki Már Elísson fór á kostum hjá Vezsprém og skoraði 11 mörk í 12 skotum. Aron Pálmarsson komst ekki á blað hjá Veszprém.