Tvö Framherjinn Guðmundur Magnússon kom inn á sem varamaður og tryggði Fram magnaðan sigur með tveimur mörkum á lokakaflanum.
Tvö Framherjinn Guðmundur Magnússon kom inn á sem varamaður og tryggði Fram magnaðan sigur með tveimur mörkum á lokakaflanum. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fram vann ótrúlegan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks, 4:2, í 2. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í gærkvöldi. Héldu flestir að Breiðablik væri að gera góða ferð í Úlfarsárdalinn þegar klukkutími var liðinn en þá var staðan 2:0 fyrir gestina frá Kópavogi

Besta deildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Fram vann ótrúlegan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks, 4:2, í 2. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í gærkvöldi.

Héldu flestir að Breiðablik væri að gera góða ferð í Úlfarsárdalinn þegar klukkutími var liðinn en þá var staðan 2:0 fyrir gestina frá Kópavogi. Óli Valur Ómarsson og Tobias Thomsen, sem báðir komu til Breiðabliks fyrir tímabilið, skoruðu í fyrri hálfleik og komu Breiðabliki í álitlega stöðu.

Framarar neituðu hins vegar að gefast upp og skoruðu fjögur mörk á ellefu mínútna kafla þegar skammt var eftir. Sigurjón Rúnarsson gerði það fyrsta, Kennie Chopart jöfnunarmarkið og Guðmundur Magnússon tvö síðustu en hann kom inn á sem varamaður á 66. mínútu.

Fram tapaði fyrir ÍA í fyrstu umferð á heimavelli, 1:0, og stefndi allt í að liðið yrði stigalaust eftir tvo leiki. Þess í stað eru stigin þrjú og kominn meðbyr. Breiðablik var skotið niður á jörðina.

Öruggt hjá Víkingum

Víkingur er fyrsta liðið til að fara upp í sex stig eftir sannfærandi heimasigur á KA, 4:0. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði tvö mörk á fyrstu 14 mínútunum og Karl Friðleifur Gunnarsson bætti við þriðja markinu á 24. mínútu.

Var þá aðeins spurning hve stór sigurinn yrði. Víkingar bættu þó aðeins við einu marki og það gerði Helgi Guðjónsson á 54. mínútu.

Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri, gegn KA-liði sem bauð ekki upp á mikið. Átti KA aðeins eitt skot á markið gegn átta hjá Víkingum. Sölvi Geir Ottesen byrjar vel sem aðalþjálfari. Víkingar hafa sigrað ÍBV og KA á heimavelli og þreyta þyngri próf í næstu umferðum.

Jafnt í nýliðaslagnum

Nýliðarnir Afturelding og ÍBV skildu jafnir, 0:0, í fyrsta heimaleik Aftureldingar í efstu deild frá upphafi. Bæði lið eru með eitt stig, eftir tap í fyrstu umferðinni. Fékk Afturelding því sitt fyrsta stig í efstu deild.

Afturelding getur þakkað markverðinum Jökli Andréssyni stigið. ÍBV skapaði sér mun fleiri færi. Oliver Heiðarsson og Omar Sowe fengu báðir úrvalsfæri sitthvorumegin við hálfleikinn en tókst ekki að skora.

Aftureldingu gekk illa að skapa sér opin færi og var því ekkert skorað í Mosfellsbænum.

Vestri byrjar vel

Vestri hefur byrjað betur en margir áttu von á en liðið sigraði FH, 1:0, á heimavelli. Daði Berg Jónsson, 18 ára lánsmaður hjá Víkingi úr Reykjavík, skoraði sigurmarkið á 38. mínútu með góðu skoti eftir fallega sókn.

Vestramenn eru með fjögur stig eftir útileik við Val og heimaleik gegn FH. FH-ingar fara hins vegar illa af stað og eru stigalausir eftir tvær umferðir. Liðið lék ekki vel í gær og skapaði sér sárafá færi gegn sterkri vörn heimamanna frá Vestfjörðum.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson