Guðjón Jensson
Heimskreppan mikla á millistríðsárunum hófst í miklu verðhruni hlutabréfa í kauphöllinni í New York í október 1929. Hún olli gríðarlegum áhrifum meira og minna um allan heim, einkum Vesturlönd. Gríðarleg spákaupmennska var fram að verðfallinu sem varð mjög afdrifarík. Á stuttum tíma urðu fyrirtæki gjaldþrota eða minnkuðu framleiðslu sína verulega. Atvinnuleysi fór mjög hratt vaxandi og kaupmáttur venjulegs fólks fór þverrandi. Stjórnvöld innleiddu tolla til að vernda innanlandsframleiðslu, sem ekki var til bóta, enda varð það til þess að samkeppni varð minni og verðlag leitaði ekki lengur að jafnvægi.
Heimurinn stendur nú á svipuðum tímamótum við nýjustu ákvarðanir Donalds Trumps sem telur að tollamúrar séu kjörnir til að „gera Bandaríkin stórkostleg að nýju“. Þvílík blekking. Reikna má með vaxandi tortryggni gagnvart Bandaríkjunum. Venjulegir íbúar þar eiga það ekki skilið og sitja uppi með hæstráðanda sem ákveður stefnuna hversu rétt eða röng hún reynist vera.
Er ný heimskreppa í aðsigi í boði Trumps?
Við eigum um fátt annað að velja en að halla okkur í vaxandi mæli að Evrópusambandinu, sem verið hefur höfuðvígi mannréttinda og virks lýðræðis í heiminum. Innan Evrópusambandsins hefur verið byggt upp gríðarlega öflugt sameiginlegt réttarríki sem er til fyrirmyndar í ótal mörgu, hvað sem úrtöluraddirnar á Íslandi kunna að segja. Við eigum sem stendur um fátt annað að velja í varhugaverðri veröld. Við erum mjög vanburða gagnvart ásælni núverandi Bandaríkjaforseta, sem virðist hafa það eitt á dagskrá sinni að leggja smám saman undir sig allan hinn vestræna heim með hergagnaframleiðendur í Bandaríkjunum sér að baki. Nú er spurning hvenær hann sendir sína hermenn og tekur Grænland. Ef Grænlendingar taka því illa, verða þeir þá kannski flæmdir burt eða drepnir? Þannig urðu örlög indíánanna fyrrum sem voru sálarlaust murkaðir niður með köldu blóði.
Á undanförnum misserum höfum við orðið vitni að vaxandi siðleysi víða í veröldinni. Það kemur einkum fram í herferð Benjamíns Netanjahús gegn Palestínu á Gasa. Sama má segja um stríð Pútíns við Úkraínu. Með gríðarlegu miskunnarleysi eru hundruð þúsunda drepin og líklega munu fleiri lifa við örkuml. Grimmdin er orðin slík að okkur sem frjálsri þjóð ber að velja á milli miskunnarleysisins annars vegar en skynseminnar og mannúðarinnar hins vegar. Fyrir Donald Trump virðist græðgin og ágirndin vera öllu öðru mikilvægara. Hann vill sölsa undir sig og komast yfir verðmæti í öðrum löndum eins og Grænlandi, Gasa og Úkraínu með öllum tiltækum ráðum.
Við á Íslandi gætum gegn okkar vilja dregist auðveldlega inn í þessar deilur, meðal annars vegna gamals varnarsamnings við BNA frá 1951. Þessi samningur var af ókunnum ástæðum endurnýjaður með leynd árið 2017 án vitundar þings og þjóðar. Þar er víðtækum réttindum í þágu bandarísks herliðs heitið. Við getum ekki útilokað að Ísland verði hugsanlega misnotað sem áfangastaður fyrir árásarlið Donalds Trumps að yfirtaka Grænland. Áleitin spurning er hvort ekki sé kominn fram forsendubrestur fyrir varnarsamningi við Bandaríkin ef það reynist rétt að NATO sé í upplausn í boði núverandi bandaríkjaforseta.
Margt minnir óþægilega á aðdraganda og upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar þar sem áþekkt hugarfar réð ákvörðunum umdeilds þjóðarleiðtoga.
Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður, tómstundablaðamaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.