Eyþór Unnarsson fæddist í Reykjavík 30. júní 1964. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 30. mars 2025.
Foreldrar hans eru Jack Unnar Dauley, f. 1943, og Þórdís Þorbergsdóttir, f. 1945. Þau bjuggu lengst af í Hafnarfirði, í Heiðvangi 50, þar sem Eyþór ólst upp að mestu. Síðar fluttu þau að Lækjarbergi 48 og flutti Eyþór þangað með þeim.
Systur Eyþórs eru: 1) Helena, f. 1962, maki Lárus Karl Ingason, börn þeirra eru: Ellen, Ingi, Dagur og Björk. 2) Una Björk, f. 1972, maki Tómas Jónsson, börn þeirra eru: Glódís Brá, Unnur Ösp, Arnar Freyr og Ragnhildur Una.
Útför Eyþórs fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 14. apríl 2025, klukkan 13.
Í dag kveð ég elsku Eyþór bróður, sem er fallinn frá eftir langvinna baráttu við krabbamein. Töluverður aldursmunur var á okkur systkinum sem varð kannski til þess að við áttum ekki svo mikla samleið á okkar yngri árum en það breyttist samt hin síðari ár. Eyþór bróðir var töluvert uppátækjasamur á árum áður og afskaplega stríðinn. Stríðnin varð til þess að táknið sem hann fékk fyrir nafnið sitt á táknmáli var að styðja fingri á hnakka því hann potaði iðulega í hnakkann á fólki og lét alla halda að einhver annar hefði gert það. Eyþór tilheyrði afskaplega stóru samfélagi af heyrnarlausum sem hafa staðið þétt við bakið á honum í hans veikindum. Ótrúlega fallegt samfélag sem mætti segja að væri hans önnur fjölskylda.
Stolt er það orð sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um Eyþór. Ég er svo stolt af því hvernig hann tók veikindum sínum af æðruleysi með bros á vör, kvartaði aldrei og spurði ávallt hvernig allir aðrir hefðu það. Stolt yfir samfélaginu sem hann tilheyrði. Ég sjálf sem barn hafði mikinn áhuga á að læra hans tungumál og tók seinna einn táknmálsáfanga í kennaraháskólanum, sem gerði það að verkum að við gátum vel spjallað saman og ég held að hann hafi verið nokkuð stoltur af mér fyrir það.
Ég mun stolt heiðra minningu hans með því að halda á lofti táknmálinu og bæta við mig þekkingu á því.
Elsku Eyþór, ég kveð þig með söknuði en ég veit að nú ertu kominn á góðan stað. Minning þín lifir í hjörtum okkar.
Þín systir
Una Björk.
Í dag kveðjum við Eyþór okkar sem lést á líknardeild LSH þann 30. mars sl. Eyþór var mikill fjörkálfur, jafnvel prakkari, á sínum yngri árum. Ég var stóra systirin og fannst hann ekki alltaf sá skemmtilegasti. Sagan segir að þegar við vorum ca. 3 og 5 ára gömul höfum við fjölskyldan verið í ferðalagi úti á landi þegar pabbi varð var við að farangur á toppgrind bílsins hafði losnað. Hann stöðvaði bílinn og fór út. Eyþór litli fjörkálfurinn fór út á eftir pabba, en á þessum tíma tíðkaðist ekki að börn væru í bílbeltum, hvað þá bílstólum. Pabbi varð hans ekki var og fór aftur inn í bílinn og lagði af stað. Ég stóra systir sagði ekki orð, eflaust fegin að vera laus við hann í smá tíma. Eftir stuttan spöl verður pabba litið í baksýnisspegilinn og sér þá litla pjakkinn hlaupa á eftir bílnum móðan og másandi. Ég skammast mín enn í dag þótt einnig megi sjá spaugilegu hliðina.
Eyþór fæddist heyrnarlaus og gekk í Heyrnarleysingjaskólann þar sem hann eignaðist vini fyrir lífstíð. Einstakt var að finna fyrir velvilja þessara vina eftir að hann veiktist.
Hann vann ýmis verkamannastörf og fór m.a. á sjóinn, tók lyftarapróf og vann hjá Eimskip. Hann var virkur félagslega og sótti mikið félagsstarf hjá Félagi heyrnarlausra. Hann ferðaðist með félaginu til útlanda á samkomur döff-félaga, m.a. til Norðurlanda, Englands og Ástralíu. Þá fór hann í ferðir til sólarlanda með vinum sínum. Hann ferðaðist einnig mikið með fjölskyldunni og heimsótti afa okkar til Bandaríkjanna, fór í fótboltaferð með pabba, mági og frænda. Eftirminnilegasta ferðin er þó eflaust sú sem hann fór með stórfjölskyldunni í nóvember 2022, nokkrum mánuðum eftir að hann veiktist, en þá héldum við fjölskyldan til Barein til að halda upp á stórafmæli mitt. Eyþór naut sín vel í þessari ferð með okkur, fannst gaman að upplifa ólíka menningu og líka algjöran lúxus.
Eyþór var mjög staðfastur maður, hann tók þá ákvörðun eftir þrítugt að hætta að drekka. Síðar ákvað hann að hætta að reykja. Þegar hann veiktist fyrst var honum ráðlagt að vera duglegur að hreyfa sig og mæla blóðþrýstinginn reglulega. Þetta gerði hann mjög samviskusamlega.
Eyþóri þótti vænt um fjölskyldu sína og hafði gaman af að taka þátt í ýmsum viðburðum á okkar vegum og mætti alltaf fyrstur. Við gátum því alltaf gert ráð fyrir Eyþóri ca. 30 mínútum fyrir boðið þótt við værum ekki alltaf tilbúin, kannski að koma úr sturtu. Hann var hvers manns hugljúfi og alveg fram á síðasta dag var hann alltaf svo jákvæður og kvartaði aldrei. Hann sagðist ætla að vera sterkur og það var hann. Þegar hann var spurður hvernig honum liði var svarið alltaf „mjög vel“, meira að segja síðasta daginn hans svaraði hann okkur systrum að sér liði mjög vel og væri ekkert hræddur. En nú er hann búinn að kveðja og skilur eftir sig góðar en ljúfsárar minningar hjá okkur sem eftir lifum. Missir okkar er mikill en sérstaklega mömmu og pabba sem önnuðust Eyþór einstaklega vel alla hans tíð og voru þau mjög náin.
Elsku Eyþór, hvíl í friði.
Helena.
Við kveðjum Eyþór Unnarsson, þökkum honum samfylgdina og minnumst hans sem einstaks drengs, hann var góður vinur og oftast sá sem lét sér vandamál heimsins í léttu rúmi liggja. Þegar hann var yngri þá vildi hann láta reyna á sig, var tilbúinn í smá ævintýramennsku og fór t.d. í vinnu úti á sjó um tíma, skrapp líka til Ameríku að heimsækja afa sinn, fór á Atlavík '84-hátíðina með vinum sínum og skemmti sér stórkostlega. Ferðin til Ástralíu á heimsþing heyrnarlausra og að hitta fullt af döff fólki stendur enn upp úr mörgu í safni minninganna.
Eyþór er einn af hópnum sem fæddist heyrnarlaus í kjölfar rauðuhundafaraldurs sem gekk yfir landið 1964, '64 Döff. Margs er að minnast í hópnum og ávallt þegar hópurinn kemur saman eru rifjuð upp einstök skemmtileg atvik en líka oft minnst á það sem hópurinn varð af; grunnskólamenntun sinni og upplifði því miður hluti sem eru ekki til þess að vekja góðar minningar. Öll erum við einstök og Eyþór þar á meðal líka. Hann lét taka eftir sér ef honum líkaði ekki eitthvað eða átti erfitt með koma frá sér hvað hann vildi, sérstaklega þegar þeir sem hann var að tala við kunnu ekki táknmál og var sagður óþekkur sem á ekki að vera sagt. Í dag vitum við að öll okkar líðan á þessum tíma átti fullkomlega rétt á sér.
Síðustu daga, vikur og mánuði hittum við Eyþór oft og áttum góðar stundir með honum, veikindin reyndu á en alltaf þegar hann var spurður um líðan sína þá brosti hann og gaf hann okkur þumalinn upp, eins og það væri allt í lagi með hann. Hann tók veikindum sínum með sinni þolinmæði, vissi nokkurn veginn innst inni hvert stefndi en vildi ekki láta það trufla sig. Hann til að mynda lét eftir sér og vildi fara í Mörkina að hitta döff vini sína til að eiga með þeim sína stund, síðasta stundin með döffhópnum í Mörkinni var aðeins fjórum dögum áður en hann dó. Nú er Eyþórs saknað í hópnum.
Fjölskyldu Eyþórs; mömmu hans og pabba, systrum og fjölskyldum þeirra sendum við innilegustu samúðarkveðjur.
Far í friði kæri vinur.
Baldvin Björnsson,
Magnús Sverrisson og Sigurlín Margrét
Sigurðardóttir.