Hilmar Guðlaugsson fæddist 2. desember 1930 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 2. apríl 2025.

Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir, f. 18.6. 1911, d. 28.10. 2014, og Guðlaugur Þorsteinsson, f. 27.7. 1909, d. 9.9. 1974. Blóðfaðir Hilmars var Svafar Dalmann Þorsteinsson, f. 4.1. 1910, d. 1980.

Eiginkona Hilmars var Jóna Guðbjörg Steinsdóttir frá Vestmannaeyjum, f. 6.12. 1928, d. 30.1. 2019. Þau gengu í hjónaband árið 1950. Börn þeirra eru Steingerður, f. 6.8. 1949, maki hennar Bjarni Pétur Magnússon, þau eiga fjögur börn, sjö barnabörn og fimm barnabarnabörn. Guðlaugur Rúnar, f. 1953, maki Sigrún Magnúsdóttir, f. 1953, látin. Eiga þau tvo syni og tvö barnabörn. Guðlaugur er í sambúð með Ástu Ástþórsdóttur. Atli, f. 1959, maki Hildur K. Arnardóttir, eiga þau þrjú börn og sex barnabörn.

Hilmar varð gagnfræðingur frá Ingimarsskóla 1948. Lærði múrverk undir handleiðslu afa síns, Jóns Eiríkssonar, og útskrifaðist frá Iðnskólanum í Reykjavík 1954. Síðar sótti hann námskeið í Bandaríkjunum og sérhæfði sig þar í lagningu flísa og mósaík, vann við múrverk þar til árið 1972 er hann skipti um starfsvettvang og varð framkvæmdastjóri Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og var það til starfsloka árið 2000 er hann fór á eftirlaun.

Hilmar var virkur í félagsstarfi múrara, m.a formaður Múrarafélags Reykjavíkur frá 1965 til 1975, og fyrsti formaður Múrarasambandsins við stofnun þess árið 1973 og gegndi því til 1977. Í formennskutíð Hilmars í Múrarafélaginu var hart tekist á um orlofsheimilamál, beitti Hilmar sér af einurð fyrir því að Múrafélagið ásamt með Múrarameistarafélaginu festi kaup á jörðinni Öndverðarnesi. Hilmar gekk til liðs við reglu Oddfellowa árið 1967. Kosinn í miðstjórn ASÍ árið 1968 og sótti m.a. á þess vegum þing erlendra samtaka. Hann varð formaður knattspyrnufélags Fram 1978 til 1986 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum á vegum félagsins. Hilmar var kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur 1982, sat í Bygginganefnd Reykjavíkur í 30 ár, þar af sem 12 ár sem formaður. Í stjórn Verkamannabústaða frá árinu 1971 og sem formaður Húsnæðisnefndar borgarinnar í fjögur ár. Búsettur í Grafarvogi tók hann þátt í undirbúningi og stofnun félags eldri borgara sem ber nafnið Félag eldri borgara í Grafarvogi, Korpúlfar. Við stofnun voru félagarnir 25 en telja nú á annað þúsund. Hilmar var formaður félagsins í fjögur ár. Þau hjón voru virk í safnaðarstarfi Grafarvogskirkju frá því er þau fluttu í Grafarvoginn allt til æviloka.

Útför fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 14. apríl 2025, klukkan 14.

Í 60 ár höfum við tengdafaðir minn fylgst að allt frá því að ég kynntist dóttur hans sem síðar varð kona mín. Tengdafaðir minn var rólyndur og traustur maður eða með öðrum orðum drengur góður. Tengdaforeldrar mínir voru millistríðsárabörn sem lærðu að gæta hagsýni og fara vel með sitt en voru samt ætíð til staðar fyrir afkomendur sína ef með þurfti.

Við vorum ekki á sama máli í stjórnmálunum, hann sjálfstæðismaður, ég krati. Öll þessi ár skarst aldrei í odda milli okkar enda þegjandi samkomulag að ræða ekki um átakamál er skildu okkur að.

Tengdafaðir minn var einstaklega réttsýnn maður, dæmi þar um nefni ég er hann sem formaður byggingarnefndar neitaði að samþykkja ósk borgarstjóra, þegar bygging Ráðhússins stóð yfir, um að bæta við hæð hússins umfram það sem leyfilegt var, sem sýnir vel samviskusemi hans og talar skýrt um það hversu vel aðrir treystu dómgreind hans. Tengdafaðir minn gegndi formennsku í knattspyrnufélaginu Fram og á þess vegum gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum enda ætíð mikill áhugamaður um íþróttir.

Hvar sem hann kom að félagsmálum var honum treyst til forystu, þannig kom hann að stofnun Korpúlfa, félags eldri borgara í Grafarvogi, og var formaður þar í fjögur ár. Hann var Oddfellowi í stúkunni Þórsteini nr. 5 og hefur ugglaust unnið að mörgum góðum málum þar, m.a. með stuðningi við Grafarvogskirkju.

Félagsmálastörfin tóku sinn tíma en tengdafaðir minn átti konu sem sýndi honum skilning og studdi hann í hvívetna en hlutur maka frammámanna gleymist oft.

Eitt mál var honum erfitt en sýndi vel framsýni hans, það var þegar hann barðist sem formaður Múrarafélagsins fyrir kaupum á landi Öndverðarness, var hann þá sakaður um að stefna fjárhag félagsins í voða. Eftir á að hyggja reyndist það mikið happa- og gæfuspor. Öndverðarnesið hefur verið sælureitur margra, hvort heldur sumarhúsaeigenda eða annarra sem notið hafa einstakrar aðstöðu staðarins.

Síðustu árin höfum við nokkrir spilafélagar sem búum hér í Mörkinni hist þrisvar í viku til að taka í spil, kynntist ég þá vel keppnisskapi tengdapabba en bridgespilari var hann góður en gat verið tapsár. Veit ég að þær stundir voru honum sem okkur hinum dýrmætar og kveðjum við góðan spilafélaga með söknuði.

Síðustu árin voru honum erfið sökum lasleika, byltur og tíðar ferðir á bráðamóttöku voru honum sem og konu minni erfiðar og settu sitt mark. Átti hann síðari ár þá ósk heitasta að fá að njóta öryggis á hjúkrunarheimili en fékk ætíð höfnun. Vonandi kemur sá dagur að okkar ríka samfélag geti boðið sjúkum ellilífeyrisþegum vistun á hjúkrunarheimili.

Að lokum kveð ég mætan mann með þá von í brjósti að hann dvelji með tengdamóður minn í Draumalandinu.

Bjarni Pétur Magnússon.

Elsku afi hefur tekið flugið í draumalandið til ömmu Jónu og eftir lifa kærar minningar okkar systkina.

Afi var gleðipinni og hafði gaman af því að djassa á píanóið. Hann var alltaf til í glens og gaman með okkur og eru minningar úr áramótapartíum, frá litlu þjóðhátíðarhelgunum í Mallakoti og öðrum hátíðarstundum í fjölskyldunni dýrmætar. Afi tók virkan þátt í árlegum jólabakstri fjölskyldunnar þar sem hann sá um sendiferðirnar og púrtvínið.

Afi tileinkaði sér ýmsar nýjungar og það var mikil eftirvænting og spenna í fjölskyldunni þegar hann keypti VHS-vídeótækið. Þar kom fjölskyldan saman og horfði á spólur og afi tók upp barnaefni eins og Tomma og Jenna sem við gátum horft á aftur og aftur.

Afi var virkur í félagsstörfum og mikil fyrirmynd sjálfboðaliðans hvort sem var í íþróttahreyfingunni, pólitík eða Oddfellow. Hann var mikill Frammari og fylgdist vel með íþróttaiðkun afkomenda sinna.

Heimili ömmu og afa var alltaf opið okkur systkinum til lengri og skemmri tíma. Afi byggði sumarbústaðinn Mallakot þegar við vorum lítil börn og hefur hann alla tíð verið okkur ljúft athvarf. Þar áttum við margar góðar stundir, hvort sem var við að dansa á pallinum, spila á spil eða í golfi. Afi var mikill keppnismaður og fannst slæmt að tapa enda gerðist það mjög sjaldan.

Ógleymanlegar eru allar utanlandsferðirnar sem við fórum saman í. Allar ferðirnar til Þýskalands, til Mallorka og stórfjölskylduferðin til Ítalíu sem var sérlega vel heppnuð.

Elsku afi, takk fyrir allt sem þú gafst okkur, það eru forréttindi að hafa fengið að vera samferða þér öll þessi ár. Minning þín lifir, ljúf og góð.

Þín

Jóna Hildur, Kristín
Leopoldína, Hilmar
Magnús og Guðrún Ásta.

Elsku afi langi, nú er komið að því að kveðja þig en þú ert kominn til langömmu Jónu.

Þegar ég hugsa til baka koma upp ótal góðar minningar úr Mallakoti, bæði úr bústaðnum og af golfvellinum. Einnig úr Rauðhömrunum, því það var alltaf gott að koma til ykkar langömmu.

Nú þegar ég horfi til baka þykir mér afskaplega vænt um síðustu fjögur ár sem við æfðum saman. Að fá að hittast svona reglulega, spjalla og gera æfingar hefur verið svo dýrmætt. Þú dæstir þó oft þegar ég labbaði inn um dyrnar heima hjá þér því þá þurftir þú að standa upp úr stólnum þínum góða og gera æfingar með mér. Ég veit þó að þér þótti líka vænt um þessar stundir og varst þakklátur fyrir þær alveg eins og ég. Það er svo dýrmætt að fá að kynnast ömmum og öfum og hvað þá langafa sínum á fullorðinsaldri.

Stelpurnar mínar munu sakna þess að fá að hitta langalanga eins og mamma þeirra. Ég vona að þér líði vel með langömmu og þakka ykkur fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Ágústa Ýr.

Ég kynntist Hilmari þegar hann var framkvæmdastjóri verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og um leið einn helsti burðarás flokksskrifstofunnar. Ég var í Heimdalli og naut þess að hann var ætíð boðinn og búinn að aðstoða sjálfstæðisfélögin í starfi sínu.

Í kosningabaráttu var Hilmar ómetanlegur. Fáir þekktu borgina betur og hann bjó yfir fjölmörgum sígildum kosningaráðum, sem alltaf reyndust vel.

Hilmar vann lengi að borgarmálum og var mjög farsæll á þeim vettvangi. Hann var í góðu sambandi við fjölmarga sem tengdust þeim málaflokkum er hann vann að hverju sinni.

Hilmar vann mest að byggingarmálum og húsnæðismálum og var ötull málsvari þeirra sem minna mega sín. Auk þess hafði hann einlægan áhuga á að efla atvinnulífið í borginni með því að búa því sem best starfsskilyrði. Þannig vildi hann örva verðmætasköpunina og minnti jafnframt á að slíkt væri forsenda öflugs velferðarkerfis.

Þegar ég hóf störf að borgarmálum urðum við góðir vinir og samstarfsfélagar. Um nokkurra ára skeið sátum við saman í húsnæðisnefnd Reykjavíkur, sem hafði með höndum uppbyggingu, rekstur og úthlutun félagslegra eignaríbúða (verkamannabústaða) í borginni. Hilmar lagði sig fram um að kenna mér hvernig hlutirnir gengu fyrir sig og gaf mér góð ráð. Betri læriföður var ekki hægt að óska sér í þeim efnum.

Í húsnæðisnefndinni sátu fulltrúar, sem skipaðir voru af borgarstjórn og verkalýðsfélögum. Afar gott samstarf var í nefndinni og hef ég aldrei starfað í nefnd, sem hefur verið jafn samtaka og laus við flokkadrætti. Sumir nefndarmenn höfðu setið áratugi í nefndinni og varð ég þess fljótt áskynja að samstarf þeirra byggðist á mikilli og traustri vináttu.

Það var mjög lærdómsríkt fyrir mig að sitja í húsnæðisnefndinni og fylgjast með starfi Hilmars og annarra reynslubolta sem þar sátu. Hygg að fáir hafi þekkt betur kjör alþýðu Reykjavíkur. Þegar erfið mál komu inn á borð nefndarinnar, töldu þeir ekki eftir sér að verja drjúgum tíma og fyrirhöfn í að finna úrlausn fyrir viðkomandi fjölskyldu eða einstakling, sem í mörgum tilvikum bjó við bág kjör.

Auðheyrt var að séreignarstefnan naut mikils stuðnings í nefndinni, óháð því hvar menn stóðu annars í hinu pólitíska litrófi. Einn nefndarmaður, sem gekkst stoltur við því að vera kommi, taldi helsta kost félagslega eignaríbúðakerfisins vera þann að það gerði láglaunafólki kleift að eignast íbúðirnar, sem væri einmitt það sem það vildi. Hann vildi því efla kerfið á þessum forsendum og naut sú skoðun almenns stuðnings í nefndinni. Hann óttaðist að ef hugmyndir um afnám kerfisins yrðu að veruleika, myndi það draga úr möguleikum efnalítils fólks á að eignast eigin íbúð, eins og hefur því miður komið á daginn.

Eftir að Hilmar hætti í borgarstjórn heyrðumst við sjaldnar en áður en sem fyrr var hann óspar á hvatningu, heilræði og stuðning. Vil ég að leiðarlokum þakka Hilmari fyrir frábært samstarf og mikinn velvilja í minn garð og sendi fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur. Minningu um góðan dreng mun ég halda í heiðri á meðan mér endast dagar.

Kjartan Magnússon.