Lækning Tæplega eitt og hálft ár er liðið síðan Javier Milei komst til valda í Argentínu og virðist róttæk frjálshyggjutilraun hans vera að bera árangur.
Lækning Tæplega eitt og hálft ár er liðið síðan Javier Milei komst til valda í Argentínu og virðist róttæk frjálshyggjutilraun hans vera að bera árangur. — AFP/Saul Loeb
Samningar tókust á föstudag um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) veitti argentínska ríkinu 20 milljarða dala lán til 48 mánaða. Er láninu ætlað að auðvelda Argentínu að ráða betur við að koma jafnvægi á greiðslujöfnuð landsins við umheiminn, en…

Samningar tókust á föstudag um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) veitti argentínska ríkinu 20 milljarða dala lán til 48 mánaða.

Er láninu ætlað að auðvelda Argentínu að ráða betur við að koma jafnvægi á greiðslujöfnuð landsins við umheiminn, en samhliða því að tilkynnt var um lánveitinguna greindu argentínsk stjórnvöld frá að dregið yrði verulega úr gjaldeyrishöftum og gengi argentínska pesóans leyft að sveiflast á breiðara verðbili. Miðar þetta allt að því að auka aðgengi argentínska hagkerfisins að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Á föstudag var einnig tilkynnt að Alþjóðabankinn myndi veita Argentínu 12 milljarða dala fyrirgreiðslu. Er tæpur helmingur þeirrar upphæðar eyrnamerktur skattaumbótum, innviðaverkefnum og örvun einkageirans, og þá er tæpur helmingur ætlaður verkefnum á sviði námavinnslu, landbúnaðar og orkuframleiðslu. Þessu til viðbótar mun Þróunarbanki Rómönsku Ameríku (e. Bank of Inter-American Development) leggja af mörkum 10 milljarða dala. Þar af á að nota sjö milljarða til að fjármagna útgjöld hins opinbera og þrír milljarðar verða notaðir til að örva einkageirann.

Reuters greinir frá að strax í dag, mánudag, muni seðlabanki Argentínu leyfa gengi pesóans að sveiflast á bilinu 1.000 til 1.400 gagnvart bandaríkjadal, en við lokun viðskipta á föstudag hljóðaði hið opinbera gengi upp á 1.074 pesóa fyrir hvern dollara. Þýðir þetta að seðlabankinn gæti leyft pesóanum að veikjast um allt að þriðjung frá því sem nú er, en leyfilegt verðbil hans verður eftirleiðis rýmkað um 1% í mánuði hverjum.

Jafnframt mun seðlabankinn binda enda á gjaldeyrishöft af ýmsum toga og verður fyrirtækjum m.a. gert auðveldara að færa hagnað úr landi, en höftin sem um ræðir hafa verið við lýði frá árinu 2019.

Á fundi með blaðamönnum sagði Luis Caputo fjármálaráðherra Argentínu að vonir stæðu til að þessar aðgerðir gerðu argentínska gjaldmiðilinn „heilbrigðari“, að þær drægju úr verðbólgu og veittu stjórnvöldum á endanum svigrúm til að lækka skatta. ai@mbl.is