Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Á ensku eiga þeir ágæta setningu sem er eitthvað á þessa leið: „If it looks like a duck, walks like a duck and quacks like a duck, it's probably a duck.“ Eða í þessu tilviki, skattahækkun

Á ensku eiga þeir ágæta setningu sem er eitthvað á þessa leið: „If it looks like a duck, walks like a duck and quacks like a duck, it's probably a duck.“

Eða í þessu tilviki, skattahækkun. Ekki leiðrétting. Skattahækkun.

Sjálfum þótti mér það svolítið krúttlegt, skemmtilega ósvífið, þegar stjórnarflokkarnir ákváðu að kalla allar skattahækkanir „leiðréttingu“.

Skiljanlega var þeim nokkur vandi á höndum eftir skýra yfirlýsingu formanns Viðreisnar á fyrsta blaðamannafundi Valkyrjanna, nýja þríeykisins, eftir að stjórnin var skrúfuð saman, þar sem formaðurinn sagði engar skattahækkanir fyrirhugaðar.

Skömmu síðar komu spunameistararnir og hugtakasmiðirnir með lausn. Leiðrétting skal það heita.

Nú á að leiðrétta skattbyrði hjóna um 2.700 milljónir á ári, til hækkunar. Það virðist vera að allar leiðréttingar falli þeim megin að til hækkunar horfi fyrir skattgreiðendur. Undarlegar tilviljanirnar í þessum villum sem Valkyrjurnar og Daði Már finna.

Heldur ógeðfelld sýn birtist í rökstuðningi í nýrri reiknivél á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, þar sem segir í dæmi af hjónum þar sem annar aðilinn er með 1,6 milljónir á mánuði en hinn er með 500 þúsund í tekjur að „eftirgjöf tekjuskatts vegna samnýtingar á ársgrunni sé 273.774 krónur á ári“.

Eftirgjöf tekjuskatts!? Það er engin eftirgjöf. Lögin eru bara svona. Og stjórnin ætlar að breyta þeim reglum í enn einni árásinni á fjölskyldueininguna, sem hingað til hefur verið sátt um að sé grunnur íslensks samfélags. Fjölskyldan.

Yfirlætið sem í því felst að kalla þetta „eftirgjöf tekjuskatts“ ber með sér þá afstöðu að í raun eigi ríkissjóður þetta allt, allt sem ekki er skattlagt í botn er „eftirgjöf“.

Lægra virðisaukaskattsþrepið á t.d. matvæli er eftirgjöf sem nemur mismuninum upp í efra þrepið og svo framvegis.

Önnur leiðrétting er svo veiðigjaldið, enn hefur þó enginn bent á að það hafi verið vitlaust reiknað á fyrri stigum, ekki frekar en tekjuskattur þeirra sem eru samskattaðir.

Af 184 blaðsíðum af minnisblöðum sem birtust nýlega og voru unnin af ráðuneytum og stofnunum þegar stjórnarmyndunarviðræður voru í gangi kemur orðið „veiðigjald“ fyrir 204 sinnum, orðið „leiðrétting“ einu sinni og það í allt öðru samhengi en greiningu á áhrifum breytingar á veiðigjöldum.

Allt er þetta því miður spuni hjá ríkisstjórninni. Flótti frá eigin orðum. Enda hefur fallið hratt á mörg hinna fögru loforða frá því fyrir kosningar, þótt aðeins séu rúmir 100 dagar síðan nýja þríeykið tók við völdum.

Þegar öllu er á botninn hvolft: þegar ráðherrar tala um leiðréttingu, þá meina þeir skattahækkun!

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason