Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
7.365 einstaklingar sitja í stjórnum sambandsaðila UMFÍ og ÍSÍ í deildum félaga um allt land. Ef greitt væri fyrir þessi stjórnarstörf eins og greitt er fyrir nefndarsetu hjá sveitarfélögum þá væri launakostnaðurinn á bilinu 1,8 til 3,6 milljarðar króna á ári. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímarits UMFÍ.
Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ tekur dæmi um greiðslur sveitarfélaga fyrir nefndarsetu.
„Þingfararkaup er 1.525.841 króna á mánuði sem þýðir að 2,5% þóknun af þingfararkaupi til áheyrnarfulltrúa og varamanna fyrir hvern fund getur verið 38.146 krónur. Fastanefndarfólk sem fær 3% af þingfararkaupi fær greiddar 65.273 krónur fyrir hvern fund. Þeir sem fá greidd 2% af þingfararkaupi fá 30.517 fyrir hvern fund.“
Auður Inga tekur fram að tölurnar hafi verið settar fram til að sýna fram á umfang þessarar starfsemi og hvað gríðarlega margir taka þátt í starfinu. Viðmiðið sem hún notaði í þessum útreikningi eru átta fundir á ári, þótt margar þessara stjórna fundi mun oftar.
„Ef greitt væri fyrir átta fundi á ári miðað við 2% af þingfararkaupi væri heildarupphæðin 1,8 milljarðar og ef miðað væri við 4% af þingfararkaupi yrði upphæðin 3,6 milljarðar.“
Auður segir orðið erfiðara en áður að fá fólk til að taka þátt í sjálboðaliðastarfi en hún vilji sýna með þessari samantekt hversu gríðarlega margir koma að þessu.
Nýlega var kynnt nám um sjálfboðaliðastörf við Fjölbrautaskóla Vesturlands og segir Auður að hugmyndin hafi hlotið svo góðar undirtektir að í vinnslu sé að taka námið upp í fleiri skólum.
„Þetta nám er nýtilkomið þar sem nemendur fá fræðslu um gildi sjálfboðaliðastarfs og hvernig hreyfingin er uppbyggð. Svo er þeim gefinn kostur á að fara inn í félögin til að læra sjálfboðaliðastarf og fá það svo metið í skólanum. Þetta er að breiðast út og fleiri skólar eru farnir að sýna þessu áhuga, þannig að ég hef fulla trú á að þetta muni breiðast út um landið.“
Á höfuðborgarsvæðinu starfa 2.427 sjálfboðaliðar í stjórnum íþróttafélaga, á Vestfjörðum eru þeir 544, á Vesturlandi 592, á Suðurnesjum 467, á Norðurlandi 1.631, á Austurlandi 622 og á Suðurlandi 1.082.
Í flestum tilvikum eru karlar í meirihluta í stjórnum íþróttafélaganna, en þeir eru 4.107 og konurnar 3.256.
Sums staðar eru ekki allir skráðir og segir Auður að þessi tala sé í lágmarki. Verið sé að reyna að ná utan um fjölda þeirra sem sinna sjálfboðaliðastarfi með formlegum og skipulögðum hætti í íþróttahreyfingunni. Því til viðbótar eru fjölmargir aðrir sem taka að sér einstök verkefni við mótahald eða annað slíkt.