Birnir Freyr Hálfdánarson náði í sitt fjórða Íslandsmet á Íslandsmótinu í 50 metra laug í sundi í Laugardalslaug í gær er hann synti 50 metra flugsund á 23,99 sekúndum. Bætti hann 18 ára gamalt Íslandsmet Arnar Arnarsonar sem synti á 24,02 sekúndum í Melbourne í Ástralíu árið 2007.
Ólympíufarinn Snæfríður Sól Jórunnardóttir vann 100 metra skriðsund á 55,53 sekúndum. Íslandsmetið hennar í greininni er 54,74 sekúndur. Jóhanna Elín Guðmundsdóttir varð önnur á 56,22 sekúndum.
Eitt Íslandsmet féll á laugardag og var það þriðja met Birnis. Karlasveit Sundfélags Hafnarfjarðar (SH) sló Íslandsmet í 4x100 metra skriðsundi þegar hún synti á tímanum 3:26,14 mín. og bætti þar með sjö ára gamalt met um fimm sekúndur. Sveitina skipuðu Birnir Freyr, Veigar Hrafn Sigþórsson, Símon Elías Statkevicius og Ýmir Chatenay Sölvason.