Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Evrópska umhverfismálaáætlunin LIFE, sem meðal annars hefur kostað umfjöllun í Ríkisútvarpinu, er nú til endurskoðunar hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) vegna pólitískrar misnotkunar. Ingvar Smári Birgisson, sem situr í stjórn Rúv. ohf., segir það fullt tilefni til þess að ríkismiðillinn hugsi sinn gang um styrkta dagskrárgerð, sérstaklega frá erlendum ríkjum.
Í liðnum mánuði voru sérstök viðvörunarorð bókuð í stjórn Ríkisútvarpsins ohf., vegna kostunar á dagskrárefni Rúv. með styrkjum frá hagsmunaaðilum hvers konar, en þar var sérstaklega vísað „til LIFE Icewater-verkefnisins, þar sem fyrirhugað er að stofnunin fái styrk frá Evrópusambandinu í tengslum við umfjöllun sína um verkefnið“.
Bókunin var lögð fram af fimm stjórnarmönnum, en tilefnið var fyrirspurn Ingvars Smára um í hvaða tilvikum kostuð umfjöllun á Rúv. væri heimil og hvernig ritstjórnarlegt sjálfstæði stofnunarinnar væri tryggt þegar Rúv. fengi greitt fyrir umfjöllun.
Styrkir frá erlendum ríkjum alltaf varhugaverðir
Ingvar Smári segir tíðindin frá Brussel nú undirstrika vandann.
„Viðurkenning Evrópusambandsins á því að LIFE-styrkjasjóðurinn hafi verið notaður til þess að styrkja pólitíska aðgerðahópa í umhverfismálum gefur fullt tilefni fyrir Ríkisútvarpið til að móta sér viðmið um frá hverjum stofnunin þiggur styrki,“ segir Ingvar Smári í samtali við Morgunblaðið
„Með því að þiggja styrki frá Evrópusambandinu í tengslum við umfjöllun um innleiðingu tilskipana getur stofnunin eðli málsins samkvæmt rýrt trúverðugleika sinn í umfjöllun síðar meir,“ bætir hann við.
„Það er alltaf varhugavert að taka við styrkjum frá sjóðum erlendra ríkja, sér í lagi þegar téðir sjóðir hafa verið notaðir til þess að fjármagna áróðursstarfsemi.“
LIFE Icewater er fjölþætt verkefni, sem 24 opinberir aðilar auk Rúv. eiga hlut að, en ESB styrkti það um 3,5 milljarða króna síðla árs í fyrra.
Misnotkun viðurkennd af ESB
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) viðurkenndi í upphafi mánaðarins að fjárveitingar frá LIFE-áætlun sambandsins hefðu verið misnotaðar í pólitískum tilgangi af ýmsum hagsmunagæslusamtökum. Sérstaklega þykir alvarlegt að embættismenn framkvæmdastjórnarinnar vissu af þessu en aðhöfðust ekkert.
Umrædd samtök, sem öll eru vinstra megin á hinu pólitíska litrófi, nutu styrkja í gegnum LIFE-áætlunina, sem ætlað er að styðja umhverfis- og loftslagsverkefni, en dæmi væru um að fjármunirnir hefðu verið notaðir til „óeðlilegrar hagsmunagæslu“.
Þar á meðal var þrýstingur á Evrópuþingmenn um hvernig þeir greiddu atkvæði, áróður og félagsmiðlaherferðir. Ólöglegt er að nota evrópskt skattfé til að vinna stjórnmálastefnum fylgi með þeim hætti.
LIFE-áætlunin veltir árlega milljörðum evra til að styrkja verkefni sem miða að náttúruvernd og sjálfbærni.
Framkvæmdastjórnin hefur heitið því að innleiða strangari reglur til að koma í veg fyrir frekari misnotkun af þessu tagi.