Margvísleg gagnrýni á stefnuna í ríkisfjármálum kemur fram í nýrri álitsgerð fjármálaráðs um tillögu til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2026-2030. Í álitsgerðinni segir til að mynda að útgjöld hins opinbera séu „áfram hærri sem hlutfall af vergri landsframleiðslu en þau voru fyrir covid-19-faraldurinn. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að þau muni lækka sem hlutfall af VLF er það enn mjög hátt í alþjóðlegu samhengi og þá sérstaklega ef tekið er tillit til lægri útgjalda vegna lífeyrisskuldbindinga hér á landi en víðast hvar erlendis. Öðrum þjóðum tókst að draga nánast samstundis úr þeim útgjöldum sem uxu á tímabili heimsfaraldursins. Gera mætti grein fyrir því hvernig á þessu stendur.“ Óhætt er að taka undir það og ætti þetta að vera stjórnvöldum hvatning til að vinna frekar að því að draga úr útgjöldum en að hækka skatta.
Þetta tengist einnig annarri ábendingu fjármálaráðs, sem er að gert er ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda að afkoma hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu muni batna og skuldir þess sem hlutfall af landsframleiðslu lækka, en að þetta náist vegna áætlaðs hagvaxtar en ekki aðhalds í rekstri. Þetta sé varasamt og er meðal annars bent á ótryggar ytri aðstæður um þessar mundir í því sambandi sem auki óvissu um hagvöxt.
Loks vekur sérstaka athygli sú aðfinnsla fjármálaráðs að gert sé ráð fyrir í framlagðri fjármálastefnu að skuldahlutfallið haldist nokkuð stöðugt út þetta kjörtímabil en taki að lækka hraðar á næsta kjörtímabili. Eigi markmiðin að nást komi það því í hlut næstu ríkisstjórnar að hraða skuldalækkunarferlinu. Þetta kann að henta núverandi ríkisstjórn, sem líklega er þegar farin að huga að umræðum um árangur fyrir næstu kosningar, en fjármálaráð telur eðlilega að þetta dragi úr trúverðugleika skuldaþróunaráætlunarinnar.