Sigríður Steinunn Stephensen fæddist 18. febrúar 1961. Hún lést 25. mars 2025.

Útför fór fram 7. apríl 2025.

„Við erum alltaf að hittast,“ man ég að Sigga Steina sagði í síðasta sinn sem ég sá hana en þá höfðum við hist á förnum vegi þrisvar með örstuttu millibili. Ég man þegar ég kynntist Siggu Steinu fyrst eins og það hefði gerst rétt fyrir það. Þá var hún spænskukennari minn í MH. Hún var einstaklega skemmtilegur kennari, frjó, lifandi og brosmild og hló þegar við vorum með fíflalæti. Ég man brot úr setningum sem hún sagði, tónlist sem hún spilaði. Báðir bræður hennar voru með mér í menntaskóla. Ekki grunaði mig að hún ætti síðar eftir að vera mágkona mín þegar hún tók saman við Jón Hall bróður minn og ekki grunaði mig að ég ætti eftir að verja tíma með þeim á Spáni þar sem ég hafði eiginlega skráð mig í doktorsnám í bókmenntum með enga tungumálakunnáttu í farteskinu nema einmitt menntaskólaspænskuna. Þau bjuggu í brekkunni ofan við barinn og Iðunn dóttir þeirra með þeim og versluðu í smábúðinni hans Julios eins og við og Sólrún dóttir okkar.

Það slitnaði ekki sambandið á milli okkar Siggu þótt leiðir skildi í fjölskyldunni. Ég leitaði til hennar og hún til mín. Ég hélt að hún yrði alltaf spænskukennari en síðan reyndist hún ómetanlegur dagskrárgerðarmaður, með einhverja bestu útvarpsrödd sem til var, óþreytandi í grúski eftir óvenjulegri tónlist frá framandi slóðum. Leiðir okkar lágu saman eftir óteljandi leiðum. Eftir að pabbi dó hélt ég sið hans og fór til Siggu Steinu með örlitla gjöf hvern aðfangadag. Hún var einstaklega hjálpsöm og þegar mömmu fór hrakandi gat ég alltaf beðið, meðal annarra, Siggu Steinu að heimsækja hana og sinna henni þegar ég brá mér af bæ. Ég laug blákalt að minni ofurnæmu mömmu ef heimsóknin var óvænt og hún skynjaði eitthvað og sagðist ekkert hafa haft með þetta að gera. Enda var Sigga Steina aufúsugestur og alltaf ræktarsöm við fjölskylduna. Stundum hittumst við á kaffihúsum. Hún var alltaf jafn skemmtilegur félagsskapur, blíð, fyndin, með lúmskan húmor og einkennandi spékoppa, en þó var hún ekkert meinleysisgrey og gat bitið ef hún vildi, hún beit bara aldrei mig. Ég beit sjálfur fast fyrir hennar hönd og það gerðu fleiri þegar henni og annarri útvarpskonu var vísað úr starfi án tilefnis, nema þær hafi kannski verið of krítískar í hugsun. Mér sýndist samt að hún hefði fundið sig vel í starfi á bókasafni. Átti einhverju sinni erindi við hana þangað og fannst hún vera heima hjá sér. Sigga Steina var frekar dul. Ég er frekar dulur sjálfur. Það getur verið erfitt að vita hverju slíkt fólk trúir en ég trúi því sem skammtafræðin er farin að segja: Allir tímar eru til í einu. Tíminn er ekki línulegur heldur allur í einni andrá.

Ég votta Iðunni frænku minni og bræðrunum Eiríki og Sverri, vinum mínum, dýpstu samúð mína. Það er enn eins og Sigga Steina sagði þegar ég hitti hana um daginn: „Við erum alltaf að hittast.“

Hermann Stefánsson.

Haustið 1991 hafði ég unnið í tæpt ár sem dagskrárgerðarmaður á tónlistardeild RÚV. Ég hafði ákveðið að hætta um áramótin, vildi stunda nám í París. Og þetta haust voru fjórir nýir starfsmenn ráðnir. Einn þeirra var Sigríður Stephensen og ég fékk það hlutverk að setja hana inn í starf dagskrárgerðarmanns. Sigga Steina var glaðleg í viðmóti og hafði geislandi bros. Hún var áhugasöm og fljót að tileinka sér starfið.

Um sumarið 1992 kom ég frá París og var aftur ráðin á RÚV. Þrír af nýju starfsmönnunum störfuðu þá enn hjá útvarpinu: Lana Kolbrún Eddudóttir, Gunnhild Öyahals og svo Sigga Steina. Það var ánægjulegt að starfa með þeim, fleiri bættust í hópinn og sterk vinátta myndaðist. Og það var ekki síst Sigga Steina sem var kjarninn í þessum hópi samstarfsmanna og vina.

Sigga Steina var lágvaxin, grönn og dálítið stelpuleg í útliti. Innra með henni bjó hins vegar mikill kraftur. Einu sinni hafði okkur tveimur verið falið að fara yfir nýja geisladiska. Diskarnir voru í stærðar kassa á skrifstofugólfi og þar sem ég hef alltaf verið kraftalítil leist mér ekki alveg á að bera kassann yfir á okkar svæði. „Er þetta ekki of þungt?“ sagði ég. En Sigga hnussaði fyrirlitlega og kippti kassanum út fyrir dyrnar með snöggu og kraftmiklu handtaki. Á sama hátt var hún alltaf óhrædd við að segja skoðanir sínar.

Sigga Steina hafði dvalist á Spáni og kunni spænsku. Hún var mikill tónlistarunnandi og hafði ekki síst áhuga á þjóðlögum frá ýmsum löndum, sá lengi um vinsælan þátt sem fjallaði um það efni. Hæfni hennar í starfi leyndi sér ekki. Einu sinni fékk ég hana til að lesa í þætti sem ég var með. Lestur Siggu átti að koma yfir tónlist, en á þessum tíma voru ekki notaðar tölvur, lesturinn var tekinn upp um leið og tónlistin var spiluð. „Hvað ef ég mismæli mig?“ sagði Sigga sem gerði sér raunar grein fyrir að þá yrði að byrja upp á nýtt. „Þú mátt bara ekki mismæla þig!“ sagði ég, sumpart í gamni, sumpart í alvöru. Og auðvitað mismælti Sigga sig ekki.

Vinátta Siggu Steinu var sterk og hlý. Við unnum saman í 24 ár og það var mikið áfall og missir fyrir útvarpið þegar henni og Hönnu G. Sigurðardóttur var skyndilega sagt upp árið 2015. Þrátt fyrir það hittumst við stöku sinnum. Ég hitti Siggu Steinu á Laugavegi einni viku áður en hún dó. Hún var hress í viðmóti og við spjölluðum margt saman. Eftir að við kvöddumst áttaði ég mig á einu, ég hafði gleymt að segja henni að til stæði að ég færi til Spánar í haust í fyrsta skipti á ævinni. Ég vissi að það myndi vekja áhuga hennar og hún gæti sagt og ráðlagt mér svo margt. „Jæja, þetta er allt í lagi, ég skrifa henni bara tölvuskilaboð,“ hugsaði ég. Og ég hélt að ég hefði nægan tíma. En viku seinna fékk ég sorgarfréttina um að Sigga Steina hefði dáið skyndilega. Hún er horfin og ég get aldrei sagt henni frá Spánarferðinni. Ekki nema til sé annað líf og við eigum eftir að hittast þar. Tónlistin, þessi undursamlega list sem leiddi okkur saman, vekur vissulega vonir um að til sé eitthvað æðra þessu lífi.

Una Margrét Jónsdóttir.