Stefanía Rannveig Stefánsdóttir fæddist 2. júlí 1932. Hún lést 29. mars 2025..

Útför hennar fór fram 11. apríl 2025.

Stefanía R. Stefánsdóttir, tengdamóðir mín, andaðist þann 29. mars sl. á 93. aldursári. Ég kom inn í fjölskyldu hennar upp úr 1980 og fljótlega fann hún það út að ættir okkar koma saman í Heimsljósi Laxness. Hún unni íslenskum bókmenntum og las mikið, nánast fram í andlátið. Síðustu mánuði fór henni líkamlega aftur og minnkaði geta hennar til lesturs samhliða skertri hreyfigetu en minnið var í lagi alveg fram á síðustu stundu.

Hin síðari ár fórum við gjarnan á æskuslóðirnar í Sandgerði ásamt systur hennar. Rakti hún þá minningar sínar en foreldrar hennar, Þórunn Anna Lýðsdóttir, skólastjóri og handavinnukennari, og Stefán Jóhannsson, vélstjóri, bjuggu þar lengst af. Oft var ekið sérstaklega á staði sem komu upp í huga hennar þegar hún rifjaði upp ákveðnar minningar. Ung að árum var hún kokkur á vélbáti sem var óvanalegt og verður að teljast nokkuð athyglisvert. Síðan fer hún í héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði, þá Menntaskólann á Akureyri þar sem hún útskrifaðist svo með stúdentspróf úr stærðfræðideild. Stuttu eftir það er hún komin til náms í lífeindafræði við háskólann í Münster í Vestur-Þýskalandi.

Í náminu kynntist hún föður konu minnar, Erhard Böer. Verandi útlendingur hafði hann litla sem enga möguleika á atvinnu við hæfi hérlendis, þótt hann hefði doktorsgráðu í hagfræði. Stefanía vildi hins vegar búa hér og því slitnaði upp úr sambandi þeirra. Eftir fæðingu konu minnar starfaði hún stutt í Sandgerði en flutti sig á rannsóknarstofu Landspítalans þar sem hún starfaði sem lífeindafræðingur uns hún lét af störfum. Um tíma tókum við að okkur ungan dreng, Kolbein, sem hún tók ástfóstri við og er hann partur af fjölskyldunni og lítur á Stefaníu sem ömmu sína. Og þegar dóttir okkar fæddist annaðist hún hana áður en hún fékk leikskólapláss og hálfan daginn eftir það. Á þessum tíma og síðar ferðaðist hún einnig víða með vinum og skyldmennum og síðast til Danmerkur vorið 2019.

Eins og framan er rakið var líf hennar áhugavert og árangur hennar athyglisverður. Einna mest þykir mér koma til þess hversu traust hún var. Hún hafði ákveðnar skoðanir en var ekki að flíka þeim sérstaklega. Var boðin og búin til að aðstoða þá sem þess þurftu. Hún var einnig mjög menningarlega sinnuð, bókhneigð með mikinn áhuga á listum almennt. Og hún var stolt af dóttur sinni og dótturdóttur, dáði og studdi þær eins best og hún gat.

Stefanía flutti á Droplaugarstaði í september síðastliðnum þegar hún þurfti aukna aðstoð og fannst líf sitt vera orðið gott. En áhugi hennar á menningarlífi, bókmenntum og listum hélst óbreyttur. Hennar er minnst og sárt saknað.

Finnur Torfi
Magnússon.

Enn eitt skarð er höggvið í stúdentahópinn sem útskrifaðist á blíðum sumardegi 17. júní 1953. Þar í hópi var Stefanía, eða Stella, eins og hún var alltaf kölluð.

Hún hafði innritast í stærðfræðideild ásamt annarri stúlku, Ásdísi, þegar velja átti um deildir og þótti okkur hinum það mikið hugrekki. Stærðfræðideildin átti að vera svo miklu erfiðari en máladeildin og hugsunin var í þá daga að þetta nám hentaði betur strákum en stelpum. Sú hugsun hefur breyst verulega.

Allmörg árin hittist árgangurinn árlega og skemmti sér saman. Einnig hittist kvennaljóminn úr árganginum saman einu sinni í mánuði seinni árin og áttum skemmtilega og góða stund saman yfir mat og drykk. Þarna var Stella ætíð mætt og skemmtileg að vanda. Við kveðjum Stellu með hlýjum minningum, söknum góðrar konu og vottum fjölskyldu hennar samúð okkar.

F.h. samstúdenta 1953,

Þórey Kemp
Guðmundsdóttir.